Þegar ég var ólétt af Hlyni Atlasi var ég alltaf að sjá auglýsingu á Facebook um Bleyjulaust uppeldi. Orðið er rosalega fráhrindandi og sá ég fyrir mér barnið mitt pissandi og kúkandi útum allt þangað til hann myndi læra á kopp/klósett, hvenær sem það svo yrði. Ég pældi því ekkert frekar í þessu fyrr en hann var um mánaða gamall, þá sá ég umræðu um „Elimination Communication“ og fór að lesa mig til um það.
Elimination Communication, eða EC til styttingar, byggist í raun á því að þú lærir inn á hvenær barnið þarf að pissa eða kúka. Þú getur séð það á svipnum þeirra eða hvernig þau hegða sér, t.d. að rembast. Það sem heillaði mig svo var það að það er hægt að gera þetta bara að hluta til. Það þarf ekki að vera allt eða ekkert. Það er hægt að gera þetta bara eftir því sem hentar hverjum og einum, eins og að nota bara koppinn/klósettið heima fyrir, bara þegar barnið þarf að kúka, bara á morgnanna og lengi mætti telja.
Þegar Hlynur var milli 2-3 mánaða fórum við Þorfinnur í Ikea og keyptum kopp. Ég var að bugast á því að Hlynur kúkaði upp á bak alla morgna og var ég að þvo kúkanáttgalla alla daga. Hynur Atlas kúkaði fyrst í kopp 14. ágúst 2021, en hann er fæddur 21. maí 2021. Þá var hann ekki farinn að sitja sjálfur og hélt ég á honum á koppnum. Við byrjuðum bara alla morgna að fara úr næturbleyjunni og setjast á kopp og hann kúkaði vanalega á morgnanna. Svona gekk þetta ágætlega þangað til hann fór að borða fasta fæðu.
Þegar hann byrjaði að borða fasta fæðu breyttust hægðirnar hans. Fyrst var hann að kúka sjaldnar og ég tók tímabil þar sem ég einfaldlega nennti ekki að standa í að bjóða honum kopp þar sem ég þekkti ekki lengur „kúka“ merkin hans og gafst smá upp. Það var síðan aftur upp úr 6-7 mánaða sem ég lærði upp á nýtt merkin hans og hann byrjaði að kúka aftur í kopp og gerir enn.
Við ákváðum að fara bara í þetta að hluta til, en Hlynur kúkar bara í kopp og bara hérna heima. Mér finnst þetta einstaklega þæginlegt og Hlyni finnst ótrúlega gaman að sitja á koppnum. Það koma stundum dagar, og stundum alveg nokkrir í röð, þar sem ég missi af öllum hans kúkamerkjum og hann kúkar í bleyjuna, en það er bara í góðu lagi, til þess er hún.
Okkar hugmynd er sú að þetta muni hugsanlega hjálpa til þegar hann er tilbúinn til að hætta með bleyju að þá þekkir hann þetta ferli aðeins. Ef ekki að þá er að minnsta kosti enginn skaði skeður.
Ef þið hafið áhuga að fara að vinna með þetta mæli ég með að skoða þessa síðu hér, en hún hjálpaði mér mjög mikið að komast inn á þetta. Annars er fullt af öðru efni um þetta á netinu líka. Það er hægt að byrja hvenær sem er og eru engin mörk, það er hægt að hliðra þessu til og gera þetta eins og þið viljið. Ef ekki, þá er líka bara í góðu lagi að elsku börnin kúki í bleyjur.
Takk fyrir að lesa!