Ég eins og svo margir elska desember. Stór ástæða fyrir því eru samverustundir fjölskyldunnar saman að gera mismunandi hluti, hjá okkur hefur bakstur verið ein þeirra.
Þetta þarf alls ekki að vera flókið, ég vil alhæfa að allir geti bakað! Sumir gera það frá grunni en í dag er mjög vinsælt að baka tilbúið deig, svo það þarf ekki mikið til.
Lakkrístoppar hafa ætíð verið mitt helsta uppáhald og áhugamál fyrir jólin. Hefur þú prófað að skipta lakkrískurlinu út fyrir hinar ýmsu sortir af nammi?
Ég fer ná nákvæmlega eftir klassísku lakkrístoppa uppskrift nema í staðinn fyrir 150 gr lakkrískurl þá set ég 150 gr af til dæmis Daim, karamellum, piparperlum og þristum ásamt 150 gr af suðusúkkulaðinu.
Uppskriftin
3 stk eggjahvítur
200 gr púðursykur
150 gr suðusúkkulaði
150 gr lakkrískurl
Listinn af tilraunum sem ég hef ekki prófað enn þá er langur. Meðal annars á honum er Bismark brjóstsykur, fílla karamellur, Mars og Rolo bita.
En eitt tips ef þú átt það til að þeir heppnist ekki er að þeyta fyrst eggjahvíturnar og bæta svo púðursykrinum út í, í litlum skömmtum eins og ég las hjá Lindu Ben fyrir einhverju síðan. Segja má að þeir hafi ekki klikkað hjá mér né öðrum sem ég hef bent á þetta síðan. – sjá aðferðina hennar hér.
Annað sem við bökum hér heima er súkkulaðibitakökur, vanilluhringir og engiferkökur en hér er alveg prófað í desember allskonar tilbúið deig líka.
Í fyrra bakaði ég svo í fyrsta skipti alveg sjálf brúna lagköku. Ég hafði alveg síðan ég flutti að heiman langað að baka hana sjálf en miklaði það svo mikið fyrir mér, þar sem ég hélt það væri svo flókið. En það er hún alls ekki- svona ef einhver er í sömu sporum og ég þar.
Eina sem ég get sagt, er að hræra í deigið og baka lagkökuna er tímafrekt verkefni en hægt er að geyma kökuna yfir nótt og setja kremið á milli daginn eftir, ef það hentar betur.
Það kemur allt í ljós hvað verður bakað meira í desember hérna heima hjá okkur. En ég þarf að prufa mig áfram með bakaraofninn í nýju íbúðinni okkar, þar sem hann er eldri en sá sem við vorum með áður. Sumt hefur bakast en betur á meðan annað hefur misheppnast í fyrstu tilraun.
Munið umfram allt að njóta í desember, því þetta er tími fjölskyldunnar.
Þið finnið mig á instagram undir sandrabirna –
Þar til næst ♡
-Sandra Birna