Þegar ég var yngri þá var ég mjög mikið jólabarn. Ég varð alltaf mjög spennt þegar jólin nálguðust og þessi tími var alltaf í uppáhaldi hjá mér. Með árunum fór þetta aðeins að breytast. Fólk í kringum mann fór að eignast börn og halda jólin með þeim en á sama tíma vorum ég og Hörður alltaf tvö og skiptumst á að vera hjá foreldrum okkar um jólin. Þetta hefur alltaf verið alveg yndislegur tími sem við höfum notið með fjölskyldunni en á sama tíma var alltaf smá tómlegt um jólin. Okkur dreymdi alltaf um að vera með eitt lítið kríli með okkur sem fengi að upplifa spenninginn og gleðina sem við upplifðum þegar við vorum sjálf börn.
Jólin 2019 var ég komin um 2 og hálfan mánuð á leið og ég viðurkenni að ég var mjög spennt þegar ég hugsaði til þess að jólin 2020 myndum við vera þrjú.
Aðfangadagur
Hugrún var orðin 5 mánaða á fyrstu jólunum. Ennþá svo lítil að hún áttaði sig ekki almennilega á hvað væri í gangi en það breytti ekki spenningnum hjá okkur. Við byrjuðum aðfangadag á að sofa aðeins út (alveg til 9 haha!). Við tókum því mjög rólega og borðuðum morgunmat uppi í rúmi. Við kíktum svo í hádeginu í grjónagraut til tengdó en Hugrún sofnaði í bílnum á leiðinni í boðið. Þar hittust öll systkini Hödda og börn en við rétt náðum að vera undir 10 manna takmarkinu. Við höfðum verið smá stressuð fyrir þessu þar sem Hugrún er ekki vön því að vera innan um marga og í látunum sem fylgir fjölskylduhittingunum hjá Hödda. Hún á það til að verða smá lítil í sér og fara að gráta þegar það eru margir.
Við mættum á staðinn og byrjuðum á að koma Hugrúnu fyrir í vagninum svo hún gæti sofið áfram úti á svölum. Tveimur tímum síðar vaknar litla dúllan og kemur með okkur inn í veisluna. Það var mikill léttir að Hugrún var mjög kát og fannst gaman að sjá öll frændsystkini sín. Hún var algjörlega miðpunktur athyglinnar og fannst gaman að fá að vera í fanginu hjá ættingjum sínum og fá að kynnast þeim betur.
Aðfangadagskvöld
Við fórum smá heim í rólegheit og Hugrún lagði sig eftir hádegisboðið. Ég nýtti tímann í að græja mig á meðan svo við gætum verið tilbúin snemma. Þegar litla daman vaknaði klæddi ég hana í fínu jólafötin. Við fórum svo snemma til mömmu og pabba þar sem við borðuðum dýrindis mat. Hugrún var áfram svo kát og spennt og það gekk svo ótrúlega vel með hana! Hún fékk sætar kartöflur með smjöri og lagði sig svo aðeins eftir matinn. Þegar hún vaknaði kláruðum við að opna pakkana en hún sýndi þeim ekkert sérstakan áhuga. Hún virtist vera spenntari fyrir pakkaböndunum og umbúðunum en innihaldinu.
Seinna um kvöldið komu Regína systir, Danni og Aldís Lea dóttir þeirra til mömmu og pabba. Litlu skvísurnar urðu svo spenntar að sjá hvora aðra og Hugrún virtist allt í einu fá auka orku þegar hún sá að Aldís var komin. Við fórum heim um 10 leytið þar sem Hugrún var orðin vel þreytt (enda háttatíminn hennar yfirleitt um 9). Við vorum búin að klæða hana í náttföt áður en við lögðum af stað heim og hún fór beint upp í rúmið þar sem hún sofnaði samstundis. Litla fjölskyldan var mjög þreytt en ánægð með daginn enda var þetta yndislegur dagur með fjölskyldunni.
Áramótin
Um áramótin vorum við heima hjá Gunna bróður hans Hödda og fjölskyldu. Þar hittust tengdó, systkini hans Hödda og börn. Við borðuðum öll saman virkilega góðan mat en systkinin og tengdó skiptu með sér réttum og tókum við að okkur að koma með forréttinn. Hugrún var nývöknuð þegar við fórum til Gunna og Tinnu konunnar hans en við mættum fyrst í boðið. Hún fékk því að skoða sig um og venjast aðstæðum meðan fleiri og fleiri mættu á staðinn. Hún stóð sig alveg virkilega vel og hún var svo kát þrátt fyrir að það væru mikil læti. Hugrún fékk að borða sætar kartöflur með smjöri á meðan við borðuðum matinn og hún var alveg hæst ánægð! Eftir matinn var hækkað aðeins í tónlistinni og litla daman var svo spennt að hún gat ekki hamið sig með að hlægja og dansa þar sem hún sat eins og drottning í stól við enda borðsins.
Skapið breyttist aðeins þegar klukkan var að verða 9 en þá var hún farin að vera þreytt. Við höfðum tekið þá ákvörðun að reyna að svæfa hana í vagninum sínum inni í herbergi og ef það gengi ekki myndum við fara heim. Við reyndum að svæfa hana í dágóðan tíma en litla daman neitaði að hætta að gráta (enda í nýjum kringumstæðum og mikið af sprengingum í gangi). Við tókum því þá ákvörðun að fara heim með hana og njóta restina af gamlárskvöldi þrjú. Við lögðum Hugrúnu í rúmið sitt og hún var sofnuð mjög fljótlega, svaf í gegnum alla flugeldana og vaknaði ekkert fyrr en um morguninn!
Áramótin voru því töluvert frábrugðin fyrri áramótum þar sem ég og Höddi enduðum heima hjá okkur þar sem við horfðum tvö saman á skaupið og skáluðum á miðnætti. Þrátt fyrir að partýið hafi endað snemma hjá okkur þá var þetta yndislegt kvöld.
Ég vona að þið hafið öll haft það gott um hátíðirnar <3
Ef ykkur langar að fylgjast meira með okkur fjölskyldunni mæli ég með að fylgja mér á Instagram