Ég er ótrúlega skotin í The Ordinary. Uppáhalds varan í húðrútínunni minni er Hyaluronic Acid frá þeim. Ég hef einungis verið að nota tvær vörur frá The Ordinary en ég var að panta mér fleiri á Cult Beauty sem voru að detta í hús.
The Ordinary eru með ótrúlega breitt úrval af vörum fyrir allskonar húðtýpur, vandamál og markmið. Vörurnar og heitin á þeim geta verið mjög fræðileg og smá flókin en ef maður les sig vel um þá finnur maður alveg út úr því. Inni á þessari heimasíðu eru góðar lýsingar á hverri vöru og hvernig er best að nota hana. Það sem ég elska líka við The Ordinary er að þær eru á mjög viðráðanlegu verði.
Ég ætla að sýna ykkur þær vörur sem ég hef verið að nota og þær sem ég var að panta mér og er að fara prófa.
Hyaluronic Acid 2% + B5
Þetta er rakasýra sem ég gjörsamlega elska. Maður setur hana á sig eftir að hafa þrifið húðina, á undan rakakremi. Hún gefur rosalega góðan raka og bindur rakann í húðinni. Eftir að ég kláraði síðasta glas keypti ég mér ekki nýtt alveg strax og fann ég svakalegan mun á húðinni minni. Hún varð ekki beint þurr en komst nálægt því, ég tók eftir því að hún verður „stinn“ af raka þegar maður notar þetta og sá ég það þegar ég kláraði glasið því þessi „stinnleiki“ hvarf. Það er dásamleg tilfinning að smyrja Hyaluronic Acid á sig strax þegar maður er kominn úr sturtu eða baði, þá er húðin svo opin og móttækileg fyrir rakanum.
Nánar um vöruna hér.
Glycolic Acid 7% Toning Solution
Þetta er AHA sýra sem „exfliate-ar“ húðina. Þessi tóner hreinsar ysta lag húðarinnar, tekur dauðar húðfrumur og gerir húðina bjartari og jafnari. Það má bara nota hann einu sinni á dag og þá helst á kvöldin. Hann er ekki fyrir viðkvæma húð. Þegar ég byrjaði að nota hann fyrst notaði ég hann bara 2 í viku, þetta eru svo sterk efni að það er gott að leyfa húðinni að venjast. Ég nota þetta á eftir hreinsi eins og tóner, á undan serum og kremi. Ég er ekki með viðkvæma húð en ég nota þetta kannski annan hvern dag sirka.
Nánar um vöruna hér.
„Buffet“
Þessa vöru var ég að kaupa mér og er að fara prófa. Þetta eru peptíð sem eiga að vinna gegn öldrun húðarinnar með því að örva framleiðslu kollagens. Það má nota Hyaluronic Acid (sem ég tala um hérna fyrir ofan) og Buffet saman, en þar sem Buffet inniheldur líka Hyaluronic Acid ætla ég að skipta þessu niður og nota annað að morgni og hitt að kvöldi. Mögulega Buffet á kvöldin og Hyaluronic á morgnanna.
Nánar um vöruna hér.
Retinol 0,2% in Squalane
Þetta er 0,2% hreint Retinol. Retinol er A-vítamín og vinnur það á fínum línum, örum og litabreytingum. Retinol er eitt af þeim fáu efnum sem hefur verið klínískt sannað að hjálpi húðinni að hægja á ótímabærri öldrun hennar og minnka hrukkur. Einnig er það mjög áhrifaríkt við bóluvandamálum. Þetta efni eru umtalað og er ég mjög spennt að byrja nota það. Þar sem ég hef ekki notað Retinol áður keypti ég lægstu prósentuna og er mælt með því. Þegar húðin er búin að venjast er hægt að fara í hærri prósentu. Samkvæmt leiðbeiningunum á að nota Retinol 1x í viku í tvær vikur og svo auka skammtinn í 2x í viku. Ef maður þolir það þá má auka skiptunum. Það má alls ekki byrja of hratt því þá eru líkur á mikilli ertingu og óþægindum. Ég ætla að nota þetta á kvöldin en ef þetta er notað á morgnanna er nauðsynlegt að láta á sig sólarvörn. Óléttar konur eða konur með barn á brjósti mega EKKI nota þetta. Einnig ætti ekki að nota Retinol með sterkum sýrum eða C-vítamíni.
Nánar um vöruna hér.
Eitt af því sem ég vildi taka mig á í er að hugsa betur um húðina mína. Ég verð að viðurkenna að ég hreinsa hana til dæmis ekki nógu vel á kvöldin alltaf. Ég hef verið að passa það undanfarna mánuði og er mikill munur á húðinni minni. Einnig er ég búin að vera bæta við þessum skrefum sem ég nefndi hér að ofan. Ég er að verða þrítug á þessu ári og er húðin ekki eins og hún var, það eru farnar að myndast fínar línur (ekki mikið samt!) og vil ég gera mitt besta til að vernda húðina mína og „vinna“ smá með henni.
Ég er ekki snyrtifræðingur og alls ekki sérfræðingur í húðvörum. Þetta er mín reynsla og það sem ég hef verið að prófa og lesa um. Auðvitað eiga allir að finna það sem passar við sína húð og fræða sig áður en svona vörur eru keyptar❤
The Ordinary fást til dæmis hjá Maí verslun, Deciem og Cult Beauty. Ég hef oftast keypt hjá Cult Beauty og eru vörurnar komnar innan við viku heim. Það eru margar vörur á óskalistanum en við byrjum á þessum.
xo
Instagram–> gudrunbirnagisla