Í janúar á þessu ári spurði Ágústa Erla stelpan mín mig hvort hún mætti fá göt í eyrun. Ég sagði já og ræddi aðeins við hana hvernig það yrði gert og hvar. Við fórum daginn eftir saman á Bleksmiðjuna en þegar við vorum mættar á staðinn þá vildi hún hætta við. Ekkert að því og við fórum heim. Hún virtist samt mjög ákveðin í þessu þegar við ræddum saman áður en var eitthvað efins þegar kom að þessu og sagði að hún vildi bíða þangað til hún yrði 5 ára (í ágúst).
Hún talaði ekkert um þetta næstu mánuði og var ég ekkert að spyrja hana útí þetta enda vildi ég að þessi ákvörðun kæmi algjörlega frá henni sjálfri. Þann 8. september sæki ég hana í leikskólann og hún segir mér að henni langi rosalega mikið að fá göt í eyrun, við ræðum málið og er hún harðákveðin í þessu! Ég bóka tíma á netinu og við fengum tíma daginn eftir. Hún svaf varla af spenningi nóttina fyrir. Við fórum á Bleksmiðjuna til hennar Glódísar en hún og Adda gera báðar göt í eyrun á börnum og eru þaulreyndar. Þegar þær eru báðar að vinna er hægt að biðja um að gata bæði eyrun í einu og hringdu þau í mig frá Bleksmiðjunni strax þegar ég var búin að bóka tímann og spurðu hvort við vildum það en þá væri ekki laust fyrr en eftir tvo daga. Mín dama var of spennt að fá eyrnalokka og gat ómögulega beðið í einn auka dag þannig að við fórum bara til Glódísar daginn eftir.
Verið að mæla fyrir gatinu.
Glódís er greinilega vön börnum en hún náði mjög vel til Ágústu Erlu og gekk þetta allt mjög vel fyrir sig. Hún byrjaði á því að teikna punkta þar sem að götin yrðu og leyfði henni að skoða líka. Svo settist Ágústa á bekkinn og hún setti götin í hana. Það kom smá tár eftir fyrsta gatið en hún var fljót að hrista það af sér og var til í að klára hitt. Svo þakkaði hún fyrir sig og labbaði alsæl út.
Ástæðan fyrir því að ég valdi Bleksmiðjuna var sú að ég vildi fara til gatara með mikla reynslu og ég vildi að götin yrðu gerð með nál en ekki byssu eins og í skartgripaverslunum. Eftir að hafa lesið mig til um málið fannst mér ekki koma annað til greina en að gera þetta með nál hjá gatara. Með þeim hætti eru til dæmis miklu minni líkur á sýkingu og fer það betur með eyrnasnepilinn.
xo
Instagram -> gudrunbirnagisla
Þessi færsla er ekki unnin í samstarfi.