Mér finnst sörur vera alveg ómissandi yfir jólin og var mjög spennt að baka þær í ár. Í fyrra vorum við í glasameðferð og áttum að taka óléttupróf á þorláksmessu svo ég gerði sörurnar með gerilsneyddum eggjum til vonar og vara. Prófið reyndist síðan jákvætt en ég hafði enga lyst á sörum það árið. Mig minnir að ég hafi náð að neyða einni ofan í mig.
Það hefur skapast ákveðin hefð hjá mér og Alex vinkonu að hittast í byrjun desember að baka saman sörur og prufa nýjar bragðtegundir. Hún á algjörlega heiðurinn af þessari hugmynd sem ég hafði ekki mikla trú á í byrjun. Við gerðum lítinn skammt af þessum sörum sem heppnaðist svona rosalega vel að við hittumst aftur nokkrum dögum seinna og gerðum meira.
Gerði áður sörur með hvítu súkkulaði og saltkaramellu sem sló rækilega í gegn sem ég deildi með ykkur hér.
Blanda af hvítu súkkulaði, piparfylltu lakkrískurli, turkish pepper og hockey pulver.
Það er hægt að kaupa 150gr stauk af hockey pulver topping í Bónus til dæmis.
Sörur
Botn:
4 eggjahvítur
230 g heslihnetur
230 g flórsykur
Aðferð:
1. Ofninn stilltur á 180°
2. Heslihneturnar settar í matvinnsluvél, eða kaupa hnetur sem er nú þegar búið að mylja. Og þær blandaðar saman við flórsykurinn.
3. Stífþeytið eggjahvíturnar þar til hægt sé að hvolfa úr skálinni.
3. Hneturnar og flórsykrinum er síðan blandað varlega saman við eggjahvíturnar með sleikju.
4. Setjið deigið í sprautupoka eða notið teskeið og setjið á bökunarpappír. Bakist í 12-15 mínútur ca.
Kremið:
4 eggjarauður
1 dl vatn
130 g sykur
250 g smjör við stofuhita
200 g hvítt súkkulaði
1/2 tsk vanillusykur
2 pokar af piparfylltu lakkrískurli
1 poki turkish pepper
Hockey Pulver topping eftir smekk. Við notuðum alveg örugglega 50gr eða meira.
Aðferð:
1. Þeytið eggjarauðurnar.
2. Búið til sýróp með því að hita saman vatn og sykur.
3. Hellið sýrópinu saman við eggjarauðuna í mjórri bunu rólega og haldið áfram að þeyta.
4. Bætið við smjörinu í nokkrum skömmtum. Og síðan vanillunni.
5. Bræðið hvítt súkkulaði yfir vatnsbaði, leyft að kólna aðeins og síðan bætt út í deigið í mjórru bunu rólega.
6. Halda áfram að þeyta kremið þangað til það verður silkimjúkt og smakkið til.
7. Blandið því næst lakkrískurlinu, mulið turkish pepper og hockey pulver rólega saman við.
8. Gott er að láta kæla kremið aðeins inn í ísskáp áður en það er sett á botnanna.
9. Notið sprautupoka eða teskeið til að setja kremið á.
10. Þegar kremið er komið á, þá eru kökurnar settar í frystir fyrir næsta skref.
Hjúpur:
300 g hvítt súkkulaði
Aðferð:
1. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði.
2. Kælið súkkulaðið örlítið, fínt er að hjúpa kökurnar þegar súkkulaðið er volgt.
3. Kökurnar settar aftur inn í frysti. Teknar út rétt áður en þær eru bornar fram.
Virkilega góðar. Megið endilega tagga mig á Instagram ef þið prufið þessar ♡
Instagram -> ingajons