Þetta er eitthvað sem ég hélt að ég myndi aldrei lenda í. Ég veit að það er mjög algengt að konur missi fóstur, ein af hverjum þremur konum missa fóstur einhvern tíma á lífsleiðinni. En þegar ég og maðurinn minn ákváðum fyrir rúmum sjö árum að eignast barn að þá tókst það strax. Það sama má segja um seinni stelpuna okkar. Það tók tvo eða þrjá egglos hringi sem er ekki mikið og því miður alltof mörg pör sem þurfa að reyna í mikið lengri tíma. Þess vegna var þetta kannski líka svona sárt og mikið sjokk, því allt hafði gengið vel áður. En síðasta október þá verð ég óvænt ólétt. Ég segi óvænt því að þetta var ekki á planinu hjá okkur, ég er og var á getnaðarvörn og var þetta það síðasta sem við vorum að hugsa um. Það er búið að vera mjög mikið af gera hjá okkur undanfarna mánuði, mikil keyrsla og erum við mjög ánægð með stelpurnar okkar tvær og viljum njóta með þeim í einhvern tíma. En í byrjun nóvember finn ég að það er eitthvað að gerast í líkamanum mínum, verð strax mjög óglatt í byrjun þungunar. Við tökum þungunarpróf og það er jákvætt. Smá sjokk. Við í þessu tímabundna 50fm húsi á meðan við erum að byggja og að keyra yfir heiðina á hverjum degi. Ég var loksins byrjuð í meistaranáminu sem ég var alltaf að fresta og BAAM ólétt. Við tók smá stress en fljótlega varð mikil gleði. Við ræddum bara að við myndum massa þetta, gera þetta saman eins og allt annað.. fínt líka að drífa þriðja barnið bara af!
Þetta er ótrúlega skrýtið, ég var ekkert að hugsa um barneignir þegar þetta gerðist en allt í einu var maður orðinn svo spenntur fyrir framhaldinu, að verða fimm manna fjölskylda, að stelpurnar myndu eignast lítið systkini.
Kannski myndi koma lítill Óli. En eins og með fyrri tvær þunganir þá reynir maður að vera rólegur fram að 12. viku. Og vorum við á sama stað þarna. Bíðum og sjáum hvort allt verði ekki í lagi. Hugur manns fer samt strax í annan gír. Maður fer að plana lengra fram í tímann, maður hugsar öðruvísi, örugglega einhverjar sem tengja við það.
Þegar ég var komin sjö vikur á leið byrjaði að blæða. Ég fékk óþægilega tilfinningu yfir mig enda gerðist þetta þegar ég var ólétt af seinni stelpunni minni (hægt að lesa hér). En af því að allt endaði vel síðast vissi ég að þó það væri að blæða þýddi það ekki endilega eitthvað slæmt. Daginn eftir blæddi ennþá meira. Ég hringi á kvennadeildina en þær geta ekkert gert segja þær, ég vissi það svo sem alveg. Ég hringi daginn eftir og fæ tíma hjá kvensjúkdómalækni sömu vikuna. Við förum bæði í tímann en eins og við vissum er of snemmt að sjá eitthvað þegar maður er kominn svona stutt á leið. Ég bara gat ekki beðið. Ég þurfti að fá einhver svör strax. Læknirinn býður mér að fara í blóðprufur. Tvær blóðprufur með tveggja daga millibili ef ég man rétt og þá er hægt að sjá muninn á hormónagildinu. Ef hormónin minnka milli prufa að þá er fóstrið látið. Næstu daga heldur áfram að blæða. Innst inni vissi ég svarið en það var samt vonarneysti í mér að allt yrði í lagi og fór ég í þessar blóðprufur. Læknirinn segist ætla að hringja í mig strax daginn eftir með niðurstöðurnar. Hann hringir ekki en ég þurfti bara að fá að heyra niðurstöðuna, þó ég vissi. Ég hringi korter í fjögur á læknamóttökuna og segist nauðsynlega þurfa að heyra í lækninum. Læknirinn hringir klukkan fjögur og segir: „jáááá þetta er bara búið“ ég svara smá undrandi „haa“ því mér fannst þetta frekar harkalegt svar. „Já eins og við héldum að þá er líkaminn að hreinsa sig, þið getið bara reynt aftur eftir næsta tíðarhring“. Ég segi hálf meyrð að við hefðum nú ekki verið að reyna neitt með þessa þungun en þakkaði fyrir upplýsingarnar og kvaddi. Mér fannst hvernig þessi læknir tilkynnti þetta mjög leiðinlegt, hann var mjög ónærgætinn og það var bara eins og hann hefði verið að lesa veðurfréttirnar upp af skjá.
En eftir símhringinguna brotnaði ég alveg niður. Ég varð alveg rosalega sorgmædd. Þetta var tilfinning sem var svo sterk en samt svo óvænt. Ég leyfði mér að gráta mikið næstu daga.
Ég fór alveg í vinnuna og gerði það sem þurfti að gera heima en lagðist svo upp í rúm í nokkur skipti og bara grét. Fann líka hvað ég þurfti á því að halda. Var búin að vera undir miklu álagi, allskonar álagi og fann hvað ég þurfti að losa fullt af tilfinningum. En svo eftir smá tíma þá kom einhverskonar „sátt“ yfir mig. Þetta bara gerðist, þetta gerist. Ég fór í gegnum allskonar tilfinningar og fékk mikinn stuðning frá manninum mínum og nánustu fjölskyldu. Ég knúsaði stelpurnar mína extra mikið og fast á þessum tíma. Hef alltaf verið þakklát fyrir þær og veit að það er ekki sjálfsagt að geta eignast börn. En ég var full af þakklæti líka í þessu sorgarferli. Í dag hugsa ég ekki mikið um þetta. Þetta poppar stundum upp og er það alveg skiljanlegt en maður veit aldrei hvað gerist í framtíðinni. Eina stundina langar mig að reyna aftur og aðra stundina er ég bara sátt með hlutina eins og þeir eru. Við þurfum ekkert að ákveða núna <3
Þið allar sem hafið eða eruð að ganga í gegnum þetta, knús til ykkar. Þetta er sárt en munið að þið eruð ekki einar.
xo
Instagram–> gudrunbirnagisla