Ég elska að setja mér markmið og standa við þau. Mér finnst nýtt ár svo geggjaður tími til að fara yfir markmið síðasta árs og velta upp hvaða markmiðum ég vil halda áfram og hver mig langar að taka út eða bæta við. Ég veit að það eru margir sem eru ekki mjög hlynntir svona markmiðasetningu, en fyrir mig virkar þetta fullkomlega. Ef ég er búin að skrifa niður í bók eða á blað, að ég ætli að gera x hlut, þá aukast líkurnar á því að ég geri hlutinn margfalt. Og mér líður best þegar ég hef nóg fyrir stafni. En auðvitað verður hver og einn að velja hvað virkar fyrir sig.
Ég nota dagbækur frá Personal planner sem ég sérsníða fyrir mínar þarfir HÉR. Ég skrifaði einnig í fyrra færslu um dagbókina mína og hvernig ég sníða hana að mér og hægt er að lesa þá færslu HÉR.
Ég nota Monthly habit tracker mjög mikið í dagbókinni minni. Þar held ég utan um markmiðin mín að mestu leyti. Í nýju dagbókinni minni sem ég keypti mér fyrir árið 2023 lét ég setja fleiri habit tracker en í fyrri bók. Þá er ég með einn tracker fyrir skrefin mín til dæmis. Það markmið sem ég set mér varðandi skref eru 7000 skref á dag. Ég vinn kyrrsetustarf og eftir vinnudaginn er ég í mesta lagi komin með 2000 skref, svo mikið fleiri skref en það væri of krefjandi fyrir mig. Maður þarf að aðlaga sín markmið fyrir sjálfan sig, þannig að þetta sé raunhæft, en á sama tíma kannski ekki alltaf auðvelt. Það að hafa þetta skrefa markmið hvetur mig til að fara út í göngutúra, út að hlaupa eða upp á fjall. Mér finnst frábært að ná einhverri smá útiveru á hverjum degi, þegar veður leyfir. Svo bara merki ég við þá daga sem ég næ markmiðinu og get þannig fylgst með stöðunni. Á síðasta ári náði ég þessu skrefa markmiði alla daga nema einhverja 10 daga, en það voru dagar sem ég var annaðhvort veik eða óveður. Svo nota ég annan tracker fyrir svefninn minn. Þá merki ég við alla þá daga sem ég næ 7 tíma svefn. Þetta markmið hvetur mig til að hugsa betur um svefninn minn og fara fyrr upp í rúm á kvöldin.
En aðeins meira um markmiðin mín. Ég set mér alveg nokkur markmið og þau eru flest í svipuðum dúr og í fyrra. Ég er bara farin að þekkja sjálfa mig það vel að ég veit hvað virkar og hvað ekki. Ég veit hvað mig langar að fókusera á. Hér er listi yfir mín markmið fyrir árið 2023:
- 7000 skref á dag
- Fara amk 100 km á mánuði – göngutúrar, hlaup og fjallgöngur.
- 1500 km í heild yfir árið.
- Halda áfram að læra spænsku í Duolingo.
- Lesa fleiri bækur (las enga bók í fyrra….)
- Hugsa betur um svefninn – ná oftar 8 tímum, en hef markmiðið 7 tíma
- Minni skjátími – reyna að miða við að hafa ekki meira en 3 tíma á dag í skjátíma
- Ferðast meira – bæði innan- og utanlands
- Standa á höndum – halda áfram í HSPU prógramminu
Ég er svo spennt fyrir þessu ári og halda áfram að mastera markmiðin mín! Ég mæli alveg eindregið með að prófa að setja sér svona markmið og nota einhvers konar tól til að fylgja eftir árangrinum, eins og habit tracker. Það er kannski of mikið fyrir byrjendur í þessu að setja sér svona mörg markmið, þá er bara að byrja smátt, með kannski 1-3 markmið og byggja svo ofan á það. Gangi ykkur vel og gleðilegt ár <3
Takk fyrir að lesa