U106 – Styttist í flutninga

Þvílíkt ferli sem þetta er búið að vera. Vinnan, tíminn, peningurinn og þolinmæðin sem fer í að byggja sér hús er svakaleg. Núna á lokametrunum þá er maður orðinn smá óþolinmóður, maður sér hvað er lítið eftir og maður er loksins farinn að sjá heimili, ekki iðnaðarsvæði. Efri hæðin er búin að tefjast töluvert útaf gólfhitamottunum. Það vantaði slatta af álrenningum sem fara í raufarnar á mottunum og þá stoppaði allt. Restin er núna loksins komin til landsins og væri hægt að klára gólfið. En við setjum ekki renningana í fyrr en píparinn er klár til að leggja rörin því það er ekki gott að vera labba mikið á álinu. Fókusinn er á neðri hæðinni núna. En það er búið að heilspartla og mála efri hæðina og tengja klósett og vask inná baði. Á neðri hæðinni er búið að setja gólfhita og flota, klára flest alla veggi og allt loft, tengja klósett og ljós. Við ætlum að flytja fyrst á neðri hæðina og vonandi tekst það á næstu þrem vikum… ef allt gengur upp samkvæmt plani, en guð veit að það er sko ekki þannig í þessu húsaferli, alltaf eitthvað sem kemur upp á eða frestast. Við krossum putta. Flísarinn er kominn til að flísaleggja litla baðherbergið sem er innan af hjónaherberginu en við ætlum að koma því fyrst í stand og nota það til að byrja með. Við förum í aðal baðherbergið hægt og rólega þegar við erum flutt inn.

Þar sem að það er ekki eldhús á neðri hæðinni að þá ætlum við að útbúa tímabundna aðstöðu í fjórða svefnherberginu. Við setjum upp rafmagnshellur, ísskáp og lítinn borðkrók. Í þvottahúsinu er vaskur þar sem að við getum vaskað upp. Þegar flísarinn er búinn þá getum við farið að taka almennilega til og þrifið og farið að parketleggja og mála síðustu umferðina! Er það síðasta stóra skrefið sem þarf til að við getum flutt inn.

Að klæða húsið er búið að taka mun lengri tíma en við gerðum ráð fyrir upphaflega. Ástæðan er einfaldlega sú að við breyttum klæðningunni og varð hún aðeins flóknari. Arkitektinn okkar Jón Grétar Ólafsson hannaði klæðninguna og er þetta ekki klæðning sem við getum keypt tilbúna. Á efri hæðinni eru álplötur sem eru misbreiðar og ná mislangt út. Með því koma svona 3D áhrif á húsið. Áður en að klæðningin var sett á voru settir timbur rammar undir sem klæðningin var svo fest á en tilgangur þeirra er að fá klæðninguna utar, kemur smá kanntur þannig að það er eins og efri hæðin nái aðeins út fyrir. Plöturnar kaupum við frá Límtré Vírnet en það er blikksmiður sem þarf að skera þær í rétta breidd og beygja. Þetta tekur því töluverðan tíma í undirbúningi og svo er dálítið púsl að raða þessu saman og skrúfa svo mynstrið sé rétt og allt passi í kringum glugga og kannta. Á nokkrum gluggum á efri hæðinni erum við með útstæða ramma í gylltum-rustic lit. Sama efni verður svo á veggnum sem skilur svalirnar að. Á neðri hæðinni er annar litur. Flekarnir þar eru jafnbreiðir. Ég hef ekki séð svona klæðningu áður, það verður geggjað að sjá þetta þegar allt er komið á og vinnupallarnir farnir.

Í síðustu viku var komið ár síðan við fluttum í Hveragerði í litla bústaðinn og ferlið hófst. Við byrjuðum að reisa húsið í desember. Það er nú ekki langt síðan það gerðist og er þetta búið að ganga nokkuð vel fyrir sig þrátt fyrir Covid og annað. En í febrúar gerðist til dæmis ekkert, flest allir sem voru að vinna í húsinu fengu Covid og allt stoppaði í heilan mánuð. Veðrið var líka að stríða okkur í vetur en við misstum fullt af dögum þegar var verið að reisa húsið útaf brjáluðu veðri. Þetta er búið að vera mikil vinna og erum við að sjá fyrir endann á þessu öllu. Það verður samt ekki allt tilbúið þegar við flytjum inn og er það bara allt í lagi. Mér finnst það bara vera hluti af þessu ferli, eitthvað sjarmerandi við það. Þetta er stórt verkefni og munum við vera vinna í þessu næstu mánuði. Maður kann líka bara að meta húsið og allt ferlið betur á þennan hátt.

xo

Instagram –> gudrunbirnagisla

Tengdar færslur:

Búið að kaupa parket, flísar og hurðir fyrir húsið
Byrjað að reisa húsið
Það er byrjað að steypa 
Byggingarleyfi komið í hús

Þér gæti einnig líkað við