U106 – Staða byggingarmála

Mig langar aðeins að uppfæra ykkur um stöðuna á húsinu okkar. Það er búið að taka nokkra mánuði að vinna í því að fá byggingarleyfi. Það er ekki enn komið en við eigum von á því fljótlega. Eftir að við sendum teikningarnar fyrst inn var byggingarmálanefnd alltaf að fresta málinu okkar, viku eftir viku. Þegar þau náðu loksins að fara yfir teikningarnar var eitthvað smá sem þyrfti að laga en var við því að búast. Það er búið að fara yfir og laga allar athugasemdir og senda aftur inn. Nú erum við bara að bíða þar til þau ná að fara aftur yfir.

Það er allt tilbúið okkar megin. Við erum búin að ráða mann til að grafa fyrir okkur og getur hann byrjað um leið og við fáum leyfi. Við erum komin með byggingarstjóra og menn til að gera grunninn. Fyrirtækið sem ætlar að henda upp húsinu okkar heitir Seve og er frá Eistlandi. Þeir hafa sett upp tugi húsa hérna og erum við búin að skrifa undir samning hjá þeim. Þeir ætluðu að byrja á húsinu í september en þeir þurftu að fresta því fram í október. Einn mánuður til eða frá skiptir svosem ekki miklu. En þeir eru í sirka 5-7 vikur að setja upp húsið ásamt því að klæða það að utan og smíða pall. Þetta eru 430 fermetrar samtals bæði húsin. Þegar þeir eru búnir er húsið rúmlega fokhelt, með milliveggjum og eins og ég sagði klætt að utan og með palli.

Við erum búin að ráða pípara og rafvirkja sem taka svo við á eftir þeim. Þegar það allt saman er búið getum við farið að gipsa veggina, spartla, leggja parket, setja upp innréttingar og fleira.

Fleira sem er búið að gerast er að við erum búin að hitta ljósahönnuð sem teiknaði alla lýsinguna í húsinu. Kom virkilega vel út og gaman að sjá það. Eldhúsinnréttingarnar eru svona næstum því ákveðnar en við erum búin að fá nokkrar teikningar og nokkur tilboð. Við erum að heillast mest að einu þeirra og tökum við ákvörðun um það á næstunni.

Það er ansi margt sem við þurfum að kaupa á næstu mánuðum og verðum við að fara fljótlega í það. Við viljum að allt sé komið þegar við tökum við svo að þetta gangi sem best fyrir sig. Það getur tekið sinn tíma að panta og fá sendar vörur í dag og viljum við vera tímanlega í öllu.

Arkitektinn sem teiknaði húsið heitir Jón Grétar Ólafsson. Við erum virkilega ánægð með útkomuna. Við erum ekkert smá spennt að sjá húsið verða að veruleika hægt og rólega næstu mánuði.

Íbúðin okkar er seld. Við náðum ekki að setja hana formlega á sölu. Það var fólk sem hafði samband við okkur sem hafði mjög mikinn áhuga á íbúðinni og buðu í hana. Tilboðið var það gott að við samþykktum og afhendum við íbúðina 15. ágúst. Við erum komin með stað til að vera á í millitíðinni, á meðan við setjum upp húsið. Ef allt gengur upp samkvæmt áætlun (stórt EF) þá stefnum við á að flytja inn í húsið sumarið 2022.

Ég set reglulega eitthvað í story hjá mér á Instagram sem viðkemur húsinu og vista það allt í „highlights“. Öllum er velkomið að skoða það ef áhugi liggur fyrir.

Hlakka til að sýna ykkur þegar eitthvað „sýnilegt“ fer að gerast!

Tengdar færslur:
Innblástur fyrir baðherbergin í U106
Við ætlum að byggja hús

xo
Guðrún Birna

Instagram –> gudrunbirnagisla

Þér gæti einnig líkað við