Verslað á netinu – Zaful

Ég rakst á þessa netverslun um daginn sem mér fannst líta spennandi út. Verslunin heitir ZAFUL og er með mikið úrval af allskyns kvenmanns fatnaði og fylgihlutum á ótrúlega góðu verði. Þau eru með app fyrir síma og mæli ég hiklaust með að sækja appið og nota það ef þú ætlar að versla þarna, þar sem það fylgir afsláttakóði þegar þú pantar í gegnum það.

Ég hugsaði með mér að þarna gæti ég gert góð kaup fyrir Ítalíu ferðina okkar Elínar, þar sem við verðum að ferðast að sumri til og því langaði mig til að kaupa mér einhver ný sundföt, sólgleraugu, sumarkjóla og þess háttar. En við ákváðum að gera bara litla pöntun fyrst til að athuga sendingatímann, stærðirnar og gæðin á vörunum. Við pöntuðum 23.janúar og sendingin kom þann 13.febrúar, þannig að þetta tók 3 vikur að koma til landsins, svo það er um að gera að panta tímanlega.

Elín valdi sér 2 hluti, annars vegar skeljahálsmen og svartan loðjakka og hún er mjög ánægð með bæði. Jakkinn kostaði 18,05 pund og hálsmenið 2,74 pund.

Ég valdi mér 4 hluti. Mig vantaði svo nestistösku fyrir vinnuna, sem ég get samt líka haft dagbókina mína í, mígrenistöflur, Treo, hárteygjur og allskonar dót sem er gott að hafa með sér í vinnunna. En ég hef aldrei fundið réttu stærðina á tösku, allar sem ég hef séð eru annað hvort of stórar eða of litlar. Ég ákvað að taka sénsinn á að panta eina tösku á síðunni sem mér sýndist vera í réttri stærð og ég hafði rétt fyrir mér. Hún er fullkomin vinnutaska, plain svört og mátulega stór. Það vildi svo skemmtilega til að þegar ég opnaði hana var önnur taska ofan í og tvenn bönd. Þannig að þarna græddi ég bara eina auka tösku haha. Ég veit ekki hvort þetta hefur átt að vera svona eða hvort hafa orðið einhver mistök. Taskan kostaði 16,69 pund.

Það eru svo ótrúlega margir flottir sumarkjólar á síðunni, en ég ákvað að byrja á því að panta bara einn því mér finnst svo erfitt að vita hvaða stærð ég á að taka, þó það sé góð stærðartafla á síðunni þeirra, þá finnst mér gott að hafa varann á. En stærðin sem ég tók passaði mér fullkomlega og kjóllinn er ekkert smá fallegur og þægilegur! Mun klárlega versla mér fleiri kjóla fyrir ferðina þarna! Kjóllinn kostaði 15,34 pund.

Ég valdi mér svart bikini með engum hlýrum og uppháum buxum, en ég er ekki alveg nógu ánægð með sniðið á því og ekki alveg viss með stærðina heldur. Ég pantaði mér medium, en mér fannst eins og ég hefði þurft stærri buxur, en minni topp. Ég veit ekki hvort það tengist eitthvað sniðinu á bikiníinu eða hvort stærðirnar séu bara svona skrítnar hjá þeim. Ég þarf eiginlega að panta annað bikiní í öðru sniði til að vera viss. Bikiníð kostaði 11,73 pund.

Ég pantaði mér svo ein sólgleraugu og verð ég að segja að þau eru mjög falleg og gæðin virðast mjög góð. Þau komu í svartri harðri öskju með klút til að hreinsa þau. Ég á pottþétt eftir að kaupa mér fleiri sólgleraugu þarna miðað við þessi gæði fyrir þetta verð. Sólgleraugun kostuðu 9,92 pund.

Við pöntuðum fyrir 74,47 pund, en fengum svo afslátt í gegnum appið sem var 11,16 pund, svo það sem við borguðum var 62,95 pund, eða 8.898 íslenskar krónur. Ég greiddi svo 1140 kr á pósthúsinu þegar ég sótti sendinguna, svo samtals kostaði þetta 10.038 kr.

Í heildina var ég mjög ánægð með vörurnar. Mér finnst gæðin ótrúlega góð miðað við verð, allt kom í sér lokuðum pokum og virtist vera vandað til frágangs. Við mægður ætlum að gera aðra pöntun fyrir ferðina okkar og mun ég sýna ykkur frá því þegar þar að kemur.

Þér gæti einnig líkað við