Fæðingarsagan

Ég var bókuð í gangsetningu þann 7.september, komin þá 41v+1d en daman ákvað að koma sjálf þann 5.september.

Tengdamamma var að halda upp á afmælið sitt laugardaginn 4.september og bauð stórfjölskyldunni í brunch á Vox. Við vorum búin að ákveða að mæta ekki svona stutt í fæðingu, en þegar ég vakna um morguninn þá langaði mig allt í einu svo mikið í brunch og ákváðum við með rúmum klukkutíma fyrirvara að skella okkur.

Við erum mætt um 14 leytið og þegar ég stend í röðinni þá finn ég fyrir smá leka og hugsa ,,nei andskotinn, er ég núna hætt að geta haldið þvagi?‘‘. Ég labba rösklega inn á bað og þarf að bíða og önnur kona við hliðina á mér. Ég finn ennþá meiri leka og er hann kominn í gegnum sokkabuxurnar og byrjar að dropa á gólfið. Ég reyni að fela þetta fyrir konunni við hliðiná því ég vildi ekki að hún myndi taka eftir því að ég væri að pissa á mig við hliðina á henni. Um leið og ég kemst inn á bað þá kemur gusa og þá geri ég mér grein fyrir því að ég var ekki að pissa á mig, heldur að vatnið var að fara. Sem betur fer var mágkonan mín inn á baði einnig svo hún gat farið fram og látið Frey vita. Þar sem við vorum nýmætt og rétt byrjuð að borða þá voru þau á Vox svo yndisleg að henda smá mat í take away fyrir mig. Við drifum okkur svo út í bíl og heyrði ég í fæðingardeildinni til að láta vita af okkur en út í bíl byrjaði ég að finna fyrir smávegis verkjum svo við fórum heim að taka því rólega þangað til þeir myndu versna.

Verkirnir versnuðu mjög fljótt og örlítil blæðing með, sem ég vissi að væri alveg eðlilegt, en við ákváðum að fara upp á fæðingardeild til öryggis til að vera viss um að allt væri í lagi. Klukkan 17 erum við mætt upp á deild og 2-3 mínútur á milli hríða en alveg þolanlegar. Reynt var að gera innri skoðun til að athuga stöðuna, en ég var orðin svo slæm af grindargliðnun á þessum tímapunkti að það var ekki hægt vegna sársauka svo ég var send heim með verkjalyf. Ég læt renna í baðið um leið og ég kem heim og það slær verulega á verkina. Ég geri eina tilraun til þess að fara upp úr baðinu og leggjast upp í rúm en þá urðu verkirnir mun verri svo ég lét renna aftur í baðið og var þar eitthvað frameftir. Um 22 leytið eru verkirnir orðnir óbærilegir svo við förum upp á deild því þarna var orðið ansi stutt á milli. Við biðum í nokkrar mínútur inn á skoðunarherberginu og ég hugsaði ,,alveg týpískt að ég sé aðeins með um 2-3 í útvíkkun og verð send heim“, af því það gengur yfirleitt hægar með fyrsta barn. En við skoðun kom í ljós að ég væri komin með allavega 6 í útvíkkun svo við fórum beint inn á fæðingarstofu þar sem ég fékk glaðloft.
Þvílík himnasending sem það var!

Planið var að gera þetta eins náttúrulega og ég gat og að sleppa deyfingu en myndi taka því ef aðstæðurnar yrðu þannig en rétt áður en ég náði fullri útvíkkun gat ég ekki meir og bað um deyfingu. Ljósunni fannst það löngu tímabært og minnti mig á það áður að það er aldrei of seint að biðja um deyfinguna. Það gekk frekar brösulega og svæfingarlæknirinn þurfti að stinga mig ansi oft. Greyið maðurinn fékk alveg að heyra það frá mér þegar hann var sífellt að segja mér að slaka á þegar ég var í miðri hríð. Þetta gekk að lokum og var fínt að fá smá pásu en við skoðun eftir á kom í ljós að belgurinn hafði aðeins rofnað ofan frá og var því belgurinn sprengdur, full útvíkkun komin og ég mátti byrja að rembast. Eftir 40 mínútur af rembing var hjartslátturinn hennar farinn að hægast verulega og þurfti hún að koma út sem fyrst. Ljósan leyfði mér að finna fyrir kollinum og gaf mér tækifæri til að koma henni út í einum rembingi áður en gripið yrði inn í. Það hvatti mig áfram og ég gaf mig alla fram í að koma henni út og hún mætti í heiminn kl. 02:09, 12 tímum frá því að vatnið fór.
Kom síðan í ljós að naflastrengurinn var þrívafinn utan um hálsinn á henni.

Ólýsanleg tilfinning að fá hana loksins í fangið. 

05.09.21
kl. 02:09
17 merkur, 53 cm og 4265 grömm. ♡

Instagram -> ingajons

Þér gæti einnig líkað við