Það sem kom mest á óvart á og eftir meðgöngu

Það er ótrúlega margt sem gerist á meðgöngunni og eftir að barn fæðist í heiminn. Margt sem ég vissi af og gat lesið mig til um, en svo margt sem ég hafði ekki hugmynd um. Sumt kom skemmtilega á óvart og er bara fyndið að hugsa til þess, á meðan annað gat verið frekar þreytandi og erfitt. Hér er smá listi yfir það helsta sem kom mér á óvart:

  • Rugla orðum í setningum. Stundum komu bara út vitlaus orð í miðri setningu og ekkert sem ég ætlaði mér að segja og passaði ekkert saman. Þetta upplifði ég mest á meðgöngunni en líka aðeins eftir að ég átti Hlyn.
  • Það upplifa ekki allar konur svakaleg óléttueinkenni. Ég slapp rosa vel við morgunógleði, fékk ekki brjáluð kreivings og skapsveiflurnar voru ekkert miklar. Þótt þetta hafi verið rosa gott, þá fannst mér ég oft ekki vera ólétt bara því ég upplifði þetta ekki. Hins vegar komu skapsveiflurnar og “kreivings” mun meira á brjóstagjöfinni. Þá var ég rosa heppin að eiga einn rosalega þolinmóðan kærasta.
  • Einmannaleikinn í fæðingarorlofi. Ég bjóst aldrei við því að maður gæti orðið svona einmanna í fæðingarorlofi, sérstaklega því maður er ekki beint einn. Það hjálpaði mér mikið að komast inn í góðan mömmuhóp.
  • Það er alls ekki sjálfsagt að barn taki pela og snuð! Vá hvað við reyndum, en Hlynur vildi bara vera á brjósti og einungis brjósti í um 7 mánuði. Þegar hann var rétt rúmlega 7 mánaða sættist hann á pelann, en snuðið er ekki enn komið. Það gerði það að verkum að hann var rosalega háður mér og gat það verið rosalega erfitt á tímabili. Frelsið sem fylgir því að hann byrjaði að taka pela er ólýsanlegt.
  • SVEFN! Ég bjóst aldrei við því að það gæti verið svona erfitt að fá barn til að sofa og sofa alla nóttina (eða mest alla nóttina). Við byrjuðum á svefnþjálfun fyrir Hlyn í nóvember á síðasta ári og erum enn að vinna í henni. Hann var að vakna á 1-2 tíma fresti í 4 mánuði og sofnaði bara á brjóstinu aftur. Ég var orðin vægast sagt svefnvana!
  • Fordómar gagnvart mömmum með fyrsta barn, þetta er samt alls ekki algilt. Það tók mig 3 mismunandi læknatíma og mismunandi lækna að fá til þess að hlusta á það að barnið mitt væri hugsanlega með bakflæði. Hann ældi ekki, en var með flest öll önnur einkenni. Eftir að hann byrjaði á bakflæðislyfjum hætti hann á næturbrjósti, vildi leika sér á gólfinu, fór að skríða, sofa lengur en 20-40 mín á daginn og margt fleira. Allt gerðist þetta innan við 2 vikna eftir að hann byrjaði á lyfjunum. 
  • Að fá pláss hjá dagforeldri. Þetta finnst mér alveg ótrúlegt. Við byrjuðum að hafa samband við dagforeldra þegar ég var í kringum 20 vikur og vorum sett á þó nokkra biðlista. Við höfðum planað að setja hann til dagforeldris um 10 mánaða, en hann er enn á biðlista. Núna erum við á 20+ biðlistum á höfuðborgarsvæðinu með hugsanlega pláss í maí, kannski. Þetta er rosalega óþægileg staða og rosa vont að vita t.d. fyrir Þorfinn að ef hann tekur við af mér í fæðingarorlofi hvenær hann geti átt von á að komast aftur í vinnu. 
  • Hvað maður lærir allt rosa hratt. Ég hef aldrei á ævinni lært neitt jafn hratt og að sjá um barnið mitt. Ég hef vissulega passað börn áður, en aldrei þegar þau voru t.d. veik, mikið að kúka, þurfa að þvo nýfæddu barni o.fl. Það er rosa gefandi og alveg magnað að vera allt í einu kominn með einhvern viskubrunn um þitt eigið barn.

Auðvitað er margt annað sem kom á óvart. Þetta hlutverk er svo lærdómsríkt og skemmtilegt, sumt fyrirsjáanlegt og annað sem er algjörlega óvænt.

Takk fyrir að lesa!

Þér gæti einnig líkað við