Gamla hrærivélin fær nýtt líf

Mamma hefur átt KitchenAid hrærivél frá því ég var lítil og hún virkar ennþá mjög vel. Mamma hefur ekki notað hrærivélina mikið eftir að við systurnar urðum eldri og fengum ég og Hörður því að hafa hana hjá okkur. Hrærivélin var upphaflega hvít en eins og gerist með tímanum var hún farin að upplitast og verða smá gul.

Okkur langaði því að fríska smá upp á hana og spreyja hana í öðrum lit! Hörður er algjör dundari og fór hann því í það mission að spreyja gömlu hrærivélina steingráa. Við völdum þann lit því við eigum KitchenAid blandara í sama lit.

Það eina sem þú þarft er eftirfarandi:

  • Málningarteip
  • Svartur ruslapoki/plast til að hafa undir og breiða yfir hluti í kring
  • Litasprey (keypt í Byko)
  • Gloss sprey (keypt í Byko)
  • Sandpappír
  • Dúkahnífur (til að skera til málningarteipið)
  • Þrifasprey og tuska

Skref 1

Byrjað á því að skrúfa allt af vélinni. Festingin í botninum er tekin af (3 skrúfur), hlífin aftan á vélinni(ein skrúfa), KichenAid merkið (aukahlutalokið) tekið af og KitchenAid borðinn (2 skrúfur). Gott er að geyma allar skrúfurnar á öruggum stað svo ekkert týnist!

Skref 2

Vélin þrifin mjög vel með þrifaspreyi. Gott að nota mjóan hlut t.d. skrúfjárn til að komast í hvern krók og kima.

Skref 3

Pússað vel yfir alla fleti sem á að spreyja með litaspreyinu. Það er mikilvægt að pússa vel svo liturinn haldist. Ekki gleyma að þurrka vel allt ryk af vélinni áður en farið er í næsta skref.

 

Skref 4

Teipað vel yfir allt sem á ekki að lita með spreyinu með málningarteipi. Við teipuðum stjórntakkana, rafmagnssnúruna, hræristautinn og burstaða stálið, skrúfurnar á hliðunum og KitchenAid lokið framan á henni.

Skref 5

Spreyjað fyrstu umferðina af litaspreyinu yfir alla vélina. Best er að spreyja létt og halda ekki inni takkanum á einum stað heldur vera á stöðugri hreyfingu. Gott ráð er að ýta ekki á takkann fyrr en þú ert byrjuð/byrjaður að hreyfa hendina og sleppa takkanum áður en þú stoppar hendina. Með því að hreyfa þig stöðugt og spreyja léttar og margar umferðir kemur þú í veg fyrir tauma.
Hörður fór tvær umferðir með litaspreyinu. Hann beið í 15 mínútur á milli umferða áður en hann spreyjaði umferð tvö.

Skref 6

Þegar litaspreyið er búið að þorna alveg er spreyjað yfir alla vélina með gloss spreyi en við það fær vélin þennan fallega gljáa. Ef það hafa komið dropaför er hægt að leyfa því að þorna í 15min og taka svo sandpappír létt yfir svæðið, þurrka og spreyja aftur áður en farið er í þetta skref.

Gott að hafa í huga

Ég mæli með því að reyna að gera þetta úti eða í rými sem er hægt að lofta vel út í. Það kemur alveg rosalega mikil og sterk lykt af þessu spreyi og því er gott að gera þetta í rými sem er hægt að opna vel glugga í.

Einnig mæli ég með því að setja plastpoka yfir hluti sem eru í kring þar sem það fara sprey agnir út um allt sem geta litað það sem er nálægt vélinni.

Hér sjáið þið vélina þegar hún var þornuð og klár!

 

Vonandi nýtist þetta fleirum sem eru í sömu hugleiðingum,

Þér gæti einnig líkað við