Hef ekki alltaf verið þessi heilbrigða manneskja sem ég er í dag

Þegar ég var unglingur var ég mjög grönn að eðlisfari og átti mjög erfitt með að þyngjast eða fitna. Ég hugsaði ekkert um hvað fór ofan í mig yfir daginn og nennti alls ekki að æfa einhverja íþrótt þar sem mér fannst það bara leiðinlegt og hafði engan áhuga á því.
Vinkonur mínar áttu það til að furða sig á því hvernig ég gæti lifað á samlokum með skinku og osti í hádegismat og ostaslaufum og kókómjólk eftir skóla og bæta aldrei grammi á mig en þær voru flestar að æfa einhverja íþrótt og hugsuðu meira út í mataræði á þessum tíma.

Árið 2010 hitti ég Hörð, þá var ég sextán ára gömul. Við vorum mjög hrifin af því að hafa kósýkvöld þar sem við keyptum okkur Paprikustjörnur (snakkið), Vogaídýfu, kúlusúkk og gos. Þessi kvöld voru mörg í viku og við áttum auðvelt með að klára þetta saman.

Á þessum tíma hafði ég engan áhuga á hreyfingu en Hörður mætti reglulega í ræktina að lyfta.
Ég fór allt í einu að bæta á mig og var farin að þyngjast töluvert. Ég var ekki lengur þessi litla, fíngerða unglingsstelpa sem gat borðað hvað sem er, heldur fór ég að sjá mun á mér í fyrsta skiptið.

Eftir að Hörður var búinn að reyna í töluverðan tíma að fá mig með sér á æfingu samþykkti ég að koma með en ég vildi alls ekki koma nálægt þessum lóðum. Þessi tími einkenndist af brennslutækjum þar sem ég dundaði mér á skíðatækinu í smá tíma og fór síðan heim og hélt að allt myndi breytast.
Ég var ekkert að hugsa út í mataræðið mitt í fyrstu heldur var ég einungis að einblína á brennsluæfingar.

Hörður hélt áfram að reyna að sannfæra mig um að það væri ekki nóg að gera bara brennsluæfingar ef ég vildi sjá árangur og að lokum fékk hann mig til að samþykkja að prófa fjarþjálfun.
Ég fór að lyfta nokkrum sinnum í viku og svo var ég dugleg að mæta í spinning tíma því mér fannst þeir mjög skemmtilegir. Þjálfarinn sem ég var með að þessum tíma hjálpaði mér einnig með mataræðið og fór ég í fyrsta skipti að hugsa aðeins út í hvað ég var að borða yfir daginn. Það var á þessum tíma sem ég fór loksins að sjá einhvern mun á mér og bætingar.

Árið 2016 tók ég þá ákvörðun að mig langaði að keppa í fitness. Mig hafði lengi langað að gera það en hafði enga trú á því að ég gæti komist í þetta form sem þær eru í á keppnisdegi. Ég heyrði í honum Konna hjá Iceland fitness og hann sagðist geta hjálpað mér að ná þessu markmiði mínu.

Ég fór þá að lyfta sex sinnum í viku og taka brennsluæfingar með því. Einnig fór ég að borða eftir matarprógrami sem hann gaf mér. Hér fór ég í fyrsta skipti að sjá alvöru bætingar hjá mér! Ég var bæði farin að æfa meira og borða mjög hollt alla daga. Í þessu niðurskurðarferli fékk ég rosalegan áhuga á hreyfingu og mataræði.

Mér fór að finnast gaman að pæla í öllu sem var á bakvið þetta, hvaða æfingar styrkja hvaða vöðva og hvernig maður getur fylgst með mataræðinu sínu og haldið því góðu. Ég fór allt í einu að finna rosalegt motivation og langaði að mæta á æfingar helst alla daga og fann hvað mér leið ótrúlega vel þegar ég borðaði hollt. Vinstri myndin hér fyrir neðan er síðan 2016, þegar ég ákvað að keppa í fitness og hægri myndin er ég í dag.

Síðan 2016 hef ég haldið mér í þessari rútínu. Ég elska að hreyfa mig og ég elska að hafa þetta fjölbreytt! Ég fór að finna smá leiða á að vera í ræktinni og lyfta eftir lyftingarprógrami í lok 2018.

Hörður var þá byrjaður að æfa crossfit aftur og hafði verið að reyna að draga mig með sér í svolítinn tíma. Í byrjun 2019 ákvað ég að gefa crossfit séns! Ég hoppaði beint í djúpu laugina og byrjaði að mæta í tíma með Hödda og sá hvað þetta er fjölbreytt, skemmtilegt og rosalega krefjandi. Því fleiri æfingar sem ég mætti á því meira heillaði þetta mig. Það sem ég elska mest við þetta er að ég get farið á æfingar með Hödda og gert nákvæmlega sömu æfingar og hann nema ég nota léttari þyngdir. Þar sem þetta eru hóptímar þá er alltaf svo mikil stemning við það að allir séu að gera sömu æfingarnar og keppast við að gera sitt besta í hvert skipti!

Ég vil þó ekki leggja lyftingarnar á hliðina þar sem ég elska líka að taka góðar lyftingaræfingar, með heyrnatól í eyrunum og detta algjörlega inn í minn heim!

Ég hreyfi mig eitthvað alla daga og er misjafnt hversu mikið eftir því hvernig orkan er og hvað ég nenni að gera. Í dag er ég með markmið að mæta í crossfit eða lyftingar sex sinnum í viku. Ég vil mæta á morgunæfingar helst alla virka daga áður en ég fer í vinnu og taka smá brennsluæfingar til að halda bakinu mínu góðu (er bakveik). Þar sem ég er að æfa mig fyrir Wow cyclothon sem er nú í júní þá hef ég verið að skipta morgunbrennslunni út fyrir það að hjóla stundum í og úr vinnu þegar ég get. Einnig hef ég verið að bæta við æfingarnar mínar lengri hjólaferðir til að æfa mig. Ég veit að sumum finnst þetta klikkun hjá mér en ég gjörsamlega elska þetta! Auðvitað hlusta ég á líkamann og ég tek hvíldardaga þegar ég finn að líkaminn þarf að hvíla, það er mjög mikilvægt.

 

Ég borða hollt alla daga en leyfi mér meira einn dag í viku, á svokölluðum nammidegi. Ég fann það hvað það gerði mikið fyrir mig að borða hollt og hvað það gefur mér mikla orku og því hef ég haldið mataræðinu mínu rosalega góðu eftir að ég byrjaði að keppa í fitness 2016.

Eins og sést í þessari grein þá fór ég frá því að hafa engan áhuga á hreyfingu og mataræði í það að ELSKA það gjörsamlega að hreyfa mig og huga að mataræðinu mínu. Það er margt sem getur breyst með árunum og hugarfarið getur komið manni svo langt! Galdurinn við þetta allt er að finna þá hreyfingu sem þér finnst gaman í. Það er svo margt skemmtilegt í boði og ég hef fulla trú á því að allir geti fundið sér eitthvað sem heillar. Ef þér finnst ekki gaman að mæta á æfingar þá ert þú líklega ekki að gera það sem hentar best fyrir þig. Ég mæli með að prófa eitthvað nýtt, þangað til þú finnur þá hreyfingu sem þér finnst það skemmtileg að þig hlakki til að mæta á næstu æfingu.

Segjum þetta gott í bili,

Þið getið fylgst með mér á Instagram ef ykkur vantar smá motivation!
Ása Hulda

Þér gæti einnig líkað við