Er til eitthvað meira kósý en að skella sér í sumarbústað yfir helgi og kúpla sig aðeins út? Ég og Svenni fórum fyrstu helgina í nóvember í Húsafell, í bústað sem við leigðum í gegnum VR. Bústaðurinn er staðsettur í Stórarjóðri, sem er alveg rétt hjá Hótel Húsafelli og er varla hægt að fá betri staðsetningu á svæðinu. Okkur leið eins og við værum bara ein í heiminum þegar við vorum í bústaðnum, en svo vorum við ekki nema um 5 mínútur að labba í búðina, til dæmis.
Það er ekki nema rétt rúmlega klukkutíma akstur frá Akranesi upp í Húsafell, þannig að þessi staðsetning hentar fullkomlega fyrir svona weekend getaway. Bústaðurinn var í fullkominni stærð, stór pallur, heitur pottur, gasgrill og í raun allt sem maður gat óskað sér á staðnum. Nema snjallsjónvarp. En við vorum svo sniðug að taka með okkur ipad, svo við horfðum á Netflix í honum, upp í sófa með sængur, nammi og gos. Við fórum held ég alveg fjórum sinnum í pottinn yfir helgina, og vorum alltaf alveg um tvo tíma í hvert skipti. Hann var bara eitthvað svo fullkominn, og við erum bæði alltaf með vöðvabólgu, þannig að það var svo kærkomið að liggja bara í pottinum og slaka á. Við fengum svo geggjað veður líka alla helgina, það var alveg magnað að fara í pottinn á kvöldin þegar var komið myrkur, það var svo stjörnu bjart og fallegt.
Við tókum einnig með okkur æfingateygjur, dýnu og ketilbjöllur og gerðum heimaæfingar bæði á laugardag og sunnudag. Eftir laugardagsæfinguna tókum við svo líka um 3 km rólegt skokk um svæðið sem var alveg meiriháttar. Á sunnudeginum ákváðum við svo að taka góðan göngutúr um svæðið, og röltum við rúmlega 6 km. Húsafell er mjög fallegt svæði, svo mikið að sjá og ótrúlega fjölbreytilegt umhverfi. Við gengum um í mosa, á sandi, í grjóti, yfir flugvöll, yfir á og á grasi, svo eitthvað sé nefnt.
Þessi helgi var svo yndisleg og ég mæli eindregið með því að taka sér einstaka sinnum svona helgi til að kúpla sig aðeins út, slaka á og njóta. Ætla að deila með ykkur nokkrum myndum frá helginni svo þið sjáið hvað þetta var kósý hjá okkur.
Takk fyrir að lesa