Það er ekkert erfiðara en að gefa fólki gjafir sem á allt. Sérstaklega ef það hefur svo engar hugmyndir um hvað það vill. Því langaði mig að koma með hugmyndir af nokkrum gjöfum sem gætu kannski hentað að gefa þeim sem allt eiga.
Gjafabréf í upplifun eða mat. Þetta getur t.d. verið frábær gjöf að gefa mömmu og pabba sem gera sjaldan eitthvað saman. Hægt er að finna allskonar gjafabréf t.d. hjá Óskaskrín, Hópkaup, Aha.is og svo á öllum veitingarstöðum, hótelum, nuddstofum o.fl. Í eitt skipti gáfum við foreldrum mínum gjafabréf í flug. Þá höfðu þau ekki farið erlendis saman tvö síðan ég var bara barn, en eftir það hafa þau verið dugleg að fara aðeins út fyrir landsteinana.
Dagatal fyrir árið með myndir af börnunum. Þetta er klassísk gjöf fyrir ömmur og afa. Gaman að taka saman myndir af öllum barnabörnunum og gefa í jólagjöf dagatal með myndum fyrir árið sem er að byrja.
Heimatilbúnar gjafir. T.d. heklaðar tuskur, heimagerð kerti, heimagerðir kertastjakar og margt fleira. Mæli hiklaust með að skoða pinterest fyrir fleiri hugmyndir. Eitt árið skellti ég í heimagerða klukku fyrir mömmu og pabba. Það er enn uppáhalds jólagjöfin sem ég hef nokkurntímann gefið þeim. Myndin hér að neðan er af klukkunni góðu, mamma fékk hlutverk ljósmyndara í þetta skipti þar sem hún býr of langt í burtu.
Gjöf sem gefur áfram. Mér finnst alltaf eitthvað fallegt við það að styrkja eitthvað fallegt og verðugt málefni sem jólagjöf. T.d. er hægt að skoða Sannar gjafir hjá UNICEF. Einnig er hægt að gefa styrki, gjafir eða jafnvel mat til t.d. mæðrastyrkstnefndar, konukots eða fleiri staða hérna heima sem myndu klárlega nýta góðs af styrkjum yfir hátíðarnar.
Gjafabréf í óvissudag saman. Ég sá þetta um daginn á netinu og fannst þetta frábær hugmynd. Bæði fyrir börn og fullorðna. Talað var um að best væri að geta ákveðið dag fyrirfram, hvenær sem er á árinu og þessvegan verið byrjuð að plana. Þarf ekki að vera merkilegt, en getur verið öðruvísi og skemmtileg gjöf.
Mér finnst skemmtilegast að gefa gjafir sem nýtast og finnst leiðinlegt að gefa eitthvað sem ég veit að er kannski óþarfi eða vantar ekki á heimilið. Auðvitað er alltaf frábært að biðja um óskalista, en ekki allir sem vita hvað þeir vilja, eða vilja jafnvel ekkert. Þá er gaman að koma fólki smá á óvart með persónulegum gjöfum.
Takk fyrir lesninguna!