Glasafrjóvgun og fyrsti þriðjungur

Glasafrjóvgunin og oförvun.

Fengum loksins jákvætt próf eftir aðra glasafrjóvgunarmeðferð og fer ég aðeins yfir það HÉR.

Þar fer ég einnig yfir muninn á meðferðunum sem við fórum í. Fyrri meðferðin gekk vel og var ég orðin mjög hress viku eftir eggheimtuna þá. Maður er deyfður í leginu og fær verkjalyf svo maður ætti ekki að finna fyrir því.

En þessi meðferð gekk ekki eins vel. Eftir 2 daga byrjaði ég að fá ofnæmisviðbrögð við sprautunum. Fór á læknavaktina af því Livio var lokað, var sett á ofnæmislyf og beðin um að hætta að sprauta. Það var frekar vont að heyra og var ég ekki alveg tilbúin í að hætta. Náði á yfirlækninn hjá Livio um kvöldið og skrifaði hann upp á annað lyf fyrir mig sem ég var á síðast. Fyrsta sprautan af því gekk vel en daginn eftir birtist þetta aftur og var því sett á þriðja lyfið og ofnæmisskammturinn hækkaður. Þetta eru aðeins 10 dagar sem maður er sprautaður svo ég ákvað að halda áfram í sameiningu við Livio.

Eggheimtan síðan var alls ekki svo góð eins og síðast, mig grunar að ég hafi fengið mun minni skammt af deyfingu enda fann ég vel fyrir hverri einustu stungu og var það virkilega sársaukafullt, enda stungin 15 sinnum í eggjastokkana til að sækja eggin. Þrátt fyrir að fá tvo auka verkja skammta á meðan þessu stóð, þá dugði það ekki til. Við fengum einn fósturvísi úr þessari meðferð og var hann settur upp þrem dögum seinna. Á uppsetningardegi þá sást smá vökvi í kviðarholinu sem ætti ekki að vera en þau höfðu litlar áhyggjur af því svo uppsetningin var gerð.

2 vikum eftir eggheimtuna er ég ennþá mjög verkjuð að ég gat varla staðið upp og var mjög bólgin. Fer þrisvar í skoðun hjá Livio fram að jólalokun hjá þeim. Ekkert fannst að og var ég send heim að taka 6x panodil á sólarhring sem gerðu ekkert fyrir mig á þessu stigi.

Við áttum að taka próf 23.desember en ég var búin að vera fárveik eftir meðferðina sem var í lok nóv/byrjun des sem ég hafði ekki upplifað í fyrri meðferðinni. Við ákváðum því að svindla kvöldið 21.desember, ef það yrði jákvætt þá myndi það útskýra margt, ef það væri neikvætt þá myndum við fara upp á spítala. Það var jákvætt svo ég tengdi veikindin við það.


23.desember vakna ég kl. 5 um morguninn, tek digital próf og það er jákvætt. Ég fer að finna fyrir verk í annarri öxlinni sem leiddi niður í handlegg. Var búin að vera smá slæm í öxlinni síðustu daga og tengdi það við vöðvabólgu og var mikið með nuddbyssuna á því svæði. En ég googla þetta og fer að lesa um einkenni utanlegsfósturs og er þetta eitt af einkennunum ásamt öllu því sem ég hafði verið að upplifa síðustu daga, mínus blæðingar. Taldi það samt vera frekar snemmt, enda komin aðeins 4 vikur á leið en hringi á kvennadeildina og fer í skoðun hjá þeim samdægurs. Sem betur fer var þetta ekki utanlegsfóstur, heldur oförvun eftir meðferðina. Sem þýðir að eggjastokkarnir héldu áfram að stækka eftir meðferðina, mikill vökvi í kviðarholinu og við lungun svo ég átti erfitt með andardrátt. Ef maður er í hættu á að verða fyrir oförvun þá er uppsetning ekki gerð, því það getur verið hættulegt að verða ófrísk ofan í oförvun, en af því ég var með svo fá egg þá voru litlar líkur á að þetta myndi gerast.

<- Myndin til vinstri er tekin í miðju ferlinu og er þarna smá bólgin. 
-> Myndin til hægri er tekin eftir að ég er greind með oförvun. Þetta eru bólgnir eggjastokkar og vökvi. 

Á þessu stigi er lítið hægt að gera nema bíða og hvíla sig. En þar sem ég var ófrísk þá tekur þetta mun lengri tíma að jafna sig af því líkaminn er að einblína á fóstrið. Þurfti að vera undir ströngu eftirliti af því þetta leit mjög illa út. Venjulega eru eggjastokkarnir í kringum 3,5cm en mínir voru rétt yfir 8cm hvor. Þeir tóku svo mikið pláss að þeir voru að þrýsta á allt annað sem ollu virkilega sársaukafullum verkjum. Yfir jól og áramót var ég með annan fótinn upp á spítala, nokkrar ferðir upp á bráðamóttöku og eitt skipti endaði maðurinn minn á að hringja á sjúkrabíl af því hann kom mér ekki út í bíl, ég lá í keng á gólfinu og kastaði upp af sársauka.

Á jóladag átti ég að mæta í skoðun um morguninn, mæti og bíð inn á læknastofu. Var þá búin að vera að taka verkjatöflur reglulega og eftir að hafa beðið í klukkutíma inn á stofunni þá bið um að fá verkjalyf, en mér er tilkynnt að þær finna engin verkjalyf fyrir mig. Hjúkrunarfræðingarnir kíkja á mig á ca klukkutíma fresti af því það náðist ekki í lækninn en þegar ég er búin að sitja í stofunni í 6 tíma fer ég að engjast um af sársauka. Er hágrátandi þegar einn hjúkrunarfræðingurinn labbar inn, sér hvernig mér leið og segir ,,Nú, ertu svona verkjuð? Ég kem með verkjalyf fyrir þig.‘‘ Varð mjög pirruð af því ég hafði beðið nokkrum sinnum um verkjalyf útaf miklum verkjum.. En hún kom með morfín fyrir mig sem var mjög vel þegið.

Eftir það var ég sett í forgang, færð yfir í stofu með hægindarstól og skoðuð stuttu síðar. Eftir skoðunina er ég síðan lögð inn af því eggjastokkarnir höfðu stækkað á þessum tveim dögum, sem og vökvinn í kviðarholinu búinn að aukast. Næstu daga var ég undir miklu eftirliti og sterkum verkjalyfjum og enda á því að vera rúmliggjandi eitthvað fram í janúar svo þetta nái að jafna sig fyrr.

Meðgangan.

Ég byrjaði að finna fyrir smá einkennum áður en ég átti að taka prófið. Þreyta, ógleði, hiti og eymsli í brjóstunum en tengdi það við meðferðina, ekki við óléttu. Eftir prófið þá eykst ógleðin sem og þreytan en kasta einstaka sinnum upp.

Á 7.viku fer ég í snemmsónar hjá Livio og heyri hjartsláttinn í fyrsta sinn, þvílík tilfinning.♡
Tveim dögum síðar vaknaði ég mjög hress, með engin einkenni en verki sem líktust túrverkjum. Ég vissi að það gæti gerst og er eðlilegt en varð smá óróleg yfir að ég væri mögulega að missa. Ég hringi í Livio og bið um að koma til að heyra hjartslátt, til að róa mig niður. Þar fékk ég svör frá hjúkrunarfræðingi að ég væri líklegast að missa og ég mætti taka 2x Panodil á meðan samdrættirnir gengu yfir.

,,Það þýðir ekkert að fara í skoðun í dag. Þú gætir heyrt hjartslátt í dag en missir svo á morgun.‘‘

Tárin byrjuðu að renna niður og ég varð verulega hrædd eftir þetta símtal.

En ég fékk tíma seinnipartinn, heyri hjartslátt og ræði við lækninn. Hún sagði að það væri ekkert að marka það sem hjúkrunarfræðingurinn sagði við mig og ég ætti alveg að vera róleg. Fannst þetta frekar ónærgætið hjá henni og að gera mig hrædda útaf mögulega engu.

Á 8.viku byrjuðu einkennin að blossa aftur upp og margfalt meiri. Ógleði allan sólarhringinn, uppköst daglega, þreyta og hár hiti.

Núna er ég komin 14 vikur og er þetta ennþá staðan. Vona að ég verði ekki ein að þeim sem upplifir ógleði og uppköst alla meðgönguna. Kúgast við að tannbursta mig og opna ísskápinn svo maðurinn minn sér alfarið um eldamennskuna á heimilinu, sem er svo sem alveg ágætt.

Ég hef ekki enn upplifað nein ákveðin ,,cravings‘‘ þannig séð. En mér finnst voða gott að fá mér klaka á kvöldin og frostpinna eftir uppköst. Brjóstsykra og saltað nammi er ég sólgin í, annars ekkert voðalega hrifin af nammi eins og er. En það er ákveðinn matur sem ég hef hætt að vilja eða allt í einu fundist það vont. Hef t.d. ekki borðað súkkulaði síðan um jólin og er ég með ágætis safn af konfekti og súkkulaðiplötum heima eftir jólin sem ég bíð eftir að geta borðað með góðri lyst.

Eins dásamlegt og þetta ferli er og hversu lengi ég beið eftir þessu, þá er ég strax farin að telja niður vikurnar í að þetta verði búið. Aðalega í að uppköstin fari nú að hætta svo ég geti farið að njóta almennilega og borðað góðan mat.


Instagram -> ingajons

Þér gæti einnig líkað við