Það er svo ótrúlega mikið magn af röngum upplýsingum á kreiki um aðferðir til að grennast og byggja upp vöðva. Ég vann sem einkaþjálfari í mörg ár og stundum var ég bara hálf orðlaus yfir þeim upplýsingum sem fólk hafði fengið, annað hvort á netinu eða jafnvel frá öðrum þjálfurum. Mig langar að deila með ykkur þeim mýtum sem ég heyrði hvað oftast og mínum svörum við þeim.
“Ég vil ekki lyfta þungt því ég vil ekki verða of mössuð”
Engar áhyggjur. Það gerist ekki svo auðveldlega fyrir konur. Konur eru yfirleitt ekki með nægilega mikið magn af testosterone til þess að byggja upp stóra vöðva. Það þýðir ekki að konur geti ekki byggt upp vöðvamassa, en það krefst gífurlega mikillar vinnu og er ekki að fara að gerast með því að lyfta lóðum þrisvar til fjórum sinnum í viku. Konur þurfa virkilega að hafa fyrir því, það gerist ekki bara “óvart”.
“Hnébeygjur eru slæmar fyrir hnén”
NEI, þær eru það nefnilega alls ekki. Hnébeygjur eru meira að segja góðar fyrir hnén, séu þær framkvæmdar rétt að sjálfsögðu. Alveg eins og með flest allar æfingar, ef þær eru framkvæmdar rangt þá geta þær valdið skaða. En sé hnébeygja framkvæmd rétt þá styrkir hún alla vöðva og liði í kringum hnén og líkur á meiðslum minnkar.
“Ég vil bara minnka magann”
Þú velur ekki hvar þú missir fitu. Það er bara einfaldlega ekki hægt að stjórna því. Algengasta spurningin sem ég fékk þegar ég vann sem einkaþjálfari var: “Hvernig losna ég við þetta spik hér?” og var þá ýmist bent á lærin, magann eða upphandlegg. Svarið er voðalega einfalt. Þú getur ekki valið að missa fitu á ákveðnum stað.
“No pain, no gain”
Þetta er bara alls ekki rétt. Öll hreyfing er góð. Það er alveg hægt að taka æfingu án þess að örmagnast eða vera með harðsperrur í marga daga eftir á. Það þýðir ekki að æfingin hafi ekki verið góð.
“Ég vil bara tónast”
Það er ekki til neitt sem heitir að tónast. Þetta er orð sem var í raun bara búið til til þess að höfða til kvenna í markaðsefni fyrir æfingar og æfingabúnað. Vöðvar geta stækkað og minnkað, en þeir geta ekki orðið mýkri eða stífari, þar af leiðandi tónar þú ekki vöðva.
Mig langar svona í lokin að hvetja alla til þess að hreyfa sig fyrir heilsuna, en ekki einungis fyrir útlitið. Það er svo mikið frelsi og minnkar pressuna varðandi hreyfingu. Þú stjórnar því hvort sem er voðalega lítið hvernig þinn líkami er uppbyggður og því er langbest að hugsa bara vel um hann og njóta lífsins.
Takk fyrir að lesa