Í byrjun mars var ég eitthvað að skoða screen time í Settings í símanum mínum (iPhone) og sá þá að ég var með meðal skjá tíma á dag um það bil sex klukkustundir! Mér krossbrá við að sjá þetta, því nokkrum mánuðum áður þegar ég skoðaði þetta var ég með um fjórar klukkustundir á dag. Mér fannst þetta ekki jákvæð þróun og vildi reyna að gera eitthvað til að minnka þennan síma tíma hjá mér. Ég setti mér markmið um hvað mig langaði að reyna að ná tímanum niður í. Ég ákvað til að byrja með að prófa að miða við 2,5 tíma á dag. Mér fannst það nokkuð raunsætt en hugsaði samt sem áður að það gæti orðið erfitt.
Ég var bara orðin svo rosalega háð því að vera alltaf í símanum. Ég var að hanga í símanum á meðan ég borðaði, á meðan ég horfði á sjónvarpið og stundum gekk það svo langt að ég hékk í símanum þegar ég var að tala við annað fólk. Það er svo mikið stanslaust áreiti að skrolla svona í símanum allan daginn. Fylgjast með hvað allir eru að gera, hvað allir eru að kaupa, allar fréttirnar, alla neikvæðnina og þar fram eftir götunum.
Ég fór fyrst á instagram og breytti aðgangnum mínum þar úr business í personal. Þegar maður er með business aðgang þá getur maður séð allskonar upplýsingar um hversu margir hafa skoðað og brugðist við hinu og þessu hjá manni. Það eru bara upplýsingar sem maður hefur ekkert að gera við, sé maður ekki að reka fyrirtæki. Þegar ég var komin með personal aðgang þá gat ég líka stillt mig á private. Þannig að einungis þeir sem eru að followa mig geti fylgst með mér, bæði því sem ég set á vegginn minn og því sem ég set í story. Mig hefur langað að prófa að setja instagramið mitt á private í smá tíma, bara svona til að meta það fyrir sjálfa mig hvort ég vilji hafa líf mitt svona opið fyrir alla til að sjá. Ég fer alveg fram og til baka með þessa ákvörðun. Stundum hugsa ég um að hafa það bara opið, halda áfram að safna fylgjendum og bera út boðskapinn um jákvæða líkamsímynd og heilsu óháð stærð. En svo inn á milli hugsa ég hvað það er notalegt að hafa allt bara lokað og enginn getur njósnað um mig nema senda mér beiðni um follow. Ég samþykki samt alveg allar beiðnir sem ég fæ um follow, en mér finnst þægilegt að vita að fólk til dæmis úr fortíðinni minni geti ekki verið að njósna um mig. Ég geri samt alveg fastlega ráð fyrir því að ég muni opna aðganginn minn einhverntíma aftur, en það kemur bara í ljós.
Svo eru mörg verkefni sem mig hefur langað til að sinna, en oft ekki fundið tíma fyrir. Sem er ótrúlega fyndið í ljósi þess að ég hafði sex tíma aflögu til að hanga í símanum! Eitt af verkefnunum er ég búin að setja í gang og er byrjuð að vinna soldið í. Er búin að hugsa um það svo lengi, svo það er gott að vera loksins farin að gera eitthvað í því. Ég held að langflestir tengi við það að ætla að gera alveg helling, en ná samt einhvernveginn aldrei að klára verkefnin sín eða jafnvel ekki einu sinni byrja á neinu. Ég er nokkuð viss um að skjá tíminn hefur mikið að segja í þessu samhengi og getur alveg komið í veg fyrir að fólk geri ýmsa hluti vegna “tímaskorts”.
Ég hef fengið soldið af spurningum á instagram um hvernig mér tókst að minnka skjá tímann minn svona mikið. En ég hef náð að standa við markmiðið mitt um 2,5 tíma á dag síðan ég byrjaði á þessu, í meira en tvær vikur. En það sem ég hef gert er meðal annars:
- Tek ekki upp símann á meðan ég borða
- Tek ekki upp símann á meðan ég er að horfa á sjónvarpið
- Tek ekki upp símann þegar ég er að tala við annað fólk
- Skil símann stundum eftir heima eða í öðru herbergi
- Stilli símann á silent
- Set mute á hóp spjöll sem ég er í og reyni að takmarka hversu oft ég opna þau
- Í staðinn fyrir tilgangslaust skroll gríp ég í Sudoku eða dagbókina mína
- Fer í göngutúra
- Gef mér meiri tíma til að æfa og teygja
- Ekki hanga í símanum upp í rúmi, hvort sem er fyrir svefninn eða á morgnanna
- Ef ég ætla að vinna í einhverjum verkefnum í tölvunni þá einbeiti ég mér bara að verkefninu. Tek frekar skipulagðar pásur og þá má ég kíkja í símann.
- Skrifa to-do lista á blað eða í dagbók yfir verkefni sem á eftir að sinna og vinna í þeim
Það er pottþétt til fullt af fleiri aðferðum sem á sennilega eftir að reyna á hjá mér, en þar sem ég er bara rétt að byrja, þá hefur þetta dugað fyrir mig hingað til. Það hefur komið mér ótrúlega mikið á óvart hvað þetta hefur gengið vel. Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá hefur þetta bara verið mjög auðvelt. Fyrstu vikuna minnkaði ég skjá tímann minn um 65% og í síðustu viku um 12%, eins og sjá má á myndunum hér að ofan. Er ótrúlega spennt að sjá hvaða tölum ég næ í þessari viku, stefni að því að komast nær tveimur tímunum. Mér finnst ég hafa svo mikið meiri tíma eftir að ég byrjaði á þessu, mér verður meira úr verki og hef meiri orku til að gera hitt og þetta. Ég mæli svo ótrúlega mikið með að prófa þetta.
Takk fyrir að lesa