Innlit í herbergið hennar Ísabellu Ölbu

Við fjölskyldan fluttum í nýja húsið okkar í ágúst og fyrsta mál á dagskrá var að koma barnaherbergjunum í stand. Mér finnst alveg ótrúlega skemmtilegt að dúlla mér í herbergjum krakkana og sérstaklega í herbergi prinsessunar á heimilinu. Þemað í herberginu er fallegir jarðlitir, mikið af bleiku auðvitað en ég vildi hafa ró yfir herberginu og ákvað þess vegna að fara í hlýja liti og hvít tímalaus húsgögn. Liturinn á veggnum heitir Anna’s Closet og er hinn fullkomni hlýji brún/bleiktóna litur.

   

Við mæðgur verslum mikið í Von verslun og er mikið úr Ísabellu herbergi úr þeirri verslun, bæði skrautmunir og leikföng. Ísabella leikur mikið með dúkkur og er dúkkurúmið frá Von verslun í miklu uppáhaldi. Mér fannst líka alveg nauðsynlegt að kaupa himnasæng í herbergið en það gerir bara allt svo kósý, hún er líka frá Von verslun. Rúmið, mottan & leikfangahillan eru úr Ikea. Mér finnst líka mjög skemmtilegt að nota persónulega muni í barnaherbergin og í vegghillunni má til dæmis sjá fyrstu skóna hennar Ísabellu, skírnarkertið hennar, kókflösku með nafninu hennar úr skírninni og litlu bangsastyttuna sem var kökutoppurinn á skírnartertunni.

 

Bókahillurnar hjá rúminu pantaði ég hjá babyshop og eru þær frá merkinu Jox. Við vildum að Ísabella væri með gott aðgengi í bækurnar sínar og settum hillurnar í hennar hæð. Leikeldhúsið er úr Ikea,  myndirnar á veggnum frá Etsy og veggteppið og kisan eru frá h&m home.
Húshillan er frá Von verslun og við elskum hana, mér finnst svo gott að hún sjái öll leikföngin sín og svo er hægt að nýta hilluna sem dúkkuhús í framtíðinni. Ég á svo eftir að kaupa litlar körfur eða geymslukassa í hilluna undir allt smádótið hennar. Við erum alveg ótrúleg ánægð með útkomuna á herberginu og litla konan í skýjunum sem er auðvitað mikilvægast af öllu.

 

Takk fyrir að lesa, þangað til næst xx

This error message is only visible to WordPress admins
There has been a problem with your Instagram Feed.
Error: No posts found.

Þér gæti einnig líkað við