Ég fór til Edinborgar um daginn, við fórum út fimmtudaginn 12.janúar og komum aftur heim á sunnudeginum 15.janúar.
Ég lagðist yfir Pinterest og bloggsíður til að lesa mig til um hvað væri must að gera í Edinborg og var ég búin að útbúa nokkurs konar dagskrá fyrir alla dagana. Þá ákvað ég einnig að spyrja fylgjendur mína á instagram, sem og fylgjendur Lady, um þeirra meðmæli varðandi Edinborg og þá fékk ég enn fleiri hugmyndir. Þá var mér til dæmis ráðlagt að panta allt fyrirfram, bæði skoðanir og veitingastaði. Þannig að viku fyrir ferðina þá renndum við yfir öll veitingastaða meðmælin sem við fengum, skoðuðum matseðlana á netinu og lásum reviews. Út frá því ákváðum við veitingastaði fyrir kvöldin þrjú og einn brunch stað. Svo pöntuðum við skoðunarferð um Edinborgar kastalann, í Sjónhverfinga safninu, Draugahúsinu og drykki á svona kampavíns-lounge. Þessu öllu röðuðum við niður á dagana, í dagskránna sem ég var búin að búa til og þetta smellpassaði allt svo vel.
Fimmtudagur:
Við flugum út á fimmtudagsmorgni kl 10:30 og lentum í Edinborg rétt fyrir kl 13:00. Við tókum leigubíl á hótelið okkar, sem tók hálftíma og kostaði um 23 pund. Þar sem við gátum ekki tékkað okkur inn á hótelið fyrr en kl 15 þá fengum við að geyma töskurnar okkar hjá þeim á meðan við fórum út. Við áttum pantað í kastalann kl 15 og svo í Sjónhverfinga Safnið (Camera Obscura) kl 17. Þessir staðir eru alveg hlið við hlið, í sirka 15 mínútna göngufæri frá hótelinu okkar. Við vorum með smá áhyggjur að því að þetta yrði smá stress, en það var aldeilis ekki raunin. Við höfðum nægan tíma til að ganga um og skoða allt svæðið og náðum einnig að labba niður að “Vennel view point” þar sem maður fær einstaklega flott útsýni yfir kastalann fyrir myndatökur. Mér fannst eiginlega skemmtilegra að skoða kastalann utan frá heldur en innan í. Ég var búin að lesa svo mikið um hvað það væri gaman að fara inn á kastalasvæðið, en svo fannst mér það bara ekkert rosalegt. En fallegur er hann. Camera Obscura var svo ótrúlega gaman að fara í. Þetta er svona safn með allskonar sjónhverfinga hlutum og svo í lokin er smá sýning á toppnum. Mæli klárlega með! Svo fórum við upp á hótel til að tékka okkur inn. Við gistum á hóteli sem heitir Holyrood Aparthotel og er staðsett eiginlega alveg við endann á Royal Mile. Hótelið var mjög fínt og staðsetningin fullkomin. Vorum hálfpartinn í íbúð, en við vorum með gang, baðherbergi, svefnherbergi og eldhús. Um kvöldið fórum við svo út að borða á kínverskum veitingastað sem heitir “Karen´s unicorn”. Þessi staður var smá út úr og sá eini sem við þurftum að hringja í til að panta borð, en það var vel þess virði. Maturinn var svooo góður.
Föstudagur:
Vöknuðum um 8 leytið og fórum út í smá skokk og “fjallgöngu” upp að Arthur´s seat og Crow Hill. Alls ekki erfið fjallganga og mjög fallegt útsýni yfir borgina á toppnum. Svo vorum við mætt kl 12:30 á veitingastað sem heitir Leila í brunch. Þetta er BLEIKUR veitingastaður og var mjög gaman að koma þarna. Eftir það áttum við pantaðan tíma í Edinborg dungeon kl 14:00. Það var svo ótrúlega gaman! Það má ekki taka neinar myndir þar, en þetta er í raun bara sýning þar sem er gengið á milli herbergja, leikarar segja draugasögur og svo er verið að bregða manni og reynt að gera allt frekar ógeðslegt og svona. Veit ekki hvernig ég get útskýrt það betur. Enduðum svo á pínulitlum fallturni, sem ég lét vaða í þrátt fyrir lofthræðsluna mína. En þegar ég fór í Berlin dungeon þá fór ég ekki í fallturninn, svo mig langaði að ögra mér soldið núna og prófa. Og ég sé ekki eftir því, þetta var svo stutt og ekkert mál, var bara hrædd í sekúndubrot! Restina af deginum nýttum við í að labba um og skoðuðum meðal annars Princess street, Princess garden, Victoria street, St. Giles og Deans village . Við fórum svo upp á hótel að skipta um föt og gera okkur til fyrir kvöldmat, en við áttum pantað borð kl 20 á mexíkóskum veitingastað sem heitir Mariachi. Geggjaður matur sem stóðst klárlega væntingar og rúmlega það.
Laugardagur:
Vöknuðum um 8 leytið og fórum í smá skokk að Calton Hill þar sem eru fullt af allskonar minnisvörðum, sem var mjög gaman að skoða. Fórum svo í hádegismat á Five guys sem er í verslunarmiðstöðinni við endann á Princess street. Five guys er bresk hamborgarakeðja, hamborgarar sem klikka aldrei! Við gengum svo Princess street aftur og nýttum þennan dag soldið í að versla og kíktum í fullt af búðum, til dæmis Primark, Levi’s, Dr. Martens, Stradivarius, Next, Superdrug, Boost og fleiri. Um kvöldið áttum við pantað í drykki á Nor Loft kl 20 og svo í mat á The Witchery by the castle kl 21:30. Þetta var klárlega rómantískasta kvöldið og mæli ég klárlega með báðum þessum stöðum í svona paraferð. Veitingastaðurinn er mjög gamaldags, einungis lýstur upp með kertaljósum. Ótrúlega fallegur og maturinn geggjaður. Aðeins í dýrari kantinum, en algjörlega þess virði.
Sunnudagur:
Við áttum ekki flug heim fyrr en kl 18, svo við náðum að nýta þennan dag alveg ágætlega. Við byrjuðum daginn á smá æfingu í hótel gymminu og tékkuðum okkur svo út af hótelinu kl 11 og fengum að geyma töskurnar okkar þar á meðan við fórum út. Við röltuðum í sirka 40 mínútur að Royal Botanic garden og enduðum svo í hádegismat á Royal Mile á veitingastað sem heitir Bella Italia. Þetta voru svona þeir hlutir sem ég hefði alveg getað sleppt í ferðinni. Garðurinn er örugglega geggjaður á sumrin, en í janúar var hann ekkert svo merkilegur. Það skemmtilegasta við hann, var að við sáum íkorna. Pizzurnar á Bella Italia voru svo bara ekkert spes. Við fórum svo bara upp á hótel aftur að sækja töskurnar okkar og létum panta fyrir okkur leigubíl á flugvöllinn.
Ferðin var svo vel heppnuð í alla staði. Við fengum ótrúlega gott veður, leiðinlegast veðrið var akkúrat daginn sem við vorum að versla og besta veðrið var þegar við fórum í fjallgönguna. Þetta var einhvern veginn bara fullkomið. Eins og veðrið hafði verið með í dagskránni. Þrátt fyrir dagskrá sem leit út fyrir að vera þétt skipuð, var samt nægur tími til að tjilla og slaka á og skoða allt sem okkur langaði að skoða og meira til. Mæli svo mikið með Edinborg!
Takk fyrir að lesa