Fæðingarsagan mín

Fæðingarsagan mín

Ég var virkilega heppin með meðgöngu en hún gekk mjög vel fyrir sig og líkaminn minn var mjög góður alla meðgönguna. Það var ekki fyrr en í lokin (eftir 39 viku) sem meðgangan fór að verða krefjandi en það var þá aðallega vegna mikillar spennu og óþolinmæði þar sem ég átti erfitt með að bíða mínútu lengur eftir að hún kæmi í heiminn.

Síðustu dagar fram að fæðingu

Aðdragandinn að fæðingunni var mjög langur hjá mér. Ég byrjaði að finna fyrir samdráttum og verkjum miðvikudaginn 15 júlí sem héldu svo áfram að koma næstu daga hjá mér. Þeir voru óreglulegir og duttu niður annað slagið, stundum í marga klukkutíma og virtust ekki ætla að verða nógu sársaukafullir til að það væri raunverulega komið að þessu.

Á settum degi, 18. júlí fór ég að finna fyrir miklum þrýsting og verki í leginu (eins og slæman túrverk) og fann að samdrættirnir voru farnir að vera kröftugari en þeir höfðu verið áður. Við enduðum á því að fara upp á spítala og kom þá í ljós að ég var einungis komin 2 cm í útvíkkun en leghálsinn var búinn að styttast hjá mér. Við vorum því send aftur heim og samdrættirnir héldu áfram næstu daga á svipuðu róli.

20. júlí fór ég að finna alveg óbærilega verki og hríðarnar voru orðnar töluvert öflugari en ég hafði áður fundið og við ákváðum að kíkja upp á spítala. Kom í ljós að ég var komin 4 cm í útvíkkun og lítið búið að breytast hjá mér frá því ég mætti upp á spítala 18. júlí. Það kom í ljós að kollinn á litlu var örlítið skakkur í grindinni og var það líklegast ástæðan fyrir því að allt væri að ganga svona hægt. Þar sem allt var að ganga svo hægt hjá mér þá var mér boðið að fá morfín verkjameðferð og gista á spítalanum yfir nóttina, í von um að ég gæti eitthvað hvílt mig. Hins vegar gekk það ekki og ég svaf ekkert alla nóttina þrátt fyrir sterk verkjalyf og morfín.

21. júlí héldu þessir sáru samdrættir áfram og ég átti mjög erfitt með að þrauka í gegnum daginn þar sem engar verkjatöflur virkuðu og baðið virkaði ekki heldur til að minnka sársaukann sem fylgdi. Við fórum upp á spítala um kl. 15 og kom þá í ljós að útvíkkunin var aðeins búin að aukast í 5 cm. Mér var boðið að fá hríðarstoppandi sprautu, svefntöflur og sterkar verkjatöflur og var svo send aftur heim til að reyna að sofna smá. Ég náði loksins að sofna í tvo tíma eftir að hafa verið vakandi í 2 sólarhringa vegna sársauka. Vaknaði aftur um 18:30 og fann að hríðarnar voru orðnar verri og verkirnir fóru versnandi þannig að ég átti erfitt með að anda mig í gegnum þær. Ég þorði hins vegar ekki að fara strax aftur upp á spítala þar sem ég vissi að Höddi fengi ekki að vera með mér fyrr en ég væri allavega komin 6 cm í útvíkkun og virk fæðing væri hafin hjá mér.

Farið að sjá fyrir endann á þessu öllu

Klukkan 22 þann 21. júlí gafst ég upp á að vera heima þar sem verkirnir voru alveg óbærilegir og ég orðin alveg örmagna. Ég er skoðuð og kemur í ljós að ég er komin í 6 cm í útvíkkun, leghálsinn næstum fullstyttur en ennþá nóg eftir, allavega miðað við hvað útvíkkunin hafði gengið hægt fyrir sig hingað til. Við vorum send inn á fæðingarherbergi þar sem ég fékk gas til að anda að mér. Þar sem hríðarnar voru orðnar svo slæmar á þessum tíma og á 2-3 mínútna fresti þá var ég farin að þurfa að hafa grímuna stanslaust á mér. Ef ég tók hana af mér þá fann ég svo mikla verki að höndlaði það ekki.

Ljósmóðirin gaf mér þá tvo valmöguleika, ég gat fengið hríðarstoppandi, morfín og verkjameðferð svo ég gæti reynt að sofna og safnað kröftum fyrir fæðingunni eða ákveðið að keyra þetta áfram og reyna að koma prinsessunni í heiminn sem fyrst. Ég var alveg út úr heiminum vegna verkja, alveg örmagna og var orðin þannig að ég gat ekki svarað hvað ég vildi gera. Við vorum heppin að Björg, frænka Hödda og ljósmóðir, var á bakvakt þessa nóttina og var einmitt kölluð út – en hún tók á móti Hödda á sínum tíma. Ég var þakklát að vera með ljósmóður sem við þekktum og treystum fullkomlega. Hún kom með þá tillögu að ég fengi mænurótardeyfingu og að við myndum keyra fæðinguna í gang þar sem hjartslátturinn hjá litlu dúllunni var farinn að flökta aðeins of mikið og hún farin að hafa áhyggjur. Ég ákvað að fara eftir ráðum hennar, enda var ég farin að þrá það að fá hana í heiminn sem fyrst. Ég fékk því mænurótardeyfingu klukkan 2 um nóttina og fann strax smá mun á verkjunum. Ég hélt þó áfram að finna fyrir verkjum hægra megin í leginu í hverri hríð og þurfti áfram að nota gasið áfram með deyfingunni. Klukkan 4 var ákveðið að reyna aftur mænurótardeyfingu og staðsetja hana betur svo hún myndi virka almennilega. Þegar það var komið leið mér svo mikið betur og ég fór loksins að geta slakað almennilega á. Nú var ég komin á þriðja sólarhring án svefns en þar sem ég vissi að það var stutt eftir þá var ég samt full af orku eftir að mænurótardeyfingin fór að virka almennilega.

Um 5 leytið var ákveðið að sprengja belginn hjá mér þar sem hjartslátturinn hjá litlu var búinn að vera flöktandi og ljósmóðirin og fæðingarlæknirinn voru farnar að hafa áhyggjur af henni. Þar sem þetta hafði verið svo langur aðdragandi þá var litla daman orðin þreytt og vildi komast sem fyrst í heiminn.

Klukkan 7 um morguninn var útvíkkunin komin í 9,5 cm hjá mér, leghálsinn fullstyttur og daman búin að færa sig neðar í grindinni. Ég fékk þá bolta sem ég hossaðist á til að reyna að koma henni neðar í grindina og fá útvíkkunina alveg í 10 cm. Um 8:30 fór ég að finna fyrir rembingstilfinningu og við sáum að hún var búin að færa sig aðeins neðar en þó ekki nógu mikið. Ég var send inn á bað til að reyna að pissa en það endaði ekki betur en svo að það leið yfir mig á klósettinu og vaknaði ég með ljósmóðurina, Hödda og aðra ljósmóður yfir mér sem hjálpuðu mér upp í rúmið. Þegar ég hafði jafnað mig prófuðum við að taka tvo rembinga og biðum svo í hálftíma og leyfðum henni að komast neðar í grindina.

Klukkan 9:40 byrjaði rembingurinn af alvöru en þá var litla komin nógu langt niður í grindina og rembingstilfinningin orðin mjög mikil hjá mér. Fæðingin gekk mjög hratt fyrir sig og var ég aðeins í um 35 mínútur að koma henni í heiminn eftir að ég byrjaði að rembast. Sem betur fer tók rembingurinn ekki lengri tíma þar sem hjartslátturinn hjá litlu var farinn að hægjast mikið og voru ljósmæðurnar og læknarnir farnir að hafa áhyggjur af henni. Daman kom svo í heiminn klukkan 10:15 þann 22 júlí!

Tilfinningin að fá þetta kraftaverkabarn í hendurnar var ólýsanleg og við hjónin höfum aldrei verið jafn hamingjusöm og þegar við sáum hana í fyrsta skipti.

Flækjan í lokin – fæðing fylgjunnar

Eftir að daman var komin í heiminn þá var eftir að fæða fylgjuna. Ljósmóðirin bað mig um að rembast annað slagið til að reyna að fá hana út en ekkert gekk. Ég var búin að reyna í meira en hálftíma en fylgjan virtist ekki ætla að koma út. Inn komu fleiri ljósmæður og reyndu þær í sameiningu að hjálpa mér að koma fylgjunni út, en hún var föst í leghálsinum hjá mér. Ég rembdist og þær þrýstu á legið mitt og nudduðu til að reyna að losa hana. Í lokin rembdist ég eins og ég gat og ljósmóðirin gróf í leiðinni fylgjuna út. Þegar fylgjan kom loksins út fór að blæða mikið hjá mér og ljósmæðurnar þurftu að reyna að stoppa blæðinguna með því að þrýsta fast á legið mitt í von um að það myndi stoppa blæðinguna hjá mér. Sem betur fer náðu þær að stöðva blæðinguna eftir smá tíma svo ég þyrfti ekki að fara í aðgerð en ég missti rétt rúmlega líter af blóði við þetta.

Þar sem ég hafði misst svona mikið blóð þá var ég með mjög mikinn svima eftir fæðinguna og var rúllað niður á sængurlegudeildina. Ég var mest megnis rúmliggjandi í sólarhring eftir fæðinguna þar sem ég fékk svo mikinn svima ef ég reyndi að standa upp. Eitt skiptið sem ég stóð upp til að pissa endaði á því að það leið yfir mig svo það var ákveðið að við yrðum lengur uppá spítala. Við fórum svo heim seinni partinn 23 júlí og ég viðurkenni að það var ljúft að fá loksins að sofa í rúminu okkar næstu nóttina.

Við hjónin erum alveg í skýjunum og fyrstu dagarnir heima hafa gengið eins og í sögu. Ég er endalaust þakklát fyrir alla hjálpina sem við fengum á spítalanum og hversu vel var hugsað um mig þegar ég var komin inn á fæðingarherbergi.
Nú taka við yndislegir tímar þar sem við fjölskyldan ætlum að njóta þess að vera loksins orðin þrjú!

Ef þið viljið fylgjast með þá mæli ég með að ýta á follow á Instagram hjá mér <3

Þér gæti einnig líkað við