Lífið ♡

Ef þið eruð að fylgja mér á Instagram þá hafið þið eflaust séð stóru fréttirnar. ♡

En við maðurinn minn eigum von á barni í lok sumars og er þetta búið að taka okkur rúm 6 ár.

Ég skrifaði aðeins um okkar sögu að barneignarferlinu HÉR

Við höfum sem sagt verið að kljást við ófrjósemi og þurftum að hafa ansi mikið fyrir þessu kríli. En eftir töflu hormónameðferðir, aðgerðir og tvær frjósemismeðferðir, eina glasafrjóvgun og eina smásjárfrjóvgun, tókst þetta loksins. Er ekki ennþá að trúa þessu og held að ég muni ekki trúa þessu fyrr en ég fæ barnið í fangið. 

Eftir smásjárfrjóvgunina þá áttum við að taka próf 2 vikum seinna, nánar tiltekið 23.desember.

Í fyrri meðferðinni þá vorum við ótrúlega jákvæð fyrri vikuna að þetta hefði heppnast en svo á seinni vikunni þá fór ég að finna á mér að þetta hefði mögulega ekki virkað. Þegar það kom að því að taka prófið og það neikvætt, þá var það meira staðfesting á því sem ég hélt. Var voða dauf og mæti í vinnuna, sem ég hefði svo sannarlega ekki átt að gera af því sorgin helltist yfir mig þegar ég gerði mér almennilega grein fyrir þessu. Það var mjög erfitt að halda tárunum aftur, lét yfirmann minn vita en ég neitaði að fara heim. Vildi ekki velta mér of mikið upp úr þessu en fann hvað ég brotnaði gjörsamlega niður um leið og ég kom heim úr vinnunni. 

2ja vikna biðin í þessari meðferð var þannig að í fyrri vikunni vorum við bæði handviss um að þetta hefði ekki virkað, enda mikið sem fór úrskeiðis í meðferðinni sjálfri og vorum farin að skoða það að fara í meðferð til Grikklands vonandi sumarið 2021. Þegar leið á seinni vikuna fann ég að þetta hefði mögulega virkað en þorði ekki að segja það upphátt ef það væri svo rangt.

Varð virkilega veik eftir meðferðina og komst að því seinna meir að ég hefði fengið oförvun eftir meðferðina og getur víst verið hættulegt fyrir konur að verða óléttar ofan í oförvun. En okkur var ekki farið að litast á blikuna og ætluðum að fara upp á spítala kvöldið 21.desember. En ákváðum að bruna í apótek og taka próf þá, ef það væri jákvætt þá myndi það útskýra margt, ef ekki þá myndum við fara upp á spítala. 

Kaupum tvö próf í pakka en fyrra prófið var gallað, týpískt, og þurfti ég að bíða eftir að geta pissað aftur til að geta tekið hitt. Tek hitt prófið og óþolinmóða ég sé eftir nokkrar sekúndur að það er neikvætt, skil prófið eftir inn á baði, fer fram og segi við manninn minn að það er ekkert að marka það. Er að taka það of snemma og er að taka það að kvöldi til. 

Nokkrum mínútum seinna fer ég inn á bað að skoða það betur og sé ljósa línu, hleyp með prófið fram en línan sást ekki þar svo ég dreg manninn minn inn á bað þar sem er betri birta. Ég bjóst við að við myndum hoppa hæð okkar af gleði en í staðin vorum við í sjokki. 

,,Heppnaðist þetta í alvöru?’’

Vorum bæði frekar þögul það sem eftir var kvöldsins og skoða prófið reglulega, ekki að trúa þessu.

Svo tveim dögum seinna, 23.desember, er komið að prófdegi og tók ég digital próf sem er mjög skýrt enda kemur ,,Pregnant’’ eða ,,Not Pregnant’’. Besta tilfinning sem ég hef nokkurn tímann upplifað

Við sögðum fjölskyldu og okkar nánustu vinum nánast um leið, enda vissu þau hvenær við áttum að taka prófið og öll að bíða eftir niðurstöðunum. 

Síðan tóku við næstu vikur þar sem mikil óvissa ríkir, enda allt að 20% líkur á fósturláti eftir jákvætt próf. Fór í snemmsónar á 7.viku hjá Livio og svo aftur á 9.viku, varð rólegri með hverjum tímanum. Þvílíkur léttir að komast í 12vikna sónarinn og mesta hættan liðin hjá. Fór að hágráta í sónarnum og get ég ekki líst gleðinni sem ríkir á heimilinu. Erum ótrúlega spennt fyrir haustinu og komandi hlutverki, enda búin að bíða alltof lengi. 

Instagram -> ingajons

Þér gæti einnig líkað við