Nokkur ráð til að óska eftir launahækkun

Ég heyri fólk svo oft tala um að þeim langar að biðja um launahækkun í vinnunni sinni, en þori ekki eða viti hreinlega ekki hvernig þau eigi að fara að. Ég starfa sem launasérfræðingur, svo fólki finnst sennilega þægilegra að tala um launamálin sín við mig, heldur en við einhvern annan. En fyrsta ráðið sem ég gef fólki alltaf er: GO FOR IT! Þú hefur í rauninni engu að tapa, það versta sem gerist yfirleitt eftir launaviðtal, er höfnun á launahækkun. Og ef maður fær slíka höfnun, þá hefur maður tvo kosti í stöðunni; sætta sig við það eða fara og finna sér aðra vinnu. 

Mig langar til að gefa ykkur nokkur ráð, fyrir þau sem hafa verið að melta það að sækja um launahækkun, en hingað til ekki þorað. Númer eitt, tvö og þrjú er að vera viss um að þú eigir rétt á þessari launahækkun. Ertu með góða mætingu? Mætir þú á réttum tíma? Klárar þú verkefnin þín tímanlega? Sýnir þú frumkvæði í starfi? Eru launin þín undir meðaltalslaunum í þeirri starfsgrein sem þú starfar í? Ertu búin/n að starfa í sex mánuði eða lengur? Hefur þú enga launahækkun fengið í eitt ár eða meira? Hefur þú mikla starfsreynslu í þessari starfsgrein? Ef þú getur svarað við flestum þessara spurningum, og jafnvel talið upp fleiri atriði, þá ættir þú ekki að vera í neinum vafa um að þú eigir rétt á launahækkun. 

Þegar það er komið á hreint, þá er ekkert annað í stöðunni en að panta launaviðtal við yfirmann. Það eiga allir rétt á launaviðtali einu sinni á ári, svo yfirmaður á  ekki að geta neitað þér um slíkt viðtal. Þú getur pantað viðtalið með því að senda póst á yfirmann eða með því að tala við yfirmanninn í persónu og óska þannig eftir launaviðtali. Ég veit að launaviðtöl geta verið verulega stressandi, en hér er mjög mikilvægt að vera ákveðin/n. Nefna með góðu öryggi ástæðurnar fyrir því að þú eigir rétt á þessari launahækkun. Fake it until you make it, án gríns. Vera tilbúin/n með ákveðna tölu sem þú ætlar að óska eftir og vera líka undirbúin/n fyrir það að fá móttilboð og vita þá nákvæmlega hvað er þitt lægsta boð sem þú ferð alls ekki niður fyrir. Það er gott að skoða til dæmis VR, meðallaun eftir starfsgreinum, til að hafa sem viðmið. Ég myndi samt alltaf reyna að fókusa á þitt virði fyrir fyrirtækið, frekar en að einblína of mikið á annarra manna laun eða eitthvað slíkt. Hér er gott að undirbúa sig vel og æfa sig. Skrifa niður punkta og lesa vel yfir þá, svo ekki gleymist að minnast á einhver mikilvæg atriði sem geta haft áhrif á ákvörðunartöku. 

Ef þú heldur að það sé of stressandi fyrir þig að fara í launaviðtal og þú færð bara kvíðahnút í magann við tilhugsunina, þá mæli ég með því að senda tölvupóst á yfirmann þinn þar sem þú óskar eftir launaviðtali og lætur allar upplýsingarnar koma fram í póstinum. Sem sagt launakröfur og ástæður fyrir því að þú eigir rétt á launahækkun. Þannig að þegar að viðtalinu kemur, þá ertu búin að segja allt og þarft í raun þá bara að staðfesta póstinn og spjalla aðeins við yfirmann og fá frá honum svar. Mörgum yfirmönnum finnst þetta ekkert verri aðferð, því þarna eru þeir búnir að sjá kröfur starfsmannsins fyrirfram og geta því betur undirbúið sig fyrir viðtalið og verið tilbúnir með samþykki eða móttilboð. Hér þarf kannski einna helst að passa sig á því að pósturinn sé ekki of langur. Stikla á stóru og reyna að láta einungis aðalatriðin koma fram í póstinum, það nennir enginn að lesa alltof langa pósta. Þegar pósturinn er sendur, þá er stærsta skrefið búið og margir sem upplifa mikið stress á þessum tímapunkti, sem er mjög eðlilegt. Það getur alveg gerst að yfirmaður samþykki launakröfurnar einn, tveir og bingó, en það getur líka verið að hann vilji taka viðtalið. Þá er bara að mæta og heyra hvað yfirmaðurinn hefur að segja. Kannski kemur hann með einhver mótrök fyrir því að þú eigir ekki rétt á launahækkun, og þá þarf maður að vera tilbúin/n að vera svolítið gagnrýnin/n á sjálfan sig, hvort það sé eitthvað til í þessu. Ef þú ert ekki sammála, þá verður þú að standa með því og vera ákveðin/n. Vera jafnvel tilbúin/n með góð mótrök og vera alveg staðfastur í því að þú eigir rétt á launahækkun. 

Ég veit að þetta er erfitt fyrir mjög marga, en ég lofa ykkur því að með aukinni menntun, starfsreynslu og eftir því sem þú verður eldri, því auðveldara verður þetta. Fyrsta launaviðtalið er líka alltaf erfiðast, þannig að það er gott að hugsa um það, rífa plásturinn bara af. Hugsa um lokaútkomuna frekar. Ef þú gerir ekkert, þá breytist ekkert. En ef þú lætur vaða, þá hugsanlega færð þú launahækkunina sem þú ert búinn að vera að dreyma um! Ef þú VEIST að þú ert góður starfsmaður og finnst þú vera að fá of lág laun fyrir þína vinnu, þá ættiru að sækja um launahækkun NÚNA! Eftir hverju ertu að bíða? 

Gangi ykkur vel 🙂 

Mig langar að taka það fram að þessi ráð eiga ekki við þegar fólk er á kjarasamningsbundnum launum, þar sem laun hækka einungis eftir kjarasamningum. 

Takk fyrir að lesa 

 

 

Þér gæti einnig líkað við