Prjónaárið 2021

Mig langar að fara yfir þau prjónaverkefni sem ég kláraði árið 2021 en eins og þið vitið þá elska ég að prjóna og hef birt nokkrar færslur um það hér á lady.is

Óskalistinn er stöðugt að breytast og lengjast en ég skrifaði færslu í september um það sem var á óskalistanum á þeim tíma. Þá færslu má nálgast hér. Það er samt hálf-skammarlegt að segja frá því að ég hef ekki prjónað neitt af þessum lista! En það er aldrei að vita hvað gerist á nýju ári. Eitt er samt víst að listinn af því sem mig langar að prjóna á eftir að lengjast. 

Ég setti mér markmið í upphafi síðasta árs að reyna að halda betur utan um það sem ég prjóna, bæði hvaða verk ég klára og úr hvaða garni og þess háttar. Ég keypti mér ódýra bullet planner bók í Tiger sem ég hef verið að skrá í. Nýti soldið bullet journal stílinn og get þá stjórnað því alfarið hvað er í bókinni. Mér finnst oft vera svo mikið af blaðsíðum í tilbúnum dagbókum sem ég nýti lítið svo þetta hentar mér mjög vel. Þessa bók ætla ég svo að nýta áfram í ár undir verkefnin sem ég klára. Ég ákvað að geyma alla miðana af dokkunum sem ég prjónaði úr og taka saman í lok árs úr hversu miklu garni ég prjónaði. Það var mjög skemmtilegt og ætla ég að gera það aftur á þessu ári. 

Ég kláraði 20 verkefni sem ég er mjög ánægð með. Það er kannski ekki svo mörg verkefni fyrir suma en með öllu hinu sem var að gerast í mínu lífi er þetta bara alveg hellingur. Ég prjónaði úr 51 dokku sem gera 2500g og 6772 metra. Mér finnst mjög gaman að hafa þessar tölur og er spennt að geta borið afköst ársins 2022 saman við það sem ég kláraði 2021.

Ég er alls ekki nógu dugleg að taka myndir af verkunum mínum sem er skammarlegt en eftir að ég byrjaði með instagram aðganginn Handarpat sem er hálfgerð handavinnudagbók þá hef ég bætt mig talsvert í þessu. En við skulum vinda okkur í þessa yfirferð!

# 1 Uglupoki úr Dala baby ull

# 2 Fræ rompur. Prjónað úr Lille Lerke. Uppskrift eftir Ömmu loppu

# 3 Líf húfa. Prjónað úr Lille Lerke. Uppskrift eftir Ömmu loppu

# 4 Teppið hennar Amalíu. Prjónað úr Smart. Uppskrift eftir Ömmu loppu

# 5 Eyrnaslapi lambúshetta. Prjónað úr 2x Drops baby merino. Uppskrift eftir Dagbjörtu Örvarsdóttur.

# 6 Bambi. Prjónað úr Lille Lerke. Uppskrift eftir Ömmu loppu

# 7 Lopapeysan Dropar. Prjónað úr Álafosslopa. Uppskriftin er í bókinni Prjónað úr íslenskri ull 

# 8 Ægir heilgalli. Prjónað úr Sandnes Merinoull. Uppskrift eftir Ömmu loppu

# 9 Una leggingbuxur. Prjónað úr Duo. Uppskrift í bókinni Una prjónabók

# 10 Lille bjørn húfa. Prjónað úr  KFO Merino og KFO Soft silk mohair. Uppskriftin eftir Knitting for Olive

# 11 Viðja kragi. Prjónað úr Duo. Uppskrift eftir Ömmu loppu

# 12 Smári peysa. Prjónað úr Duo eftir Ömmu loppu

# 13 Lille søsters rompur. Prjónað úr Lille Lerke. Uppskriftina má finna á petiteknit.com

# 14 Una leggingbuxur. Prjónað úr Drops Lima. Uppskrift í bókinni Una prjónabók

# 15 Lille søsters rompur. Prjónað úr Lille Lerke. Uppskriftina má finna á petiteknit.com

# 16 Lille bjørn húfa. Prjónað úr Drops baby merino og Drops kid silk. Uppskriftin er eftir Knitting for Olive

# 17 Rún háar bleyjubuxur. Prjónað úr Lille Lerke. Uppskrift eftir Ömmu loppu

# 18 Lille søsters rompur. Prjónað úr Lille Lerke. Uppskriftina má finna á petiteknit.com

# 19 Knut vettlingar úr Kambgarni. Uppskriftin er úr bókinni Votteboka

# 20 Líf samfestingur. Prjónað úr Lille Lerke. Uppskrift eftir Ömmu Loppu

Í október tók ég þátt í afgangasamprjóni og eru verkefni 15 – 18 afraksturinn. Mjög skemmtilegt að taka þátt í svona samprjóni og nauðsynlegt að saxa aðeins á afgangsgarnið. Ég er almennt alls ekki nógu dugleg við það en þetta var gott spark í rassinn að spá aðeins meira í því að nota það sem er til. 

Eins og þið sjáið er ég mjög hrifin af uppskriftunum eftir Ömmu Loppu. Flíkurnar sem hún hannar eru virkilega fallegar en svo skemmir ekki fyrir að uppskriftirnar hennar eru einfaldar og skemmtilega uppbyggðar. Mæli með að kíkja á þær ef þú hefur ekki gert það nú þegar.

Vonandi hafðiru gaman af því að sjá það sem ég prjónaði á síðast ári. Núna ætla ég að setjast niður og njóta þess að prjóna!

Þér gæti einnig líkað við