Hættu að naga neglurnar

Þessi færsla er ekki kostuð

Ég hef nagað á mér neglurnar, naglaböndin og alla húðina í kringum neglurnar síðan ég man eftir mér. Stundum hef ég náð að safna einhverjum smá nöglum, en mér hefur aldrei tekist að hætta að naga húðina í kring. Já, ég veit að fyrir suma hljómar þetta ógeðslegt, en svona er bara sannleikurinn minn. Ég hef sem sagt oft náð að vera með einhverjar smá neglur en þá var húðin öll í kring samt bólgin, rauð og full af sárum. Um síðustu áramót fékk ég alveg nóg af þessu. Ég sat á fundi í vinnunni og var bókstaflega að éta á mér puttana þar fyrir framan alla af fullum krafti, án þess að átta mig á því HVAR ég væri stödd.

Ég hef svo oft hugsað um að gera eitthvað til að hætta þessum ljóta ávana en einhvernveginn aldrei gengið með það neitt lengra. Enda ekkert grín að hætta einhverju sem maður hefur gert svo lengi sem maður man eftir sér. En þarna á þessum fundi kviknaði á einhverju hjá mér og ég fann að núna var tíminn kominn. Ég fékk hjálp frá instagram fylgjendum mínum með ráð um hverjar væru áhrifaríkustu leiðirnar til að hætta þessu. Ég fékk svo mörg góð ráð og ákvað að byrja bara á því einfaldasta og ætlaði svo bara að vinna mig í gegnum ráðin þangað til ég væri búin að finna réttu lausnina fyrir mig. Ástandið var orðið það slæmt að ég var endalaust með sár á öllum fingrum sem blæddi úr.

Ég fór í Apótekið og verslaði vöru sem heitir Anti-Bite og er einskonar eitur sem þú berð á neglurnar þínar eins og naglalakk. Það er ógeðslegt bragð af þessu, þannig að um leið og fingurinn kemur nálægt vörunum þínum, þá veistu að þú vilt alveg klárlega ekki fá þetta bragð upp í þig. Ég bar þetta mjög samviskusamlega á mig og hvað haldið þið! Þetta virkaði. Ég hætti að naga, sárin fóru að gróa og neglurnar fóru að vaxa. Í vörunni eru einnig styrkjandi efni fyrir neglurnar, þannig að neglurnar mínar uxu vel og urðu frekar sterkar.

Núna eru komnir um það bil 3 mánuðir og ég finn það að ég verð að vera dugleg að bera þetta á mig, því um leið og bragðið er farið af puttunum, þá er ég farin að naga aftur. Þannig að ávaninn er klárlega enn til staðar. Núna er ég til dæmis með eitt sár því ég gleymdi mér aðeins við að naga í morgun, því ég er ekki með neitt Anti-Bite á nöglunum núna. En þá passa ég mig að bera á mig strax og ég fæ tækifæri til. En að vera með eitt og eitt sár er samt svo mikil framför miðað við hvernig ég var áður, svo ég má ekki brjóta mig niður fyrir það að mér sé ekki að takast að hætta alveg einn, tveir og bingó. Þetta mun taka sinn tíma að brjóta þennan ávana og ég ætla mér að nota Anti-Bite þangað til ég hef náð því. Verst er samt að það er mjög erfitt að borða popp með þetta á nöglunum….

Ef þú ert að eiga við þennan miður skemmtilega ávana þá mæli ég klárlega með því að prófa Anti-Bite. Það er að virka fyrir mig, svo það gæti virkað fyrir þig líka.

Takk fyrir að lesa

Þér gæti einnig líkað við