Það var laugardagurinn 22. nóvember og var ég komin viku fram yfir. Ég var búin að vera í sjálfskipaðir sóttkví og vorum við því bara í kósí heima. Planið þennan dag var að kíkja í smá göngutúr og reyna koma þessu barni út 😅 Þegar líða tók á daginn var ég vör við minni hreyfingar. Ég var fremur áhyggjufull því ég var vön að hún hreyfði sig mjög mikið. Ég hringi uppá deild og þær vildu fá mig strax í rit. Klukkan er 16 þegar ég mæti til þeirra. Þær tóku rosa vel á móti mér og fannst mér ég vera mjög örugg þarna. Ég var búin að vera í ritinu í smá tíma þegar krílið fer á fleygi ferð. Það sem ég var fegin að finna hana hreyfa sig 🥰 Þær vildu þó hafa mig lengur til að taka nákvæmt rit og ganga úr skugga um að allt væri ekki bókað í lagi. Ég er í ritinu til klukkan 18 og er ég send heim til að hvíla mig. Mér voru gefnar verkjatöflur og svefnlyf sem ég átti að taka inn áður en ég færi að sofa.
Ég er ný komin heim þegar ég fæ kröftuga hríð
Klukkan var um 19 þegar við komum heim og ég aðeins rólegri vitandi að það sé allt í góðu með krílið. Renni fer að sækja Klöru úr pössun og kveiki ég á sjónvarpinu þegar ég fæ þessa rosalegu hríð. Alla síðustu viku hefði ég verði með mikið af samdráttum en þessi var allt annað 😮 Þetta jókst og varð alltaf meira þannig ég hringdi aftur uppá deild og lét vita af mér. Ég sem var ný komin heim af spítalanum og ætlaði snemma að sofa 😅 Ég ætlaði að reyna vera eins lengi heima og ég gæti útaf ástandinu en hríðarnar voru svo miklar og kröftugar að ég endist aðeins til klukkan 22.
Við mætum aftur uppá deild og kemur í ljós að ég er aðeins með þrjá í útvíkkun og mátti því ekki leggjast inn. Öll hvíldarherbergin voru einnig full því margar voru í gangsetningu þannig ekki var pláss fyrir mig þar. Þær sögðu mér að skella mér bara á rúntinn eða fá mér eitthvað að borða sem við gerðum. Klukkan er 22:30 þegar við förum af deildinni og skelltum við okkur í lúgu hjá Aktu Taktu og ég með hríðir dauðans 😅 Ég kem Einhvern veginn niður samlokunni sem ég pantaði mér þegar ég segi við Renna að fara með mig aftur uppá deild, klukkan er þá ný orðin 23. Verkir voru svo miklir að ég gat hreinlega ekki meira. Ég vildi fara komast í baðið og fá glaðloft. Klukkan er rétt yfir 23 þegar við komum aftur uppá deild og er ég komin með sjö í útvíkkun! Þetta er allt að gerast rosalega hratt og fáum við strax herbergi því daman er greinilega að flýta sér í heiminn.
Við fáum rosa fínt herbergi með baði og fer ég strax í bað og með loftið góða. Ég náði samt ekki að torga lengi því hríðarnar voru svo miklar. Um miðnætti bið ég um deyfingu og fæ ég hana mjög fljótlega. Ég var ótrúlega hrædd við að fá deyfinguna því síðast gekk það mjög brösulega og þurfti að stinga mjög oft. Allt gekk þó vel og þurfti hann aðeins að stinga einu sinni. Ég deyfðist hinsvegar bara öðrum megin þannig ég náði ekki að fá þá slökun sem ég vonaðist til. Rétt eftir þrjú byrja ég að finna fyrir rembingsþörf eitthvað sem ég fann ekki síðast þannig ég læt ljósuna vita. Ljósan sprengir síðan belginn og þá fer allt að gerast. Ég rembist í fimm mínútur og mætir daman kl.3:15 alveg fullkomin. Daman er 3280 gr og 50 cm.
Fylgjan kom 3:20 og var ekkert mál að fæða hana. Ég var frekar spennt að fá að skoða hana þar sem ég vildi alls ekki sjá hana síðast og sá smá eftir því. Okkur var boðið að hvíla okkur í fæðingarherberginu sem við þáðum og hvíldum við okkur þar til 8:30. Þá kom læknir og skoðaði dömuna sem fékk topp einkunn. Ég var miklu sprækari eftir þessa fæðingu og allt gekk svo vel að við vorum farin heim kl 10😊
Við erum í skýjunum með hana 💖
Það var mjög þægilegt að fara inní þessu fæðingu vitandi hvað væri framundan sem róaði mig mjög mikið. Líkaminn minn var miklu betur undirbúinn fyrir þetta heldur en síðast og er ég afar þakklát hvað þetta gekk vel. Ég var síðan mjög heppin með ljósmóður sem var algjör draumur og hugsaði rosalega vel um okkur öll.
Ég hef þetta ekki lengra, takk fyrir að lesa 💖