Hvað er á prjónunum?

Mér finnst mjög gaman að vita hvað aðrir eru að prjóna og það gefur mér líka oft hugmyndir hvað ég get prjónað næst. Mig langar því að deila með ykkur hvað ég er með á prjónunum þessa stundina. Ég er alltaf með fleiri en eitt verkefni sem ég get þá skipst á að vinna í. Fæ stundum leið á því sem ég er að gera ef ég er lengi með sama verkefnið. Svo eru sum verkefni sem taka bara lengri tíma en önnur, enda jafnvel ofan í skúffu með öðrum ókláruðum verkefnum en við skulum ekkert ræða það neitt meira. Sum hafa verið þar mjög lengi og kem ég mér bara ekki í að klára þau. 

 

Þessa dagana er ég aðallega að vinna í einu verkefni en það er Hraun sett á Tristan eftir Ömmu Loppu. Ég byrjaði á buxunum og er alveg að verða búin með báðar skálmarnar. Reikna með að klára þær á næstu dögum og ætla þá að fitja upp á peysunni í settinu. Ég er að prjóna þetta úr Pernilla frá Filcolana. Þetta er í fyrsta skiptið sem ég prjóna úr þessu garni og finnst það lofa góðu. Mjög drjúgt en ein dokka dugði nánast í báðar skálmarnar í stærð 1 árs. 

 

Ég setti mér markmið í upphafi árs að byrja snemma á þeim jólagjöfum sem mig langar að prjóna. Ég enda yfirleitt á því að vera að stressprjóna korter í jól til að klára jólagjafirnar sem ég ætla að búa til sjálf en langar til að breyta því. Ég ákvað því að byrja strax í janúar á fyrstu jólagjöfinni en það er Smára vesti eftir Ömmu Loppu sem lítill vinur fær í jólagjöf í ár. Gott að hafa einfalt verkefni til að grípa í inn á milli. Ég er að prjóna það úr Lerki frá Dale garn.

 

Þetta teppi er svona langtíma verkefni en ég tek það yfirleitt með mér á fundi eða þegar við erum að keyra eitthvað langt, þá er gott að grípa í það. Það er mjög einfalt en mjög fallegt. Verður gaman þegar það klárast loksins! Uppskriftin er út bókinni Klompelompe: Strikk til baby, barn og voksen og heitir Koseteppe og prjónað úr Merino ull frá Sandnes Garn.

 

Þessi peysa er svo falleg! Bambi eftir Ömmu Loppu. Ég prjónaði eina svona peysu á Tristan þegar hann var pínu lítill og notaði hann hana mjög mikið. Ég ákvað að gera aðra en hún var ekki alveg nógu stór. Hún fór þá eiginlega bara ofan í skúffu og hefur verið ósnert þar síðan en ég er alveg að fara að taka hana upp og klára svo hún geti farið í gjafaskúffuna og beðið eftir nýjum eiganda. Peysan er prjónuð úr Babyull Lanett frá Sandnes Garn.

 

Þér gæti einnig líkað við