Martröð á meðgöngu – „Ég hélt ég væri að missa barnið mitt“

22.apríl 2015 er dagur sem ég mun seint gleyma. Ég var komin 24 vikur á leið og ég hélt að ég væri að missa barnið mitt.

Ég var í prófbúðum í MK þennan dag og var námskeiðið hálfnað þegar ég fæ smá sting hægra megin í kúluna. Stingurinn heldur áfram og segi ég við vinkonu mína (sem var líka ólétt) að ég sé með verki í kúlunni og að þeir fari versnandi. Eftir nokkrar mínútur versnar stingurinn ennþá meira og ég fer fram á gang með vinkonu minni og sest niður. Allt í einu er verkurinn orðinn það mikill að ég er hágrátandi og öskrandi. Hjúkrunarfræðinemarnir sem voru líka á námskeiðinu hlaupa fram á gang til mín. Þær spyrja mig fullt af spurningum og hringja svo á sjúkrabíl því þeim leist ekki á blikuna. Það settist yndisleg kona við hliðiná mér og hélt í hendina á mér og leiddi mig í gegnum öndunina því ég átti erfitt með að anda fyrir sársauka. Þegar sjúkrabíllinn kom var alveg að fara líða yfir mig útaf sársauka. Óli, kærastinn minn, var í útlöndum þannig að vinkona mín hringdi í mömmu mína og sagði henni hvað væri í gangi, hún hringdi svo í Óla til að láta hann vita.
Ég fór í sjúkrabörum útí sjúkrabílinn því ég gat ekki hreyft mig fyrir sársauka. Á leiðinni á spítalann var sjúkraflutningamaðurinn að tala við mig en ég man mjög lítið hvað hann var að segja. Ég man að hann spurði mig um kennitöluna mína en ég held að ég hafi náð að muldra hana útúr mér. Þegar ég kom á spítalann var mamma komin til að taka á móti mér. Mér er rúllað inn og á móti okkur taka fullt af fólki, ljósmæður, hjúkrunarfræðingar og fæðingarlæknir. Á þessum tímapunkti var ég skíthrædd, ekki um mig heldur barnið mitt. Ég hélt ég væri að missa það. Ég er strax tengd við mónitor til að athuga með barnið, litlu stelpuna mína.

Ég man voða lítið hvað gerðist svo en ég var orðin það uppgefin af sársauka að ég lá bara og gat ekki komið uppúr mér hljóði, ég táraðist bara.

Eftir smá tíma tekur mamma utan um mig og segir að það sé allt í lagi með stelpuna mína, læknarnir eru búin að kíkja á hana og það er ekkert að. Tilfinningin sem ég fékk þá er ólýsanleg, ég var glöð, mér var létt og já ég get eiginlega ekki líst henni Ég fór eiginlega bara að gráta meira því ég var svo fegin. Ég var fegin en á sama tíma var ég samt svo stressuð því að verkurinn í maganum mínum var ekkert að skána. Ég spyr hjúkrunarfræðinginn hvort ég geti ekki fengið eitthvað við verknum en hún segir mér að ég sé búin að fá tvisvar sinnum morfín í æð. Ég fann ekkert fyrir því og hélt að ég væri ekki búin að fá nein verkjalyf. Ég fæ að sjá stelpuna mína í sónar og þau segja mér að það sé ekkert að hjá henni og að henni líði vel. Eftir smá stund fæ ég þriðja morfín skammtinn og stingurinn fer loksins að minnka aðeins. Ég er lögð inn og þarf að vera yfir nóttina.

Ég gat eiginlega ekkert sofið um nóttina, ég var ein og mér leið hræðilega illa. Verkirnir voru ennþá til staðar. Ég þurfti nokkrum sinnum um nóttina að hringja bjöllunni til að fá meiri verkjalyf. Þegar þau byrjuðu að virka náði ég að sofna smá en vaknaði svo fljótt þegar verkirnir byrjuðu að koma aftur. Mér var orðið svo óglatt af morfíninu að ég þurfti að fá ógleðislyf líka. Um morguninn kom systir mín og sat hjá mér. Það voru teknar fullt af blóðprufum og ég fékk nokkrar heimsóknir frá ýmsum læknum. Enginn fann út hvað var að mér. Það var athugað með nýrun, botnlangann, magann, lifrina og allt sem hægt er að athuga. Allar blóðprufur komu fullkomnar út. Ég var fullkomlega heilbrigð og barnið líka. Um hádegi voru verkirnir orðnir töluvert minni, mér fannst ég ekki þurfa verkjalyf lengur. En ég vildi vita hvað var að, af hverju var ég með þessa verki? Þetta var eins og hnífstungur beint í kúluna. En enginn var með nein svör. Um kvöldið vildi ég fara heim. Ég vildi ekki vera þarna lengur og fékk ég leyfi til að fara heim með því skilyrði að ég kæmi strax aftur ef verkirnir byrjuðu að versna. Verkirnir voru alveg farnir daginn eftir.

Fimm dögum seinna eða 28. apríl kom verkurinn aftur. Ég var að læra fyrir lokapróf sem ég átti að fara í daginn eftir. Óli var í vinnunni og ég hringi í hann og segi honum að ég sé komin með verki og þeir fari versnandi. Nokkrum mínútum seinna er hann kominn og ég sit ennþá í stólnum mínum hágrátandi. Ég gat ekki hreyft mig fyrir sársauka. Hann togaði mig einhvernveginn upp úr sætinu og bar mig útí bíl. Ég gargaði af sársauka. Ég trúði því ekki að þetta væri að gerast aftur. Ég man að ég muldraði alla leiðina á spítalann „ég get þetta ekki aftur, ég get þetta ekki aftur“. Við hringdum á undan okkur þannig að þau vissu að við vorum að koma. Það var sama sagan, morfín í æð, fullt af blóðprufum, mónitor, sónar og fullt af sérfræðingum sem bönkuðu og potuðu í mig. Ég fór líka í ómskoðun en ekkert fannst að mér. Ég þurfti að vera yfir nóttina en fór heim daginn eftir, um kvöldið.

Fjórum dögum seinna kom verkurinn í þriðja og síðasta skipti. Ég fer aftur uppá spítala og sama sagan aftur. Það gat enginn fundið út hvað þetta var. Ég og Óli vorum orðin frekar pirruð á því að fá engin svör. Það sagði þó ein ljósmóðirin við mig sem var á vakt að það kæmu um fimm konur að meðaltali á ári til þeirra með einhverskonar verki sem þau gætu ekki fundið út. Hún sagði að þetta væri bara eitthvað sem læknavísindin gætu ekki útskýrt.

Þó þetta hafi ekki alveg verið útskýring á því sem var að gerast fyrir mig þá var fínt að fá eitthvað smá „svar“. Ég fékk þessa verki aldrei aftur eftir þetta sem betur fer.

Þér gæti einnig líkað við