Desember gengin í garð og því tilvalið að henda í nokkrar sörur. Ég vil helst ekki byrja of snemma að baka fyrir jólin því þá er ég komin með algjört ógeð þegar jólafríið byrjar. Sérstaklega sörurnar, því þær klárast mjög hratt. Það er líka hvort eð er alltaf eitthvað góðgæti allstaðar allan desember svo það er ágætt að hafa ekki heimilið fullt af freistingum í heilan mánuð. En mér finnst voða gott að eiga til sörur í frystirnum með kaffinu í jólafríinu. Ég fer líka oft með skammta í vinnuna eða læt fylgja með jólapökkum.
Ég notaðist við uppskriftina af klassísku sörunum frá Evu Laufey HÉR.
En ég elska hvítt súkkulaði og saltkaramellu. Því ákvað ég að prufa mig aðeins áfram með þetta tvennt, ásamt klassísku sörunum sem allir þekkja.

Klassískar sörur
Botn:
4 eggjahvítur
230 g möndlur eða heslihnetur
230 g flórsykur
Aðferð:
1.Ofninn stilltur á 180°.
2.Möndlurnar/heslihnetur settar í matvinnsluvél, eða kaupa möndlur/hnetur sem er nú þegar búið að mylja. Og þær blandaðar saman við flórsykurinn.
3.Stífþeytið eggjahvíturnar þar til hægt sé að hvolfa úr skálinni.
3.Möndlunum/hnetunum og flórsykrinum er síðan blandað varlega saman við eggjahvíturnar með sleikju.
4.Setjið deigið í sprautupoka eða notið teskeið og setjið á bökunarpappír. Bakist í 12 mínútur ca.

Smá tips. Til að fá botnana svona fína eins og á myndinni að ofan þá er mikilvægt að leyfa þeim að kólna alveg áður en þeir eru teknir af ofnplötunni. Einnig ef þið eruð alveg ný í sörubakstri þá er fínt að fjárfesta í makkarónumottu, þá líka verða botnarnir allir jafn stórir.
Krem:
4 eggjarauður
1 dl vatn
130g sykur
250g smjör við stofuhita
2-3 msk kakó
1/2 tsk vanillusykur
1 msk sterkt uppáhelt kaffi
Aðferð:
1.Þeytið eggjarauðurnar.
2.Búið til sýróp með því að hita saman vatn og sykur.
3.Hellið sýrópinu saman við eggjarauðuna í mjórri bunu rólega og haldið áfram að þeyta.
4.Bætið við smjörinu í nokkrum skömmtum.
5.Bætið síðan við kakó, vanillu og kaffi út í kremið.
6.Halda áfram að þeyta kremið þangað til það verður silkimjúkt og smakkið til.
7.Gott er að láta kæla kremið aðeins inn í ísskáp áður en það er sett á botnanna.
8.Notið sprautupoka eða teskeið til að setja kremið á.
9.Þegar kremið er komið á, þá eru kökurnar settar í frystir fyrir næsta skref.
Hjúpur:
300 g rjómasúkkulaði
Aðferð:
1.Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði.
2.Kælið súkkulaðið örlítið, fínt er að hjúpa kökurnar þegar súkkulaðið er volgt.
3.Kökurnar settar aftur inn í frysti. Teknar út rétt áður en þær eru bornar fram.

Það er algjört smekksatriði hversu mikið krem er sett á milli. Spurning hversu sætar þið viljið hafa þær.
Sörur með hvítu súkkulaði.
Botn:
4 eggjahvítur
230 g heslihnetur
230 g flórsykur
Aðferð:
1.Ofninn stilltur á 180°.
2.Heslihneturnar settar í matvinnsluvél, eða kaupa möndlur sem er nú þegar búið að mylja. Og þær blandaðar saman við flórsykurinn.
3.Stífþeytið eggjahvíturnar þar til hægt sé að hvolfa úr skálinni.
3.Hneturnar og flórsykrinum er síðan blandað varlega saman við eggjahvíturnar með sleikju.
4.Setjið deigið í sprautupoka eða notið teskeið og setjið á bökunarpappír. Bakist í 12 mínútur ca.
Hvítt krem:
4 eggjarauður
1 dl vatn
130 g sykur
250 g smjör við stofuhita
200 g hvítt súkkulaði
1/2 tsk vanillusykur
Aðferð:
1.Þeytið eggjarauðurnar.
2.Búið til sýróp með því að hita saman vatn og sykur.
3.Hellið sýrópinu saman við eggjarauðuna í mjórri bunu rólega og haldið áfram að þeyta.
4.Bætið við smjörinu í nokkrum skömmtum. Og síðan vanillunni.
5.Bræðið hvítt súkkulaði yfir vatnsbaði, leyft að kólna aðeins og síðan bætt út í deigið í mjórru bunu rólega.
6.Halda áfram að þeyta kremið þangað til það verður silkimjúkt og smakkið til.
7.Gott er að láta kæla kremið aðeins inn í ísskáp áður en það er sett á botnanna.
8.Notið sprautupoka eða teskeið til að setja kremið á.
9.Þegar kremið er komið á, þá eru kökurnar settar í frystir fyrir næsta skref.
Hjúpur:
300 g hvítt súkkulaði
Aðferð:
1.Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði.
2.Kælið súkkulaðið örlítið, fínt er að hjúpa kökurnar þegar súkkulaðið er volgt.
3.Kökurnar settar aftur inn í frysti. Teknar út rétt áður en þær eru bornar fram.

Sörur með saltkaramellukremi.
Ég gerði botnana frekar þunna svo það varð til afgangur af botnum umfram kremið sem ég gerði. Svo ég ákvað að prufa að búa til krem með saltkaramellu.
Þessi uppskrift dugði á 45 botna sem ég átti eftir og fékk ég saltkaramellu uppskriftina frá Lindu Ben HÉR
Saltkaramellukrem:
200 g sykur
100 g smjör
1 dl rjómi
1 tsk salt
Aðferð:
1.Sykurinn er settur í pott og bræddur við lágan hita.
2.Smjörinu er síðan bætt við í nokkrum skömmtum.
3.Rjómanum er hellt út í í litlum skömmtum og hrært vel á milli.
4.Setjið saltið út í karamelluna og hrærið vel.
5.Leyfið karamellunni að kólna vel áður en hún er sett á botnanna. Því þykkari karamella því auðveldara er að vinna með hana.
Hjúpur:
200 g rjómasúkkulaði
Aðferð:
1.Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði.
2.Kælið súkkulaðið örlítið, fínt er að hjúpa kökurnar þegar súkkulaðið er volgt.
3.Kökurnar settar aftur inn í frysti. Teknar út rétt áður en þær eru bornar fram.
Þetta var klárlega langbesta útgáfan af þessum þrem en versta er að það er minnst til af þeim.
Fyrir næstu jól þá mun ég gera meira af sörum með saltkaramellu svo ég tými að deila þeim með öðrum. Og jafnvel prufa að hjúpa nokkrar með hvítu súkkulaði, mögulega of sætt en þær eru þá bara spari.
Megið endilega senda á mig á Instagram ef þið prufið þessar sörur.
Gleðileg jól og vona að þið njótið aðventunnar.

Inga ♡