Heimagerð fataslá í barnaherbergið

Eins og margir vita þá eigum ég og Hörður von á lítilli prinsessu í júlí. Þar sem við höfum beðið lengi eftir að þessi draumur okkar rættist þá gátum við ekki beðið lengi með að hefja hreiðurgerðina og undirbúa allt fyrir litla kraftaverkið okkar, spennan er bara of mikil!

Við erum búin að kaupa öll húsgögnin í herbergið en eigum eftir að fínpússa herbergið og kaupa fallega skrautmuni til að hafa þar inni (mun sýna ykkur herbergið þegar það er klárt). Við erum byrjuð að kaupa föt fyrir prinsessuna okkar og höfum einnig fengið helling í gjöf frá foreldrum okkar og systkinum. Flest fötin geymum við í kommóðu en kjólana langaði mig að geyma öðruvísi, á fallegri fataslá.

Við fengum strax eina hugmynd í hugann sem okkur langaði að kaupa en fundum hvergi nákvæmlega það sem okkur langaði í. Okkur langaði að kaupa fallega hillu sem væri með hangandi fataslá niður úr.
Þar sem við fundum hvergi hilluna þá ákváðum við að búa til okkar eigin!
Það sem þarf: falleg hilla, krókar, reipi, kústskaft og málning.
Hilluna fengum við í Tekk og Habitat. Reipi og kústskaft keyptum við í Bauhaus og krókana í Ikea.

Skref 1: lengd hillunnar var mæld og kústskaftið var sagað í sömu lengd
Skref 2: endarnir á kústskaftinu voru pússaðir og gerð voru 2 göt í gegnum skaftið (sem reipið þarf að komast í gegnum)
Skref 3: kústskaftið var síðan málað hvítt og leyft að þorna. Við notuðum hvítan grunn sem við áttum til heima.

Skref 4: 2 krókar skrúfaðir í hilluna

Skref 5: festum reipi í báða krókana. Höddi gerði hnút sem hann herti síðan mjög vel

Skref 6: reipinu komið í gegnum götin á kústskaftinu og gerður hnútur þar undir. Við settum svo lím í alla hnútana svo þetta haldist betur

Þetta tók okkur ekki langan tíma og kostaði okkur ekki mikið. Við áttum hilluna og krókana fyrir en restina keyptum við í Bauhaus.

Ef þið viljið fylgjast með hreiðurgerðinni hjá okkur hjónunum þá er ég dugleg að sýna frá undirbúningnum á Instagram hjá mér.
Þangað til næst!

Þér gæti einnig líkað við