Lagskipting fatnaðar í útivist

Með hækkandi sól, þá fara fleiri Íslendingar að huga að því að ferðast. Í ár verða eflaust fleiri sem ferðast innanlands heldur en síðustu ár, hvort sem það er útivist á láglendi, hálendi eða klassískar tjaldútilegur.

Af veru minni að vera í björgunarsveit í 10 ár og vinna í útivistarverslun í um 5 ár, hef ég öðlast reynslu í því að vita hvaða upplýsingar fólki sem er að taka sín fyrstu skref í útivist eða er komið á þann stað að vilja fara lengra vantar að vita meira um. Mér finnst það oftar en ekki vera þekkingin í að velja saman réttan útivistarfatnað fyrir komandi verkefni.

Þegar farið er í útivist þá skiptir sköpum fyrir alla að vera rétt klæddir, hvort sem um ræðir fullorðinn, unglinginn eða barnið. Því ef manni verður kalt er upplifunin aldrei góð!
Vert er að taka það strax fram að bómullarfatnaður er aldrei af hinu góða, þar sem bómull er köld þegar hún blotnar og þornar hægt. Hún á helst að vera skilin eftir heima. Muna að þetta á líka við um venjuleg nærföt.
Almennt er talað um 3 laga kerfið (e. 3 layer system) í klæðnaði en þá er átt við innsta lag, mið lag og ysta lag. Ég ætla aðeins að fara yfir þessa þrjá flokka lauslega, þar sem annars væri þetta efni í nokkur innlegg hér inn, ef ég skrifa allt sem ég kann.

1. lag.
Innsta lagið er eins og nafnið gefur til kynna, það lag sem er næst húðinni. Innsta lag er yfirleitt ullar föðurland eða gerviefna nærfatnaður. Merino ullin er alltaf fyrsta val finnst mér, þó ég hafi einnig reynslu af hinu. En ullin hefur þann eiginleika að halda hita þótt að hún sé blaut.

2. lag.
Mið lagið er það lag sem er mest breytilegt eftir árstíma og veðri hverju sinni. Mið lagið getur til að mynda verið flíspeysa, primaloft jakki, dúnúlpan, vesti eða jafnvel íslenska lopapeysan. Í raun má útfæra allar þessar tegundir sem neðri hlutan líka, en þar er mest notast við flísbuxur eða göngubuxur.
Í kaldari aðstæðum er oft notast við fleiri en eitt mið lag, en þumalputta reglan er sú að betra er að hafa fleiri þynnri lög heldur en eitt þykkt lag. Ástæðan er sú að maður vill geta klætt sig úr þegar þarf og í aftur þegar þarf, til dæmis þegar stoppað er í nestispásum.
Vindheldur eða vindtefjandi fatnaður telst einnig sem milli lags. Þessi fatnaður er betur þekktur undir nöfnunum Windstopper og Softshell alla jafna.

3. lag.
Ysta lagið er vind og vatnsheldur fatnaður. Hérna er spurning að vera með næga vatnsheldni í flíkinni fyrir verkefnið sem er framundan, þar sem jakkar og buxur koma í breiðu úrvali og vatnsheldnin er þá misjöfn. Á íslandi er ágætt að hafa hlífðarfötin meðferðis oftast, þar sem veðrið getur breyst allt í einu úr sólskini í úrhellis rigningu.

Ég sjálf vel mér yfirleitt alltaf ullarföt sem innsta lag ásamt góðum göngusokkum úr ull. Sem mið lag vel ég mér softshell buxur því þær hrinda frá sér dropum og halda vindinum frá ásamt primaloft jakka að ofan eða flíspeysu + dúnvesti ef ég vil frekar tvö þynnri lög. Svo finnst mér gott að hafa softshell jakka líka ef aðstæður eru þannig að ég þurfi ekki að vera í vatnshelda jakkanum mínum þegar lagt er af stað. Ég er voðalega lítið fyrir að nota vatnshelda ysta lagið mitt nema ég nauðsynlega þurfi en er samt sem áður alltaf með það meðferðis ef möguleiki er á rigningu samkvæmt Veðurþáttaspá Veðurstofunnar.
Með þessum klæðnaði vel ég svo skó, bakpoka og annan búnað eftir hvert skal haldið.

Fanndís Embla hefur verið með okkur í útivist frá fæðingu mætti segja og höfum við alltaf passað vel upp á að hún sé líka rétt klædd svo henni líði sem best. Sama hefur svo verið heimfært á Viktor Fannar en hann er til dæmis mun heitfengari en systir sín, svo það þarf að klæða hann aðeins minna.

Vonandi nýtist þessi stutta yfirferð einhverjum.
En tek fram að hún endurspeglar eingöngu mitt persónulega álit og tengist ekkert minni vinnu sem slíkt.

Njótum úti í sumar ?
-Sandra Birna

Þið finnið mig á instagram undir sandrabirna

Þér gæti einnig líkað við