Þá erum við fjölskyldan flutt í Hveragerði. Hér ætlum við að vera á meðan það er verið að byggja húsið okkar. Eistarnir koma í lok október/byrjun nóvember og henda húsinu upp á nokkrum vikum. Við erum í mjög kósý bústað, frekar litlum en það fer vel um okkur og erum við búin að koma okkur vel fyrir. Við erum öll í vinnu og skóla í Reykjavík og finnst mér lítið mál að keyra á milli, enda vön, fædd og uppalin í Hveragerði. Það eina leiðinlega við þetta er að litlan mín hún Júlía Hulda hatar að vera í bíl og eru allar bílferðir eiginlega undantekningalaust hræðilegar. Mikið grátið og kvartað. Er að halda í vonina að hún venjist hægt og rólega og verði betri.
Ég er aftur farin að vinna eftir fæðingarorlof. Er komin í nýja stöðu og er mjög spennt fyrir komandi tímum. Fyrir fæðingarorlof var ég að vinna í móttökunni hjá hjúkrunarheimilinu Mörk en núna er ég komin yfir á skrifstofuna hjá Mörk, íbúðir 60+ og mun ég vinna fjölbreytt og skemmtilegt starf þar. Ég skráði mig einnig í meistaranám í Stjórnun í heilbrigðisþjónustu og byrjar það nám í byrjun september. Það er auðvitað mikið að fara að gerast hjá okkur á næstunni og vona ég að þetta verði ekki allt of mikið. Kemur það bara í ljós í vetur en í versta falli fresta ég þá náminu.
Ágústa Erla byrjar í grunnskóla í næstu viku og fer hún í Dalskóla. Hún er ótrúlega spennt að byrja og er ég óendanlega stolt af henni. Júlía Hulda er að fara í leikskóla en vorum við svo óheppin að hún er í síðustu aðlögunar vikunni og byrjar hún því ekki fyrr en í lok september. Þetta raskaði aðeins plönunum hjá okkur. Við ætluðum öll að vera saman í fríi þegar Ágústa Erla kláraði leikskólann og ferðast saman um landið. En útaf þessu komst Óli ekki í frí og var ég því ein með stelpurnar í fjórar vikur. Hann fer því í frí núna þar sem að ég er byrjuð að vinna og verður með Júlíu Huldu í sex vikur. Fjölskyldufrí verður að bíða þar til næsta sumar.
Þetta er búið að vera smá púsluspil og verður í vetur þar sem að við erum öll að vinna og í skóla á sitthvorum tímanum en með góðu skipulagi og þolinmæði þá gengur þetta alveg upp. Þurfum bara að muna að þetta sé tímabundið og áður en við vitum af erum við flutt inn í nýja heimilið okkar.
Hér koma nokkrar myndir frá því í sumar af okkur fjölskyldunni.
Vonandi áttu þið gott sumar!
xo
Guðrún Birna
Instagram–> gudrunbirnagisla