Síldarmannagötur og Leggjabrjótur

Nýjasta áhugamálið mitt er útivera, sem er frekar fyndið í ljósi þess að hingað til hef ég verið algjör innipúki og átti ég það til að ganga og hlaupa á bretti í ræktinni því mér fannst alveg hundleiðinlegt að gera það úti. En núna í sumar er ég búin að vera ótrúlega dugleg að ferðast innanlands, fara í dagsgöngur á hálendinu og einnig hef ég farið út að skokka í náttúrunni tvisvar til fjórum sinnum í viku síðan í maí! Þegar maður byrjar að stunda útiveruna svona mikið þá finnur maður hvað það hefur jákvæð áhrif á mann, sérstaklega andlega. Síðustu tvær helgar fór ég í dagsgöngur og langar mig að segja ykkur frá þeim. Laugardaginn 5.sept fór ég Síldarmannagötur og svo 12.sept fór ég Leggjabrjót.

Síldarmannagötur
Síldarmannagötur er gönguleið á milli Botnsskála í Hvalfirði og Skorradals. Gangan er um 15 km og sirka 450 hæð. Mest öll hæðin er gengin í byrjun sé maður að byrja gönguna í Hvalfirðinum og svo er gangan að mestu leyti á sléttu þangað til komið er í Skorradalinn þegar farið er niður aftur. Ég myndi segja að þetta sé ganga sem langflestir ættu að geta gengið, að minnsta kosti þeir sem treysta sér til að ganga í 4-5 klukkutíma.

Leggjabrjótur
Leggjabrjótur er gönguleið á milli Þingvalla og Hvalfjarðar. Gangan er um 17 km og sirka 500 metra hæð. Gangan er nokkuð jafnt og þétt uppá við þegar gengið er frá Þingvöllum og svo er mesta niðurleiðin þegar komið er að Glym í Hvalfirðinum. Það þarf að fara yfir margar ár í þessari göngu, en yfir sumartímann ætti ekki að vera neitt mál að stíga á steina til að komast yfir árnar. Þessi ganga er örlítið erfiðari en Síldamannagötur, aðallega vegna þess að leiðin er frekar grýtt og svo er kannski ekki á allra færum að hoppa á steinum yfir ár.

Ef ég þyrfti að velja á milli þessara gönguleiða þá myndi ég klárlega velja Leggjabrjót. Sú leið var aðeins meira krefjandi en á sama tíma var útsýnið mikið fallegra. Um miðja göngu á Síldamannagötum var einhvernveginn ekkert að sjá og ekkert að gerast í smá tíma, en þannig var Leggjabrjótur aldrei. Það var alltaf eitthvað nýtt og magnað útsýni allan tímann. En Síldamannagötur er klárlega mjög góð gönguleið fyrir byrjendur og þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í svona dagsgöngum.

Takk fyrir að lesa

Þér gæti einnig líkað við