Tenerife

Ég og dóttir mín fórum í vikuferð til Tenerife í byrjun ágúst. Ég hafði aldrei farið til Tene áður, svo ég var mjög spennt að sjá loksins þessa Íslendinga Paradís, sem allir virðast vera alveg vitlausir í og heimsækja aftur og aftur. Við gistum á hóteli í Las americas sem heitir Coral California og er við hliðina á Tigotan, sem mér skilst að sé mjög vinsælt hótel meðal Íslendinga. Coral California hótelið er einungis fyrir 16 ára og eldri, með litlum og sætum sundlaugagarði. Alveg frábært hótel sem ég get klárlega mælt með. Andrúmsloftið mjög afslappað, engin slagsmál um sólbekkina og mjög góðir og ódýrir drykkir á sundlaugar barnum. Frá hótelinu er einungis tíu mínútna ganga niður á strönd og á hinn svokallaða Laugaveg. Við mæðgur vorum báðar búnar að ferðast mikið yfir sumarið, svo með þessari ferð vorum við eingöngu að leitast eftir slökun á sundlaugarbakkanum, og það gerðum við svo sannarlega!

Við fórum í dagsferð með Tenerife-ferðum til Masca þorpsins, sem var mjög skemmtilegt. Það var mjög gaman að fara aðeins út fyrir bæinn og keyra upp í fjöllin og sjá þar allt annað landslag. Við vorum sótt með rútu á hótelið okkar og svo var keyrt að Masca þorpinu með nokkrum útsýnis stoppum á leiðinni. Vegurinn er mjög mjór fjallvegur og var ansi mörgum sem stóð alls ekki á sama á leiðinni. Ég er nokkuð viss um að ég hefði aldrei þorað að keyra þetta sjálf. Svo fengum við að ganga um Masca sjálf og skoða aðeins. Hópurinn hittist svo allur á veitingastað og fengum við Tapas rétti í hádegismat, ásamt drykk. Eftir matinn var svo keyrt aftur á hótelin og vorum við að koma til baka um 15 leytið, svo maður gat nýtt restina af deginum á sundlaugarbakkanum. 

Ég get alls ekki sagt að mér hafi fundist Tenerife eitthvað hræðileg. En mér fannst hún heldur ekkert æðisleg. Ég veit að norður hluti eyjunnar er mikið fallegri, og hver veit nema maður fari þangað einn daginn. En fyrir svona sólarlanda slökunarferðir í framtíðinni, þá held ég að ég myndi ekki velja Tenerife aftur. Mér fannst vanta gróður, það var allt svo grátt og þurrt. Mér fannst vanta bláa himininn. Það var alltaf svona slikja yfir öllu, eins og væri hálfpartinn þoka eða skýjað, þrátt fyrir að það væri alveg heiðskírt. Mér skilst að þetta sé fyrirbæri sem er kallað La Camisa og kemur til vegna eyðimerkur-sandfoks frá Afríku. Það var alltof mikið af Íslendingum út um allt þarna. Það er alltof dýrt að versla og borða þarna. En við áttum þarna yndislega viku samt sem áður. Ég er kannski ein af fáum Íslendingum sem smitaðist ekki af Tenerife bakteríunni eftir þessa fyrstu heimsókn til eyjunnar….

Takk fyrir að lesa 

Þér gæti einnig líkað við