Nordisk lejrskole
Nú er sumarið komið, skólarnir lokaðir vegna sumarleyfa og við, foreldrarnir, þurfum að vera uppfinningarsöm við að finna verkefni fyrir börnin okkar til að brúa tímann fram á haustið. Þannig er þetta bara. Þetta „gamla góða – að senda þau í sveit“ er því miður eitthvað sem ég og mín kynslóð heyrum bara af frá foreldrum okkar og afa og ömmu. Ekki nema að hinn breski Radcliff sem mikið hefur verið fjallað um í fjölmiðlum uppá síðkastið sökum jarðarkaupablætis sjái sóknarfæri í því þarna fyrir austan, á þessum 40 jörðum sem hann er búinn að kaupa þar, koma börnum „malarbúa“ í tengsl við íslenska náttúru í sveit. Þetta var nú útúrdúr, EN – hvað er í boði fyrir laukana okkar yfir sumartímann, annað en hin ýmsu námskeið á vegum ÍTR, sem eru mjög góð svo langt sem þau ná.
Sú sem þetta skrifar varð þeirrar ánægju aðnjótandi að vera beðin um að fara með hóp tápmikilla krakka í norrænar sumarbúðir, sem haldnar eru ár hvert í Hilleröd í Danmörku.
Norrænar sumarbúðir? Ég efast um að margir lesendur hafi heyrt það nefnt, hvað er það nú eiginlega? Nú velta eflaust margir vöngum.
Áður en lengra er haldið, þá vil ég bara hafa það sagt að þetta hefur ekkert með 100 ára afmæli norrænu félaganna að gera, sem haldið er uppá í ár.
„Nordisk sommerlerjeskole“ eru sumarbúðir fyrir krakka af norðurlöndunum Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Danmerku, Færeyjum, Grænlandi, Finnlandi og Álandseyjum á aldrinum 10 – 15 ára. Sumarbúðirnar eru staðarsettar 40 min fyrir utan Kaupmannahöfn í bænum Hilleröd.
Sumarbúðirnar er á vegum norrænu félaganna og eru styrktar af þeim. Markmiðið er að efla tengsl yngri kynnslóða þjóðanna, gefa þeim tækifæri til að kynnast í leik og starfi.
Sumarbúðirnar hafa verið starfræktar nokkuð lengi. Ég hef því miður ekki tölu á því hversu lengi en ég var það heppin að fá að fara í þessar sumarbúðir öll mín uppvaxtarár og elskaði það. Og hversu ótrúlegt sem það kann að hljópa, þá er ég nú, rúmum 15 árum seinna, ennþá í sambandi við krakka sem ég kynntist í gegnum sumarbúðirnar. Þá helst við hana Maríu frá Svíðþjóð og erum við í ófá skipti búnar að mæla okkar mót í gegnum árum. Svo má ekki gleyma því hve skemmtileg, öðruvísi og spennandi lífsreynsla þetta var! Þegar ég var yngri var ekki tekið í mál að tala ensku svo það reyndi vissulega á dönsku kunnáttuna að tala við hina krakkana.
Dagskráin er fjölbreytt og breytist með ári hverju en grunnurinn er yfirleitt sá sami. Í ár var dagskráin svohljóðandi:
Mánudagur
Boðin velkomin í sumarbúðirnar
Kvöldmatur
Fræðsla um sumarbúðirnar
Trommukennsla
Söngstund við varðeld.
Þriðjudagur
Zipline og klifur í trjánum
Leikir heima í sumarbúðunum
Miðvikudagur
Fjallahljól
Sund
Hestaferð
Svo leikir heima í sumarbúðunum.
Fimmtudagur
Kaupmannahöfn
Escape room
Bátsferð og fræðsla um kaupmannahöfn
Strikið
Tivoli
Föstudagur
Bæjarferð í Hillerod
Höllinn – Fredriksborgarhöll heimsótt.
Ströndin, sjóböð og sólbað.
Talent show
Diskó
Laugardagur
Heimferð
Eins og kom fram hér að framan er dagskráin breytileg á milli ára. Árið á undan var farið í kayak-ferð, bogfimi, klifurvegg og axarkast.
Krakkarnir raða sér sjálf í herbergi og eru þau oftast tvö eða fjögur saman í herbergi. Aðstæðan er öll hin glæsilegasta fyrir draumasumarbúðir. Bátar, fótboltavöllur, blakvöllur, borðtennis, aparóla, fótboltaborð, diskótek, bókasafn, poolborð, fjallahljól, rólóvöllur, bíósalur, fótboltaspil svo eitthvað sé nú nefnt.
Fyrripart júlímánaðar fór ég með fjórar galvaskar stelpur í sumarbúðirnar. Það fer fararstjóri með frá hverju landi að fylgir sínu fólki. Ef fjöldi umsækjanda er mikill, þá fjölgar fararstjórunum, þannig að utanumhaldið er mjög gott. Þetta var í fyrsta sinn í 15 ár að ég kom til baka eftir mína dvöl sem þáttakandi í sumarbúðunum. Ég var spennt og fylltist ,,nostalgíu” ég veit ekki alveg hver hafði meira gaman af sumarbúðunum þær skvísur sem mér komu í ferðina eða ég. Segi bara svona – við höfðum líklegast jafn gaman af þessu allar.
Ég get vel hugsað mér að fá að fara aftur að ári og mun berjast fyrir þeirri stöðu ef þess þarf, svo gaman var þetta.
Það var rosalega gaman að sjá hvernig krakkarnir opnuðust við dvölina. Fyrst voru þær allar frekar feimnar og hógværar, vildu nú lítið trana sér fram. Svo eftir því sem á dvölina leið og þær voru farnar að kynnast krökkum frá hinum löndunum, þá óx þeim ásmegin. Þær voru farnar að gefa kost á sér strax, ef óskað var eftir sjálfboðaliðum og voru ekkert feimnar við að takast á við fjölbreyttar áskoranir, bara eins og trjáklifur svo dæmi sé nefnt.
Ég vil þakka Norræna félaginu á Íslandi fyrir að gefa ungmennum á Íslandi tækifæri til að kynnast krökkum á sama reki frá hinum norðurlöndunum með þessum hætti. Þetta er að mínu mati frábært framtak og tilboð sem bara því miður allt of fáir vita af.
Ég læt hér staðarnumið en ef það er áhugi fyrir frekari upplýsingum þá er hér slóðin að vefsíðu sem gerir grein fyrir staðsetningu búðanna, húskosti, leiktækjum o.fl.:
https://hillerodhostel.dk/da/grupper/lejrskoler?gclid=CjwKCAjwmtDpBRAQEiwAC6lm4wmGyTgCWGUk_vIqy1ErITMpKgU6EGTAte4QOrRpm-LTnQ_TFMLuCRoCbwUQAvD_BwE&gclsrc=aw.ds
Einnig er ykkur velkomið að senda mér post á : saeunn@secretoficeland.is
Bestu kveðjur
Sæunn Tamar