Hvernig er hægt að fylgjast með mataræðinu?

Eins og margir vita eflaust þá legg ég mikla áherslu á hollt og gott mataræði. Til að byrja með minnkaði ég þann mat sem talinn var vera óhollur og borðaði eins mikið og ég vildi af „hollari mat“. Ég var þá ekkert að fylgjast með heildarhitaeiningum sem ég borðaði yfir daginn eða hvort ég væri að fá nóg af próteini, fitu og kolvetnum.

Myfitnesspal

Árið 2012 kynntist ég forriti sem heitir MyFitnessPal þar sem hægt er að skrá niður allan þann mat sem maður borðar yfir daginn og fylgjast með hitaeiningum og næringargildi í matnum. Ég hef notað þetta forrit nánast daglega eftir að ég kynntist því fyrst en það er svo ótrúlega auðvelt og fljótlegt að skrá inn í forritið þegar maður er búinn að læra inn á það.

Það er bæði hægt að nota forritið í símanum og í tölvu en ég kýs sjálf að nota það í símanum því mér finnst það þægilegra og fljótlegra. Það góða við forritið er að það er búið að skrá inn mest allan mat sem maður kaupir úti í búð og þarf því aðeins að vigta skammtinn sinn og leita að vörunni í forritinu. Það er líka mjög þægilegt að það er oft hægt að taka mynd af strikamerkinu í forritinu og þá kemur það með allar upplýsingar um vöruna sem er skönnuð inn. Ef ég finn ekki vöruna sem ég keypti í búðinni í forritinu þá er ekkert mál að búa vöruna til í forritinu en þá er alltaf hægt að sækja upplýsingarnar aftur næst þegar ég borða vöruna.

Þar sem ég er mjög vanaföst þá nota ég mjög mikið most recent en þar kemur upp allur matur sem var síðast skráður inn og í þeim grömmum sem hann var skráður.

Upphaflega skipti forritið máltíðum í fjóra hluta; morgunmat, hádegismat, kvöldmat og snarl.
Þar sem ég er að borða á tveggja tíma fresti yfir daginn var það engan veginn nógu margir hlutar og breytti ég því stillingunum þannig að ég er með; morgunmatur, millimál, hádegismatur, millimál, kvöldmatur og snarl. Það er ekkert mál að stilla þetta eins og hentar hverjum og einum.

Mér finnst best að setja inn í forritið daginn áður svona nokkurn veginn það sem ég ætla mér að borða. Þar sem ég tek nesti með mér í vinnuna finnst mér best að vera búin að áætla hvað það er sem ég ætla að borða yfir vinnudaginn og skrái það inn í forritið. Ég notast mikið við litla eldhúsvigt þar sem ég vigta nánast allan matinn minn fyrir eldun. Ég er ekki jafn mikið að stressa mig á að vigta nákvæmlega mat sem ég veit að er lágur í hitaeiningum eins og til dæmis kál, gúrka, paprika, tómatar, kúrbítur og fleira.

Það sem ég skrái inn deginum áður er þá morgunmaturinn minn sem er oftast overnight grautur sem ég bý til kvöldinu áður.
Þá byrja ég á að vigta ég hafra í boxið sem ég ætla að nota og skrái beint inn í appið. Ég núlla síðan vigtina inn á milli og vigta næsta hráefni sem er vanalega prótein, rúsínur o.s.frv. Ég vigta líka grautinn sem ég borða í vinnunni fyrir æfingar og set í box sem ég get tekið með í vinnuna.

Þar sem ég er rosalega vanaföst og borða oft svipað eða sama dag eftir dag þá finnst mér mjög þægilegt að ég get afritað heila máltíð, eða hluta af henni yfir á næsta dag.
Þá vel ég blýantinn efst uppi í hægra horninu, haka í þann mat sem ég vil afrita, ýti á punktana þrjá sem eru efst uppi í hægra horninu og vel copy to date.
Þá afritast allt sem ég hakaði við (og grömmin líka) yfir á þann dag sem ég vel og þarf ég þá ekki að skrá allt upp á nýtt.

Það sem ég borða síðan eftir vinnu eða um helgar er ég ekki búin að skrá niður í forritið fyrir fram.
Þegar ég elda kvöldmat þá vigta ég allt meðan ég elda og skrái strax niður.
Það er mjög þægilegt í forritinu að ég get líka búið til uppskrift og skráð þar niður allt sem ég nota í þá uppskrift. Síðan skrái ég bara inn hversu mikið af heildaruppskriftinni ég fæ mér. Þetta er mjög sniðugt fyrir rétti eða uppskriftir sem maður gerir reglulega.

Markmiðin mín

Það er misjafnt hversu margar hitaeiningar ég miða við eftir hver markmiðin mín eru og hversu mikil hreyfingin er.
Nú er ég til dæmis að hreyfa mig frekar mikið og hjóla og vil ég því hafa hitaeiningarnar mínar aðeins í hærri kantinum.
Ef ég er að skera niður eða hreyfi mig minna þá lækka ég bara hitaeiningarnar aðeins niður í samræmi við það.

Það er hægt að setja sér markmið um hitaeiningafjölda í forritinu og það er líka hægt að setja inn markmið á hvernig maður vill hafa hlutföll macros (kolvetni/fita/prótein).

Samantekt

  1. Leita að matnum í forritinu með því að skrifa inn heitið á matnum, skanna inn strikamerki eða leita undir recent
  2. Vigta matinn fyrir eldun
  3. Skrái grömmin inn í forritið. Það er bæði hægt að velja number of servings og serving size. Í fyrra set ég inn grömmin sem ég var búin að vigta og í seinna vel ég oftast 1 gramm ef það er hægt. Ef það er ekki hægt að velja 1. gramm heldur einungis 100 grömm þá þarf að hlutfalla í samræmi við það.
    Dæmi: ætla að skrá inn 30 gr. hafra en það er aðeins hægt að hafa stillt í 100 gr. í serving size. Þá geri ég 0,30 í number of servings til að fá réttar upplýsingar fyrir 30 grömmin

Ég mæli með að prófa sig áfram með forritið. Það getur litið út fyrir að vera frekar flókið í fyrstu en um leið og maður er búinn að skrá niður nokkra daga þá verður þetta auðveldara.

Það er auðvitað ekki alltaf hægt að skrá nákvæmlega niður í forritið hvað það er sem maður er að borða, til dæmist þegar maður fer út að borða eða einhver annar sér um að elda. Það er þó hægt að leita eftir uppskriftum annarra í forritinu og hentar það ágætlega fyrir uppskriftir sem eru oft með svipuðu innihaldi (t.d. spaghetti, lasagna, súpur o.s.fr.v). Sum fyrirtæki setja máltíðirnar sínar inn í forritið og er hægt að skrá matinn niður í þeim tilfellum. Þegar ég finn ekki máltíðina sem ég borða í forritinu reyni ég að áætla hversu mikið magn ég er að borða og vel mat sem mér finnst passa best við. Niðurstaðan verður auðvitað ekki nákvæm en gefur manni aðeins skýrari mynd á því sem maður borðaði yfir daginn.

Ef þið viljið fylgjast með mér og hvernig ég tækla markmiðin mín þá mæli ég með að fylgja mér á Instagram

Þangað til næst,
Ása Hulda

Þér gæti einnig líkað við