Skírn

Við Atli skírðum son okkar 13. febrúar en útaf covid takmörkunum gátum við aðeins verið með litla veislu fyrir okkar allra nánustu. Okkur langaði ekki að tilkynna nafnið hans fyrr en hann yrði skírður svo við gátum hreinlega ekki beðið lengur! Það var svo oft sem við vorum alveg við það að missa nafnið út úr okkur fyrir framan fólkið okkar svo það var best að drífa í að skíra.

Athöfnin var frekar stutt þar sem aðeins var verið að skíra hann en engin messa í gangi og tók myndatakan í kirkjunni lengri tíma heldur en athöfnin sjálf. 

Drengurinn fékk nafnið Tristan Rafn en það er algjörlega út í loftið. Á meðgöngunni vorum við aðeins búin að velta fyrir okkur nöfnum og komin með hugmynd að einu stelpu nafni og einu stráka nafni þar sem við vissum ekki kynið. Við vorum samt ekki búin að ákveða neitt þar sem við vildum hitta barnið fyrst og máta nafnið aðeins við það og athuga hvort okkur finndist nafnið passa. Nafnið passaði svona líka vel við hann og fórum við fljótlega að kalla hann því heima og þurftum virkilega að passa okkur að missa það ekki út úr okkur þegar við töluðum við Tristan í kringum aðra.

Við vorum með veisluna heima þar sem þetta var bara nánasta fjölskylda. Veitingarnar græjuðum við sjálf en ég fékk mömmu til að skreyta fyrir okkur skírnarkökuna og var ég í skýjunum með hana! Við buðum uppá heitan brauðrétt, rúllutertu með rækjusalati, tertu með þristamús, maregnstertu og svo fengum við ömmu Atla til að steikja pönnukökur fyrir okkur. Skírnarkakan var súkkulaðikaka með smjörkremi og var skreytt með fondant (sykurmassa).

Kökutoppinn með nafninu hans keyptum við hjá 29 Línur. Ég var virkilega ánægð með hann og fékk mjög góða þjónustu! Skírnarkertið og gestabókina keypti ég af Lindu Óla  en hún handmálar á bæði kerti og bækur. 

Við áttum yndislegan dag með fólkinu okkar!

Þér gæti einnig líkað við