Uppáhalds bækurnar hans Hlyns Atlasar

Frá því að Hlynur Atlas fæddist höfum við verið dugleg að lesa fyrir hann allskonar bækur. Allt frá stuttum, fáorða harðspjalda bækur upp í alvöru sögubækur. Hann hefur mikinn áhuga á lestri og bókum og eigum við nokkrar uppáhalds bækur sem mig langaði að deila með ykkur:

  1. Neil Armstrong frá Stórir Draumar – Þetta er bók um Neil Armstrong, hvernig áhugi hans kviknaði á flugi og hvernig hann varð geimfari. Bókin er fallega skreytt ásamt því að vera í einföldum orðum. Hlynur biður sjálfur oftast um þessa bók til að lesa nú orðið og langar mig rosalega að eignast fleiri svona bækur.

  2. Þú mátt aldrei snerta hákarl – það eru vissulega nokkrar bækur í þessum bókaflokki en þetta er sú eina sem við höfum eignast. Það eru svona snertifletir á henni sem eru með mismunandi áferðum og Hlynur hefur elskað hana nánast frá fæðingu. Myndirnar voru skemmtilegar, textinn rímar og svo hægt að snerta og finna mismunandi áferðir á mismunandi blaðsíðum.

  3. Flipabækur – Við eigum nokkrar flipabækur, bæði harðspjald og ekki og þær hafa alltaf vakið mikla gleði hjá mínum manni. Vissulega eru margar orðnar nokkrum flipum færri, en það gerir þær ekkert síðri og hefur hann enn gaman af þeim. Ein af hans uppáhalds er Stígvélaði kötturinn.

  4. Sofðu rótt, með Hildi Völu, Friðrik Dór og KK – Hlynur Atlas fékk þessa bók í jólagjöf núna síðustu jól og hefur ósjaldan gripið í hana til að kveikja á lögum og syngja. Annað hvort er hann sjálfur að dúlla sér með bókina, bæði fletta og skipta um lög, eða við sitjum saman og syngjum. Hún er líklegast notuð daglega, ef ekki oft á dag.

  5. Disney bækur – Við höfum gripið nokkrar Disney bækur bæði í Barnaloppunni og svo kom mamma mín með frá því ég var lítil. Þetta eru alltaf mjög skemmtilegar bækur og oftast frekar stuttar, svona ef þolinmæðin er lítil. Minn maður er mest hrifinn af Krókur fljúgandi þessa stundina, enda eðlilega, þar sem barnið er með mestu bíladellu sem fyrir finnst. Hann hefur þó alveg gaman af fleirum bókum og lesum við þær oft fyrir hann.

Ég hef lagt mikið upp af því að við lesum fyrir hann og ég byrjaði að lesa fyrir hann bara nokkra vikna gamlann. Aðal ástæðan er einfaldlega sú að mér fannst, og finnst, alltaf gaman að lesa og mamma las oft fyrir okkur systkinin á kvöldin þegar ég var yngri og eru lestrastundir eitt af mínum bestu minningum. Þegar hann verður eldri þá ætla ég líka klárlega að vera duglegri með að fara með hann á bókasafnið og skoða og fá lánaðar bækur, en eins og er vill minn maður bara fara þar og taka allar bækurnar úr hillunum. Þangað til lesum við bara nóg af bókum heima og söfnum í smá bókahillu fyrir litla manninn.

Takk fyrir lesninguna!

Freydís

 

Þér gæti einnig líkað við