Meðganga eftir ófrjósemi

Eftir langt og strangt ferli þá er ólýsanleg tilfinning að fá loksins að sjá jákvætt óléttupróf birtast. En meðganga eftir að hafa glímt við ófrjósemi eða fósturmissa einkennist oft af mikilli hræðslu og kvíða. Maður myndi halda að þetta yrði eingöngu gleði og spenningur. Í mínu tilfelli þá fannst mér þetta oft vera of gott til að vera satt og var alltaf að búa mig undir að þetta myndi ekki ganga upp.

Biðin eftir að komast í snemmsónar til að vera viss um að það sé fóstur þarna og á réttum stað.
Biðin eftir 12 vikna sónarnum, að geta loksins tilkynnt og þá er þetta orðið raunverulegt.
Biðin eftir 20 vikna sónarnum til að vera viss um að allt sé í lagi með krílið.

Eftir þennan tíma þá ætti maður að vera nokkurn vegin öruggur og hreiðurgerðin getur byrjað en hins vegar þá er hræðslan og kvíðinn ennþá til staðar.

Eftir að hafa beðið í nokkur ár eftir barni þá hefði ég haldið að ég yrði yfir mig spennt að undirbúa komu þess og missa mig í barnafatakaupum. Ég hef gert nokkrar tilraunir til þess að versla föt en sný alltaf við þegar ég nálgast barnafötin.
Þá kemur alltaf þessi hugsun ,,hvað ef eitthvað kemur upp á og ég get ekki notað þessi föt?‘‘
Við ákváðum í gær að fara saman og finna nokkrar flíkur og var það svo ótrúlega gaman.

Komin 25 vikur í dag 

Ég byrjaði að finna litlar hreyfingar komin rúmlega 16 vikur og síðan spörk í kringum 18.viku. Eftir það hafa hreyfingarnar aukist og orðið kröftugri. Síðustu helgi fór ég að finna minna og minna fyrir henni og var orðin frekar óróleg á sunnudeginum. Ég ákvað að hringja upp á Kvennadeild og fékk að koma til þeirra að hlusta á hjartslátt. Áður en ég lagði af stað, vakti ég Frey og lét hann vita af því hann vill alltaf koma með mér, þrátt fyrir að mega aðeins bíða út í bíl á meðan. Fékk mér góðan morgunmat, svona af gefinni reynslu þá hafa þessar heimsóknir farið frá klukkutíma og upp í næstum sólarhring. Tárin byrjuðu að streyma niður og ég byrjaði að ýminda mér allt það versta.Enginn hjartsláttur eða eitthvað mikið væri að og ég yrði sett á stað. Komin aðeins 24 vikur þá er mjög ólíklegt að hún lifi það af. Já, ég var komin þetta langt í hugsunum ..

Þurfti ekki að bíða lengi eftir að komast inn og heyrði þennan fína hjartslátt. Þvílíkur léttir.
En ég held að umræðan undafarið varðandi fósturmissa hafi triggerað mig gífurlega og að það hafi spilað eitthvað inn í þessa hræðslu.

En fyrir utan þessa tvo daga þá er litla daman mjög dugleg að láta vita af sér og meðal annars hélt fyrir mér vöku tvær nætur í röð þessa helgina með miklum spörkum. Fagna öllum hreyfingum, þrátt fyrir að ég væri nú alveg til í almennilegan svefn, en þá get ég verið viss um að henni líði vel og allt er á réttri leið.

Við megum hins vegar ekki leyfa þessu að einkenna meðgönguna. Ef eitthvað er að, þá getum við ekkert gert og það verður ekkert sárara fyrir vikið. Njótum á meðan 

Instagram -> ingajons

Þér gæti einnig líkað við