Móskarðshnúkar

Ég og Svenni gengum upp á Móskarðshnúka um daginn. Okkur hefur lengi langað að ganga þarna upp og fundum loksins tíma. Það vildi svo skemmtilega til að við fengum frábært veður, eiginlega besta gönguveðrið okkar hingað til í allt sumar. Ég var á fjallgöngunámskeiði í fyrrahaust þar sem við fórum þessa leið, en sökum mikils snjós, hálku, myrkurs og roks þá náðum við ekki að klára gönguna. Þannig að það var klárlega á to do listanum mínum að klára þessa göngu og þá helst í birtu og góðu veðri. Það er ekki hægt að líkja því saman að fara þessa göngu í snjó og svo sumarveðri, því litadýrðin þarna er alveg mögnuð, sem sést náttúrulega ekkert þegar allt er snævi þakið.

Gangan er um 7,5 km löng og með um 650 m hækkun. Ætli hækkunin sé ekki bara svipuð og á Esjunni, en leiðin er aðeins lengri náttúrulega. Erfiðleikastigið myndi ég segja að væri soldið svipað, en það eru kannski meiri líkur á að vera lofthræddur á Móskarðshnúkunum, þó ég hafi reyndar nánast ekkert orðið lofthrædd í þessari göngu, ótrúlegt en satt. Það var samt á sumum stöðum, sérstaklega í mesta brattanum í lokin, þar sem mér stóð kannski ekki alveg á sama. En ég var með göngustafi alla gönguna, og mæli ég klárlega með því og þá að minnsta kosti á leiðinni niður, þar sem þetta er soldið mikill bratti í lausamöl. 

Til að hefja gönguna þá keyrir maður inn Mosfellsdalinn og beygir svo til vinstri eftir að farið er framhjá afleggjaranum að Gljúfrastein. Eftir nokkra kílómetra kemur svo afleggjari merktur Móskarðshnúkum og keyrir maður hann þangað til maður er kominn á bílastæðið. Þaðan hefst svo ferðin fótgangandi. Maður þarf soldið að passa sig að fara ekki ranga leið, þegar maður er kominn aðeins áleiðis, að fara þá upp gönguslóðann, en ekki halda áfram malarveginn. Ég myndi fylgjast vel með því, þar sem ég hef heyrt frá nokkrum sem hafa gert þau mistök. En ef gönguslóðanum er fylgt þá er restin af leiðinni mjög augljós og ætti ekki að vera hægt að villast neitt. 

Þetta er ganga sem ég mæli alveg ótrúlega mikið með. Klárlega ein skemmtilegasta og fallegasta gangan, sem er svona nálægt höfuðborgarsvæðinu, sem ég hef farið.

Takk fyrir að lesa 

Þér gæti einnig líkað við