Ég er rosalega mikið jólabarn og elska allt í kringum jólin. Þegar ég var yngri byrjaði ég í júlí að hlusta á jólalög, foreldrum mínum til mikillar gleði. Með aldrinum hefur það þó seinkað og byrja ég nú yfirleitt ekki fyrr en í nóvember, ásamt að byrja að horfa á allar jólamyndirnar.
Þegar ég var að alast upp voru ákveðnar jólahefðir sem við vorum með, en þegar við fluttum austur á Stöðvarfjörð 2007 urðu smá breytingar þar á. Við fórum alltaf niður í bæ þegar kveikt var á jólatréinu og fórum á hina og þessa viðburði sem voru í boði á Akureyri fyrir jólin. Þeim mun minna var að þeim fyrir austan, en auðvitað var kveikt á jólatréi í litla bænum okkar. Einnig vorum við lengi vel föst í því að hafa hamborgarahrygg á jólunum, og alltaf byrjað að borða klukkan 6 á aðfangadag. Við flutninga breyttist það aðeins. Bæði kynntust mamma og pabbi öðrum mat sem þeim líkaði betur við fyrir jólin og pabbi, ég og bróðir minn höfum öll unnið fyrir Alcoa og urðu nokkur jól sem voru færð framar eða seinkað svo við gætum öll verið saman á jólunum, en ekki á vakt.
Eftir að ég flutti að heiman og sérstaklega eftir að ég flutti suður hefur jólabarnið mitt vaknað á ný. Það þarf varla að koma auglýsing fyrir einhverju Jólaviðburð og ég er mætt. Síðastliðið föstudagskvöld fór ég með Hlyn inn í Hafnarfjörð að horfa á þegar kveikt var á jólatréinu, og ætla svo sannarlega að fara næsta laugardag þegar kveikt verður á tréinu í miðbænum.
Það eru þó jólahefðir sem mér þykir afar vænt um, ekki beint hefðbundnar en alltaf jafn skemmtilegar.
Þegar ég er fyrir austan á jólunum förum við alltaf í skötuveislu til bróður mömmu á Þorláksmessu. Fyrir mér er þetta að hringja inn jólin. Fara og hitta fólk og ættingja sem ég hitti orðið alltof lítið, borða góðan mat og skemmta sér. Ég sjálf borða ekki skötu, en þau hafa alltaf allskonar fisk með, t.d. plokkfisk og saltfisk.
Setja upp jólatréið saman. Við gerðum það alltaf á Þorláksmessu, en mömmu fannst tréið mætti vera lengur uppi, svo hún er farin að setja það fyr upp. Ég skil hana vel, svo það truflaði mig ekkert, þar sem hún beið alltaf eftir því að ég kæmi heim til að leyfa mér að skreyta með sér. Jafnvel þrátt fyrir að við erum enganvegin sammála um hvernig á að skreyta tréið, þá er það að skreyta tréið með fjölskyldunni mjög skemmtileg hefð. Með jólalög, eða jafnvel jólamynd í bakgrunni.
Hrein rúmföt á jólunum. Þegar ég var yngri var það alltaf það fyrsta sem við gerðum á aðfangadag var að skipta um rúmföt. Í dag gerum við það annað hvort á þorláksmessu eða á aðfangadag, bara eftir dagskrá og því sem á eftir að gera í kringum jólin. Það er ekkert betra en að vera í nýjum rúmfötum á jólunum. Ef við setjum nýtt á rúmin á þorláksmessu, þá er mikilvægt að fara í sturtu eftir skötuveisluna, svo rúmfötin lykti ekki af skötu.
Góður matur. Við vorum alltaf með hamborgarahrygg á jólunum, og eins góður og hann er þá er hann þungur og leiðinlegur í maga. Í gegnum árin höfum við fjölskyldan prófað ýmislegt nýtt og í dag er yfirleitt andabringur eða hreindýr í matinn á jólunum hjá mömmu og pabba. Við erum þó alltaf til í að breyta til og hafa það eins og okkur hentar. Í fyrra var ég hjá tengdafjölskyldunni á jólunum í fyrsta skipti og þeirra hefð er að hafa alltaf rækjukokteil í forrétt, enda skil ég það vel, tengdamamma gerir mjög góðan rækjukokteil. Ég hlakka til að fara að búa til okkar eigin matarhefðir í kringum jólin, þegar við förum sjálf að halda jól.
Við höfum lang oftast haft einfaldan eftirrétt á jólunum, ís og marssósa. Ég fæ mér alltaf smá, en leyfi svo sósunni að kólna alveg niður og þykkjast vel upp. Nokkrum tímum seinna fæ ég mér svo mandarínur með marssósu, og hefur það orðið af svolítið hefð bara hjá mér einni á jólunum.
Á jóladag er kósý dagur. Það er ekkert planað, pabbi sýður hangikjöt og með því en annars eru flestir bara í náttfötunum og horfum á jólamyndir. Þegar ég var yngri fékk ég yfirleitt alltaf amk. eina bók í jólagjöf og fór þessi dagur yfirleitt í að lesa allan daginn.
Á öðrum í jólum er svo afgangadagur hjá mömmu og pabba. Þá koma amma og afi og systkini mömmu og börn og barnabörn með jólamatarafgangana og við borðum saman. Oft endum við á því að spila eitthvað skemmtilegt saman líka. Ein frænka mætir líka oftast með thailenskan mat, og er hann yfirleitt vinsælastur þar sem fólk er komið með nóg af þungu kjöti í magann.
Síðast, en alls ekki síðst, eru litlu jólin hjá okkur Þorfinni. Fyrstu 3 árin okkar saman eyddum við jólunum okkar hjá okkar eigin fjölskyldum. Það þýddi að ég fór austur á Stöðvarfjörð og hann var hérna í bænum. Okkur fannst þó eitthvað ekkert spennandi við það að opna gjafirnar svona í sitthvoru lagi, sérstaklega frá hvort öðru. Svo áður en ég fór austur héldum við okkar eigin litlu jól. Þótt að sú hefð muni ekki endilega haldast lengur, þar sem við höldum jólin saman eftir að Hlynur fæddist, þá þykir mér mjög vænt um þessi litlu jól sem við áttum saman.
Það er svo margt fleira sem ég elska í kringum jólin, smákökurnar, jólaföndrið, skrautið, ljósin, ilmurinn af grenitrjám o.fl. Nú er Hlynur orðinn 18 mánaða og farinn að skilja mun meira en fyrir jólin í fyrra og hefur meira gaman af því að fara eitthvað jólatengt með okkur foreldrunum. Mig hlakkar svo til að gera meira úr jólunum sem fjölskylda og að geta gert þau að okkar eigin, búa til okkar eigin hefðir.
Takk fyrir lesninguna!