Hvernig getur þú komið hreyfingu inn í rútínuna þína?

Núna þegar nýtt ár er gengið í garð þá heyrir maður mikið á fólki að það sé að reyna að koma sér í gang í hreyfingu og ætli að hugsa betur um heilsuna á nýju ári. Sem er að mínu mati ekkert nema gott og blessað, nýtt ár er fínn tími til að byrja á að temja sér nýjar venjur og hafa sem einhverskonar vendipunkt, fyrir þá sem það hentar. 

En það eru rosalega margir sem ætla sér of mikið, of fljótt. Setja sér of mörg markmið sem eru kannski algjörlega óraunhæf út frá núverandi stöðu fólks. Mig langar að koma með nokkra punkta sem gætu hjálpað fólki að koma hreyfingu að í daglegu rútínunni sinni. En ég sjálf stunda mikla hreyfingu, þrátt fyrir að vera í 100% vinnu, vera í tveimur aukavinnu, vera að blogga, vera með hlaðvarp, eiga kærasta og ýmislegt fleira. En ég VEL að búa til tíma fyrir hreyfingu, því fyrir mér og mína líðan skiptir það öllu máli. Þetta snýst allt bara um skipulag og forgangsröðun. Það geta allir hreyft sig, en það þarf að setja sér markmið varðandi hreyfinguna, til þess að hún lendi ekki alltaf á hakanum, eins og virðist gerast hjá alltof mörgum. 

Samkvæmt lýðheilsustofnun þá bætir það lífsgæði okkar til muna að hreyfa okkur í að minnsta kosti 30 mínútur á dag. Það þarf enginn að segja mér að það sé ekki hægt að finna 30 mínútur á dag til að hreyfa sig. Hvað eru þættir á netflix til dæmis yfirleitt langir? 

Ég myndi fyrst og fremst byrja á því að skoða hvað þú ert að gera í dag. Ef þú ert til dæmis ekki að hreyfa þig neitt í dag, þá er ansi ólíklegt að þú getir farið í það að hreyfa þig fimm til sex sinnum í viku einn tveir og bingó. Kannski myndir þú endast í einhvern smá tíma, en varla lengi. Þarna erum við að tala um of stórt stökk. Úr engu í allt. Ég myndi alltaf byrja í minni skrefum og bæta svo við ofan á það þegar þú ert búin/n að ná tökum á þeirri rútínu. Til dæmis; ef þú settir þér markmið um að hreyfa þig þrisvar í viku, en lokamarkmið væri að gera það fimm sinnum í viku, þá gætiru tímasett markmiðin. Þannig að þegar þú ert búin/n að ná að standa við að hreyfa þig þrisvar í viku í tvo mánuði, þá getur þú aukið það í fjórum sinnum í viku og ef þú nærð að halda því í tvo mánuði í viðbót, þá ferðu upp í fimm sinnum í viku, og svo framvegis. En svo myndir þú kannski finna að fjórum sinnum í viku væri alveg nóg fyrir þig, og þá er það líka bara allt í lagi. Maður þarf að finna hvað hentar sér og sínum lífsstíl, eitthvað sem maður getur haldið út alla ævi, ekki bara í einhvern smá tíma. 

Svo má maður heldur ekki gleyma því að öll hreyfing er góð hreyfing. Hreyfing þarf ekki alltaf að vera klukkutíma brútal æfing. Hreyfing getur verið göngutúr með podcast í eyrunum, smá skokk út í náttúrunni, fjallganga, heimaæfing sem þú getur til dæmis fundið á youtube, jóga- og teygjuæfingar eða bara hvað sem er, listinn gæti verið endalaus. Mig langar að benda ykkur á færslu sem ég skrifaði í byrjun kórónu faraldsins HÉR um hvernig ég peppaði mig í gang fyrir heimaæfingarnar, hún getur sko klárlega einnig komið að góðum notum til að peppa sig í gang fyrir hvaða hreyfingu sem er í rauninni. 

Með þessum pistli langar mig til að hvetja alla til að setja hreyfingu í forgang, búa til pláss í rútínunni sinni til að hreyfa sig. Það er svo ótrúlega gott fyrir líkama og sál og mikið mikilvægara heldur en margur gerir sér grein fyrir. Setjið ykkur markmið um hreyfingu og útbúið svo skipulag um hvernig þið ætlið að ná markmiðunum. Ég geri þetta mjög mikið sjálf og ætla að reyna að vera duglegri á instagramminu mínu að sýna frá því, vonandi myndi það hafa peppandi áhrif á einhverja til að koma sér af stað. 

Takk fyrir að lesa 

Þér gæti einnig líkað við