Mílanó helgarferð

Ég kíkti í helgarferð til Mílanó um miðjan nóvember að heimsækja dóttur mína, sem er þar í háskólanámi. Ég hafði pantað flugin fyrir mig með inneign sem ég átti vegna ferðar sem var aflýst árið 2020 í miðju covid. Þannig að ég ákvað að splæsa í soldið fínt hótel, svona til að gera aðeins vel við okkur mæðgur. Hótelið sem ég pantaði heitir IQ Hotels, og er staðsett rétt hjá Centrale lestarstöðinni, svo þegar maður kemur af flugvellinum, hvort sem er með rútu eða lest, þá er maður enga stund að labba á hótelið. Hótelið er mjög nútímalegt, með rooftop bar, spa og líkamsrækt, og nutum við þess alveg í botn. Við fórum í spa bæði á laugar- og sunnudeginum, en þar var sauna og lítil laug/pottur með ótrúlega fallegu útsýni. 

Þetta er í fjórða skiptið sem ég fer til Mílanó, svo það var nú svo sem ekki mikið sem ég átti eftir að gera í borginni. Þannig að þetta átti aðallega að vera slökunarferð til að eyða tíma með dóttur minni og kannski versla smá. En ég byrjaði að verða veik rétt áður en ég fór út og var veik meira og minna allan tímann úti. Ég var ágæt fyrripart laugardagsins, en þar fyrir utan var ég bara frekar slöpp. En við náðum samt að gera allt sem við höfðum áætlað að gera, svo við létum veikindin ekki skemma fyrir okkur helgina. 

Það sem við gerðum og skoðuðum í þetta skiptið var:

  • Giardini Pubblici Indro Montanelli (jólaland)
  • Bosco Verticale 
  • Duomo 
  • Chiesa Di San Bernardino Alle Ossa (hauskúpu kirkja)
  • Villa Invernizzi (skoða pink flamingos)
  • Bun Burgers (geggjaðir hamborgarar)
  • Versluðum alveg slatta, til dæmis í Sephora, Kiko, Douglas,H&M, Primark, Zara og Stradivarius. 

Elín var svo búin að panta fyrir okkur út að borða bæði á laugardags- og sunnudagskvöld. Á laugardagskvöldið fórum við með tveimur vinkonum hennar á ítalskan stað sem heitir Ponte Milvio og fékk ég mér þar pasta, sem ég fann samt ekkert rosalega mikið bragð af vegna veikindanna, því miður. Mjög lítill og kósý staður með bastkörfum hangandi úr loftinu. Á sunnudagskvöldið pantaði hún borð fyrir okkur tvær á mexíkóskum stað sem heitir Canteen, og þar fengum við okkur nachos og fajitas, sem var ótrúlega gott. Ekkert smá flottur staður með frábærri þjónustu. 

Hendi hérna inn nokkrum myndum, en þið getið einnig farið á instagrammið mitt @rosasoffia og séð alla ferðina þar í Highlight.

 

Takk fyrir að lesa 

 

Þér gæti einnig líkað við