Föstudags pizzan

Það hefur ekki farið framhjá neinum sem fylgir mér á Instagram að við erum mjög vanaföst hjón þegar kemur að föstudagshefðinni. Föstudagar eru svolítið heilagir hjá okkur en það eru pizzadagar! Ég man ekki hvenær við pöntuðum síðast pizzu þar sem við höfum vanið okkur á að baka alltaf pizzuna okkar sjálf. Eftir að ég smakkaði heimagerða pönnupizzu og brauðstangir þá kýs ég alltaf frekar heimabakað en keypta pizzu.

Við útbúum súrdeig fyrir pizzu og brauðstangir tveimur dögum áður sem við leyfum síðan að hefast fram að föstudagskvöldi. Við útbúum tvö deig svo við getum búið til bæði pönnupizzu og brauðstangir. Deiginu skiptum við þannig að pönnupizzan hafi 2/3 af heildardeiginu en brauðstangirnar 1/3.

Ég fæ reglulega sendar spurningar þar sem ég er spurð hvernig við gerum pönnupizzuna og brauðstangirnar. Ég ætla því að fara með ykkur í gegnum það hvernig við búum þetta til!

Það sem þarf:

  • Pottajárnspanna Lodge (okkar er keypt í Hrím)
  • Pizzasteinn
  • Pizzaspaði

Brauðstangir

Byrjum á að kveikja á ofninum, stillum á pizza stillingu og 250°. Gott er að leyfa pizza steininum að vera í klukkutíma inni í ofninum áður en brauðstangirnar fara inn

Kryddblanda fyrir brauðstangir:

Við setjum alltaf bara einhver hlutföll af kryddunum en þau eru eitthvað í þessa áttina

  • Paprikukrydd 3 tsk
  • Ítölsk hvítlauksblanda 2 tsk
  • Chili pipar 1 tsk
  • Sykur 1 tsk
  • Salt 1 tsk
  • Pizzakrydd 2 tsk

Skref 1 

Við byrjum á að fletja út deigið og setjum ost og jalapenos á helminginn. Deigið er síðan brotið saman í tvennt og gerð smá göt ofan á svo þetta verði ekki að calzone (engin ástæða til að kremja saman kantana).

Skref 2

Bræðum 20 gr af smjöri og blöndum því saman við 20 gr af ólífuolíu (við notum gulu Filippo Berio). Bætum síðan kryddblöndunni út í og penslum yfir brauðstangirnar

Skref 3

Brauðstangirnar eru settar inn í heitan ofninn á pizzastein og bakaðar þangað til þær verða gullinbrúnar. Skerum þær svo í mátulega stóra bita og berum fram með pizzasósu

Pönnupizza

Skref 1

Setjum vel af ólífuolíu á pönnuna þannig að hún þeki vel pönnuna. Setjum síðan dass af salti, pipar og oreganó yfir alla pönnuna.

Skref 2

Fletjum deigið út svo það sé ca jafn stórt og flöturinn á pönnunni (ath. deigið er ekki flatt út á pönnunni sjálfri), deigið er síðan lagt varlega á pönnuna.

Skref 3

Kveikjum undir pönnunni og höfum stillt á 9 af 14 á okkar helluborði. Leyfum pönnunni að hitna meðan við setjum sósuna á pizzuna. Sósan er sett þannig að hún þeki alla pizzuna.

Skref 4

Setjum ost og öll áleggin á pizzuna og leyfum pizzunni svo að malla í smá stund (misjafnt milli helluborða). Það er erfitt að segja nákvæmlega til um það hvenær pizzan er tilbúin að fara inn í ofn en við miðum við að osturinn sé allavega farinn að bráðna í köntunum. Maður lærir smám saman á það hversu lengi best er hafa pizzuna á helluborðinu áður en hún fer inn í ofninn.

Skref 5

Stillum ofninn á grill stillingu (yfirhiti og blástur) og 250° og færum pizzasteininn í næst efsta rekkann. Því næst er pizzan sett inn í ofninn og höfð þangað til hún er orðin gullinbrún.

Verði ykkur að góðu!

Ef þið prófið að baka pönnupizzuna eða brauðstangirnar þá væri gaman að heyra frá ykkur hvað ykkur fannst. Endilega sendið mér skilaboð á Instagram eða taggið mig í story ef þið prófið <3

Þér gæti einnig líkað við