Prjónatips

Eins og flestir sem þekkja mig vita prjóna ég mikið og hef einstaklega gaman að því að búa eitthvað til í höndunum. Ég er þó alls ekki nógu dugleg að búa eitthvað til fyrir sjálfa mig heldur gef ég eiginlega allt sem ég geri, sem er ákveðinn galli. Ég setti mér það markmið fyrir árið 2021 að prjóna meira fyrir sjálfa mig og er ég komin með nokkra hluti sem mig langar að gera en verð samt að klára það sem ég er að gera fyrir aðra fyrst.. Alveg týpískt ég!

En það sem mér fannst svo skemmtilegt við árið 2020 er hvað margir lærðu að prjóna! Mér fannst instagram springa af myndum og myndböndum af fólki að prjóna og fagna ég því. Mig langar að koma með nokkur ráð fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í prjónaskap og gætu gert þetta áhugamál ennþá auðveldara og skemmtilegra.

Prjónfesta – Prjónfestuprufur

Við prjónum öll misfast en til að flíkin eða hluturinn sem þú ert að gera verði í réttri stærð er mikilvægt að gera prjónafestuprufu. Þá sérðu mjög greinilega hvort þú sért að prjóna of laust eða of fast og getur þá stækkað eða minnkað prjónana eftir því sem við á. Ég viðurkenni að ég hef alls ekki verið nógu dugleg við að gera þessar prufur og hefur það komið ansi oft í bakið á mér að peysan eða vettlingarnir eru bara alltof stórir eða litlir og það getur verið ansi svekkjandi en ég er að reyna að bæta mig í því. Það tekur ekki langan tíma að gera þessar prufur en er á sama tíma mjög mikilvægt! 

Í uppskrift sem ég á er gefin prjónafestan 26/10 sem þýðir að 26 lykkur eiga að vera 10 cm. Ef þú gerir prufu en nærð bara 24 lykkjum á 10 cm þá ertu að gera of stórar lykkjur sem verða til þess að flíkin þín stækkar töluvert og væri þá ráðlagt fyrir þig að minnka prjónastærðina um ½ númer.

Ef þú færð 28 lykkjur á 10 cm eru lykkjurnar hjá þér of litlar sem þýðir að þú verður með færri lykkjur en áætlað er í þeirri stærð sem þú ert að prjóna og væri þá gott að stækka prjónastærðina um ½ númer. 

Ágætis regla er að tvær lykkjur til eða frá í prjónafestu eru ½ númer upp eða niður í prjónastærð. 

Til að flækja þetta aðeins eins og er gert með svo margt í prjónaskap að þá eru til ýmsar leiðir til að gera prjónafestu prufu. Ég geri hana þannig að ef uppskriftin segir 26/10 þá fitja ég upp á 38 lykkur (12 auka lykkjur). Ég byrja á að prjóna 4 – 6 umferðir garðaprjón (slétt prjón fram og til baka). Síðan prjóna ég 3 lykkjur garðaprjón, 32 lykkjur sléttar á réttunni – brugnar á röngunni og að lokum 3 lykkjur garðaprjón. Ég prjóna nokkrar umferðir svona (10 – 20 umferðir sirka) eða þangað til að ég er komin með smá stykki sem ég get mælt án þess að toga það til. Legg síðan reglustiku yfir stykkið og tel lykkjurnar sem komast á 10 cm. Þetta er gert til þess að fá réttara mál á prjónafestuprufuna, því að ef einungis eru prjónaðar nokkrar umferðir af 10 lykkjum verður stykkið allt snúið og þá er hætta á að mælingin verði ekki rétt.

Garn

Ég hef prjónað lang mest úr íslenskri ull og þá sérstaklega léttlopa og kambgarni. Ástæðan er sú að ég hef hingað til prjónað mest af vettlingum og lopapeysum en er tiltölulega nýfarin að prjóna barnaföt og fínni flíkur sem lopinn hentar kannski síður í. Það er til svo mikið magn af flottu garni og ég skil mjög vel ef þér hreinlega fallast hendur við að velja hvaða garn passar best hverju sinni. Það er ekkert að því að mæta í prjónabúðir með uppskriftina af flíkinni sem þú ert að fara að prjóna með þér og biðja afgreiðslufólkið um aðstoð. Það í flestum tilfellum hefur góða þekkingu á því garni sem það er að selja og ætti að geta ráðlagt þér hvað hentar miðað við uppskriftina. Það er heldur ekki nauðsynlegt að prjóna úr sama garni og uppskriftin er gefin upp í. Prufaðu þig endilega áfram svo þú finnir hvaða garni þér finnst skemmtilegast að prjóna úr því garn og garn er alls ekki það sama! Ef þú ákveður að nota eitthvað annað garn en það sem er gefið upp í uppskriftinni er mikilvægt að gera prjónafestuprufu til að flíkin eða hluturinn verði í réttri stærð því garn er misgróft og þarf misstóra prjóna. Einnig er mismikið af garni í dokkunni og þarf að huga að því áður en byrjað er að prjóna því það er mjög leiðinlegt að vera hálfnaður með verkið og garnið búið. 

Uppskriftir

Mér finnst alltaf gott að fara eftir uppskriftum þegar ég er að prjóna. Er lítið fyrir að prjóna út í loftið en á það frekar til að breyta uppskriftunum eins og mér finnst koma best út. Þegar þú ert að byrja að prjóna er alls ekki nauðsynlegt að eiga mikið af uppskriftum eða uppskriftabókum þótt það sé alltaf gaman að fletta í gegnum fallegar prjónabækur. Það er til svo ótrúlega mikið magn af uppskriftum á netinu sem hægt er að kaupa stakar og þá situr þú ekki uppi með fullt af blöðum og bókum sem þú prjónaðir kannski eina eða tvær flíkur úr. Margir uppskriftahönnuðir eru með sér síður fyrir sínar uppskriftir sem auðvelt er að skoða og versla í gegnum en síðan er líka hægt að skrá sig inn á  Ravelry en þar er hægt að finna gríðarlegt magn uppskrifta eftir fjölbreyttan hóp hönnuða.

Uppáhalds hönnuðurinn minn þessa stundina er Amma Loppa. Hún er að selja mikið af flottum uppskriftum á síðunni sinni og gerir mjög skemmtilegar uppskriftir sem mér finnst líka skipta máli.

Ég mæli með að lesa vel í gegnum uppskriftina áður en þú byrjar að prjóna. Í fyrstu getur uppskriftin virst flókin og óskiljanleg en um leið og þú ert búin að lesa þig vel í gegnum hana og þá sérstaklega þá kafla sem þú skilur ekki verða þær oft skiljanlegri. Flestir hönnuðir reyna að koma leiðbeiningunum auðskiljanlega frá sér sem gengur misvel en ef þú bútar þær niður og ferð bara í gegnum það flókna lykkju fyrir lykkju ætti það að takast á endanum.  

Youtube

Youtube er klárlega besti vinur þinn í prjónaskap! Það er til svo mikið af flottum kennslumyndböndum og er ég alltaf að læra eitthvað nýtt eða rifja upp. Í mörgum uppskriftum sem ég hef verið að prjóna eftir uppá síðkastið eru settar slóðir á myndbönd sem geta hjálpað manni og jafnvel útskýrt betur fyrir manni hvernig hlutirnir eru gerðir heldur en skrifaður texti sem mér finnst algjör snilld! Þar er bæði hægt að finna myndbönd á íslensku og ensku.

Facebook hópar

Ekki má gleyma að það eru til margir facebook hópar tengdir handavinnu. Mér finnst mjög gaman að vera í slíkum hópum en þar getur maður fengið innblástur að næsta verkefni því margir deila myndum af því sem þeir eru að gera. Þeir eru líka snilld til að leita ráða hjá reyndari einstaklingum og er maður yfirleitt fljótur að fá svör við spurningum sínum þar. Einnig eru margir sem deila prjóninu sínu á instagram og get ég alveg gleymt mér að skoða myndir af fallegu handverki þar og fá hugmyndir af næstu verkefnum.

Handóðir prjónarar

Prjónasystur

Prjónatips

Ég vona að þetta hjálpi einhverjum að stíga sín fyrstu skref í prjónaskap. Ef ég get aðstoðað þig ekki hika við að hafa samband.

 

Þér gæti einnig líkað við