Gæsun

Ég var svo ótrúlega heppin að mínar bestu konur tóku sig saman og gæsuðu mig tveimur vikum fyrir brúðkaupsdaginn og gerðu ógleymanlegan dag fyrir mig! Vááá þetta var svo ótrúlega skemmtilegt! Ég viðurkenni að ég orðin smá hrædd um að verða ekki gæsuð og var frekar svekkt ef það yrði staðan því ég var búin að vera svo spennt fyrir því. Mér finnst gæsun vera stór partur af brúðkaups undirbúningnum. 

Ég var vakin um morgunin af mömmu, systur minni og einni vinkonu, sagt að fara í þægileg föt og drífa mig út í bíl. Ég tók bókstaflega ekkert með mér og vissi ekkert út í hvað ég var að fara. Upp í bíl fór ég og keyrðum við af stað. Leiðin lá til Akureyrar þar sem fyrsta stopp var í bústað þar sem hópur af stelpum beið mín með bröns og búbblur. Þar var ég klædd upp í 80’s dress,  hárið greitt og máluð. 

Við fórum í danstíma hjá Steps Dancecenter og lærðum nokkra dansa sem var mjög skemmtilegt, hristi hópinn vel saman. Síðan voru þær búnar að skipuleggja ratleik sem ég fór í niðri í bæ þar sem voru allskonar verkefni sem ég þurfti að leysa. T.d. lesa upphátt úr bók í bókabúð, taka selfie með túrista og taka skot með ókunnugum. Þetta var mjög skemmtilegur leikur! Mæli með að útbúa einhvern svona leik ef þið eruð að fara að gæsa.

Næst fór hópurinn saman í Skógarböðin sem var ótrúlega næs. Gott að slappa aðeins af eftir frekar busy en mjög svo skemmtilegan dag. Þaðan fórum við svo út að borða á Centrum Kitchen & Bar og enduðum svo kvöldið í bústaðnum þar sem var mikið spjallað. Þar var ég sett í smá yfirheyrslu og spurð nokkurra spurninga til að athuga hversu vel ég þekkti verðandi eiginmann minn sem varð frekar vandræðalegt fyrir mig því miðað við þessar spurningar þekkti ég hann bara nánast ekki neitt. 

Við gistum nokkrar saman í bústaðnum og stelpurnar voru að sjálfsögðu búnar að hugsa fyrir öllu, báðu Atla að pakka í tösku fyrir mig sem útskýrði afhverju ég þurfti ekki að taka neitt með mér þegar við lögðum af stað.

Ég gæti skrifað miklu nákvæmari færslu um hvernig dagurinn var en þetta er svo stikklað á stóru. Dagurinn var geggjaður í alla staði og ætlaði ég ekki að geta sofnað um kvöldið því ég vildi ekki að hann væri búinn!

Þér gæti einnig líkað við