Stíga út fyrir þægindarrammann

Síðustu ár hef ég lagt mikið í það að vera opin fyrir ýmsum tækifærum sem geta boðist mér og að stíga út fyrir lita þæginlega boxið sem ég var búin að búa mér til. Ég hafði í mörg ár bara haft það rosa gott í kósý kassanum mínum, en horft mikið upp til annarra sem þorðu að gera allskonar hluti.

Þetta gerist vissulega ekki allt á einni nóttu og er ég alltaf að taka smá skref í áttina að því að ögra sjálfri mér. Ég held að fyrsta skrefið sem ég tók var að skrá mig í stjórn nemendafélagsins þegar ég byrjaði í Sálfræðinni við HÍ. Ég þekkti engan í náminu, var rosa lítil í mér og hugsaði með mér að þetta væri góð leið til að kynnast fólki. Viti menn, ég kynntist fullt af frábæru fólki og fékk hellings reynslu. Ég sat í stjórn í 2 ár og þar á eftir sat ég í Stúdentaráði HÍ.

Svo skall Covid á og ég var ekkert mikið að reyna að brjótast út úr skelinni þá. Var að reyna að komast í gegnum nám í gegnum fjarnám og staðarnám til skiptis og allskonar gekk á. Við urðum síðan ólétt og lífið hélt bara áfram.

Vorið 2021 fékk ég síðan tækifæri til þess að fara á Dale Carnigie námskeið. Ég var orðin vel ólétt, enda frestaðist námskeiðið tvisvar vegna Covid. Það var margt sem ég lærði á því, en ég mæli samt eindregið með að vera ekki kasóléttur á námskeiðinu, amk. ekki í kringum 30 vikurnar. Þar fékk ég tækifæri til þess að vakna aftur til lífsins og verða smá hugrakkari fyrir vikið.

Síðan þegar strákurinn okkar fæddist, þá fæddist einhver kona innra með mér. Þetta er kona sem ég hef lært að meta mjög mikils, en hún hefur ákveðið að verða fyrirmynd fyrir barnið sitt. Það er alveg magnað að upplifa þetta, en þarna ákvað ég að ég ætla ekki að láta einhverja hræðslu við hvað aðrir halda stoppa mig. Það fyrsta sem ég gerði, var þegar Hlynur var um 3 mánaða, var að raka af mér allt hárið. Mig hafði langað til þess í mörg ár en aldrei þorað. Ég hef skrifað sérstaka færslu bara um það, hægt er að lesa hana hér.

Eftir það hef ég gripið öll þau tækifæri sem mér hefur gefist til þess að vaxa og verða sterkari en ég var í gær. Ég byrjaði fyrir sirka ári síðan að blogga hérna á Lady, en ég hafði í mörg ár hugsað um að langa að gera það, en aldrei haft kjarkinn til þess.

Síðastliðið haust bárust mér tvö skemmtileg verkefni til viðbótar: að gerast aðstoðarþjálfari hjá Dale Carnigie og fara í myndatöku fyrir auglýsingar hjá Vodafone. Bæði þessi tækifæri þroskuðu mig rosalega mikið og gáfu mér svo mikið. Að vera aðstoðarþjálfari gaf mér annað tækifæri að taka námskeiðið aftur og að kynnast öllu því frábæra fólki sem fylgir námskeiðinu.

Í myndatökunni fyrir Vodafone fór ég stórt skref út fyrir þægindarammann. Ég hef lengi ekki átt í rosa góðu sambandi við líkamann minn, alltaf eitthvað sem mér finnst að. Ég bjóst vel við því að allir á svæðinu myndu dæma mig, ég væri of stór, ég kæmi ekki nógu vel út á myndum o.s.frv. Upplifunin var svo allt önnur! Dagurinn var ótrúlega skemmtilegur og mér leið eins og ég gæti sigrað heiminn, eða svona allavegana mína ótta um sjálfa mig. Myndirnar sem voru teknar eru nú þegar farnar í notkun og ég er alltaf jafn stolt að sjá sjálfa mig á þeim þar sem þær birtast.

Það er aldrei of seint að byrja að stækka þægindarammann og auðvitað hægt að gera það í allskonar skrefum. Annað hvort með því t.d. að lesa nýja gerð af bókum, prófa nýja hreyfingu, gera eitthvað sem manni hefur alltaf langað til að gera. Tækifærin eru þarna úti til þess að grípa þau!

Takk fyrir lesninguna!

Freydís

Þér gæti einnig líkað við