Svefninn hjá Júlíu Huldu

Þið sem fylgist með mér á Instagram hafið eflaust tekið eftir svefnvandamálunum hjá yngri stelpunni minni. Ég hef talað um það nokkrum sinnum þar hvað hún hefur sofið illa. Í þessari færslu skrifaði ég um fyrstu mánuði Júlíu Huldu og svefninn. Það er ansi margt búið að ganga á síðan þá en hægt og rólega eftir að hún hætti á Phenergan þá fór svefninn aftur í rugl. Við vorum aftur komin í sama gamla farið. Svefninn lagaðist í smá stund en svo aftur frá apríl/maí fram í nóvember þá hefur hún verið að vakna sirka 3-5 sinnum á nóttunni. Undantekningalaust vaknaði hún um kl.1 um nóttina og allavega 2x eftir það. Verstu næturnar voru þegar hún var að vakna á sirka klukkutíma fresti. Hún þurfti að hætta svo skyndilega á Pheregan-inu, við náðum ekki að trappa hana niður eins og átti að gera. En lyfið fékkst bara ekki og hætti hún á einni nóttu að taka það. Við höldum að það hafi alveg getað spilað inní. Þetta hefði eflaust virkað betur ef hún hefði klárað „kúrinn“. En það var ekkert við því að gera.

Í byrjun nóvember þá gátum við bara ekki meira. Bæði úrvinda, brjálað að gera hjá okkur og engin hvíld. Við bókuðum aftur tíma hjá Gesti Pálssyni. Það virðist ekkert vera að ama Júlíu Huldu, þetta voru líklegast svefntruflanir. Við tökum þá ákvörðun að prófa lyfið Alimemazin en það er lyfið sem kom í staðinn fyrir Vallergan þegar það hætti að fást. Þetta var ekki auðveld ákvörðun og leið mér ekkert rosa vel að þurfa gefa henni þetta. En við ræddum þetta fram og til baka og niðurstaðan var sú að greyið barnið þyrfti jafn mikið á því að halda að hvílast almennilega eins og við.

Við byrjuðum á aðeins 2 dropum fyrir svefninn. Þetta lyf er töluvert sterkara en Vallergan og þarf því mun minna af því. Ef að lyfið skyldi virka þá er það klárt mál að þetta séu svefntruflanir og ekkert annað að. Þessa fyrstu nótt hrökk ég upp kl.5 um nóttina. Júlía Hulda vakti mig ekki, heldur bara ég að vakna alveg ringluð. Ekki vön því að sofa svona lengi án þess að vera vakin. Ég rölti inn til Júlíu til að kíkja á hana og þar sefur hún vært og rótt í rúminu sínu. Ótrúlega skrýtið en ég gat farið aftur að sofa og vaknaði aftur rétt fyrir kl.7 þegar hún vaknaði. Næsta nótt gekk ekki eins vel en hún vaknaði um kl.1 og svo aftur um kl.3. Gestur hringdi í okkur daglega til að athuga hvernig gengi. Af því að lyfið virkaði svona vel fyrstu nóttina þá var núna bara að finna rétta skammtinn. Við hækkuðum upp i 3 dropa nokkrar nætur og svo upp í 5 dropa. Núna er hún búin að vera á 5 dropum í nokkrar vikur og sefur eins og engill. En 5 dropar er eins og byrjunarskammtur af Vallergan. Þá daga sem hún er veik sleppum við að gefa lyfið en það virkar ekki á veik börn, þetta er ofnæmislyf með róandi áhrifum en ekki svefnlyf.

Þetta er gjörsamlega búið að bjarga geðheilsu okkar og erum við svo glöð að hún fái almennilegan svefn.

xo

Instagram–> gudrunbirnagisla

Þér gæti einnig líkað við